27.05.1960
Sameinað þing: 54. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í D-deild Alþingistíðinda. (2902)

35. mál, Siglufjarðarvegur ytri

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Á þskj. 55 fluttu þm. Norðurl. v. till. til þál., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að athuga möguleika á öflun lánsfjár, allt að 12 millj. kr., til að ljúka lagningu Siglufjarðarvegar ytri, Strákavegar. Verði athugun þessari lokið sem fyrst og eigi síðar en svo, að niðurstaða liggi fyrir 15. marz 1960.“

Ýtarleg grg. fylgdi þessari þáltill., þar sem bent var á þá miklu þýðingu, sem þessi vegargerð mundi hafa fyrir Siglufjörð og Skagafjarðarsýslu, og undirstrikað var, að hún mundi þýða byltingu í samgöngumálum þessara tveggja byggðarlaga. Þessari þáltill. var á sínum tíma vísað til fjvn. Álit hennar er nú á dagskrá, og þar segir svo m.a., með leyfi forseta:

„Það er skoðun n., að umræddar vegagerðir hafi mjög mikla þýðingu fyrir atvinnulíf viðkomandi byggðarlaga. Áætlað er af vegamálastjóra, að þurfa muni um 16 millj. kr. til að ljúka lagningu Strákavegar og 7 millj. kr. til að ljúka lagningu Múlavegar. Þær lántökuupphæðir, sem till. gera ráð fyrir, nægja því engan veginn til að ljúka umræddum vegum, miðað við núverandi verðlag.“ — Síðan segir: „Verður að telja mjög vafasamt, þótt lánsfé væri fáanlegt, að viðkomandi sveitarfélög gætu risið undir vaxtagreiðslum af slíkum lánum, enda liggur ekkert fyrir um það, að þau séu tilbúin að taka á sig slíkar kvaðir, miðað við þessar fjárhæðir og núverandi vaxtakjör. Enda þótt n. telji á þessu stigi ekki auðið að mæla með lántöku vegna vega þessara, er n. sammála um nauðsyn þess að taka til sérstakrar athugunar, hvernig auðið sé að haga framkvæmdum og fjáröflun til veganna á þann hátt, að verkinu geti orðið lokið á sem skemmstum tíma.

Í kjölfarið á þessum yfirlýsingum í nefndarálitinu kemur svo breytingartillagan. Hún hefur verið lesin hér, svo að ég sé ekki þörf á að fjölyrða um hana. Hins vegar vil ég segja þetta: Ég varð fyrir mjög miklum vonbrigðum, er ég hafði lesið nefndarálitið, því að eins og fram hefur komið í ræðu Gunnars Jóhannssonar, hv. 11. landsk., þá var kjarni málsins sá í þáltill. að láta einvörðungu athuga möguleika á öflun lánsfjár til þessara framkvæmda. Þáltill. var ekki um, að það skyldi tekið lán, heldur eingöngu um að athuga möguleikana til lántöku. Ég verð því að segja, að það er einstakt, að allir nm. í fjvn. skyldu geta verið sammála um, að það sé óþarfi á þessu stigi málsins að láta athugunina fara fram, — alger óþarfi.

Þá verð ég einnig að segja það sem mína skoðun í þessu máli, að ég tel ekki rétt að taka hér inn í þessa þál. ákvæði varðandi Múlaveg, ekki fyrir það, að Ólafsfirðingar eigi ekki fyllilega skilið að fá sem fyrst og eftir því sem tök eru á lagðan veg milli Ólafsfjarðar og Eyjafjarðar og Akureyrar, heldur vil ég benda á, að það er þó nokkur skilsmunur á þessum tveimur norðlenzku byggðum, Siglufirði og Ólafsfirði. Siglufjörður er nú stærsti síldariðnaðarbær, ekki eingöngu á Norðurlandi, heldur í Evrópu, og ég vil vekja athygli hv. alþm. og þá ekki sízt hv. nm. í fjvn. á þeirri staðreynd, að þegar allar þær síldarverksmiðjur, sem til eru á þessum stað, skila fullum afköstum og unnt er að salta síld á öllum þeim söltunarstöðvum, sem eru í þessum bæ, þá er hægt að framleiða verðmæti fyrir 8–10 millj. kr. á sólarhring. Með tilliti til þessa finnst mér ekki sambærilegt að setja þessi tvö byggðarlög á sama bekk, enda þótt Ólafsfirðingar, sem eru eins innilokaðir og Siglfirðingar, eigi vissulega skilið að fá sinn veg.

Það er engin furða, þó að íbúar í kaupstað, sem hefur aðra eins framleiðslumöguleika og Siglufjörður og hafa verið svo innilokaðir sem þeir, hafi orðið glaðir, þegar fyrst var samþ. hér á Alþ, fjárveiting til Siglufjarðarvegar ytri. og það var líka svo. Það var óblandin ánægja á Siglufirði, þegar fréttist um fyrstu fjárveitinguna til Siglufjarðarvegar ytri, og því var þá treyst, að hv. alþm. mundu stuðla að því, að það kæmist verulegur skriður ð þetta mál. Á framboðsfundunum í Norðurlandskjördæmi vestra s.l. haust sögðu frambjóðendur Sjálfstfl. og Alþfl. alveg sérstaklega, að ef þeir bættu við sig fylgi, ég tala nú ekki um ef þeir kæmust í stjórn, þá þyrftu Siglfirðingar og um leið Skagfirðingar, sem njóta mikils af þessum vegi, engu að kvíða. Ég verð að segja það, að þegar ég frétti um stjórnarmyndunina á s.l. ári, þá hugsaði ég sem svo: Jæja, það verður þó gott a.m.k. fyrir Siglfirðinga að fá þessa stjórn, því að fyrir liggja loforð manna í Sjálfstfl. og Alþfl. um það, að Strákaveginum verði hraðað, ef þeir fengju völdin í landinu, jafnvel svo, að vegurinn yrði fullgerður á þremur árum.

Alþ. var sett á sínum tíma eftir kosningarnar, og undir umr. um fjárlög fluttu 4 af hv. þm. Norðurl. v. till. um 800 þús. kr. fjárveitingu til þessa vegar. En það undarlega skeði, að það var ekki unnt að fá þm. Norðurl. v., sem tilheyrðu stjórnarflokkunum, til að flytja þessa tillögu né heldur til að styðja hana. Hv. 9. landsk. var að lýsa undrun sinni og óánægju yfir því, að fjvn. hefði lagt stein í götu þessa máls og frekar tafið það en hitt. Mér skilst, að afstaða nefndarinnar sé í nánu samræmi við framkomu hans í þessu máli á Alþ. og því óeðlilegt, að hann sé að ásaka fjvn.

Ég ætla ekki að lengja umr. um þetta mál, en ég vil bara enn nota þetta tækifæri til að undirstrika það, að Siglfirðingar líta ekki á þessa vegarlagningu sem fjarstæðukennt ævintýri. Þeir telja vegarlagninguna lífsnauðsyn byggðarlaginu, til þess að þar geti þróazt áfram atvinnu- og menningarlíf. Um þýðingu þessarar vegarlagningar fyrir Skagafjörð þarf ekki heldur að fjölyrða, það hefur áður verið gert. Það er stórkostlega til bóta fyrir stórt og glæsilegt landbúnaðarhérað eins og Skagafjarðarsýsla er að geta komizt í akvegasamband við bæ eins og Siglufjörð 8 eða 9 mánuði ársins.

Ég vona, að á þessu hv. Alþ. verði unnt að endurskoða umrædda afstöðu fjvn. og hv. alþm. fáist til að samþ., að athugaðir verði möguleikar á að taka lán til þessara framkvæmda. Það er ekki fram á mikið farið.

Um till. þá, sem hér liggur fyrir frá Magnúsi Jónssyni o.fl. varðandi Múlaveg, þá mun ég greiða henni atkv., þó að ég hins vegar telji það hafa mun meiri þýðingu, að sem fyrst verði komið á akfæru sambandi milli Siglufjarðar og Skagafjarðar.