15.03.1960
Neðri deild: 48. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1333 í B-deild Alþingistíðinda. (292)

88. mál, söluskattur

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það hafa nokkrar fyrirspurnir verið til mín gerðar, sem ég vildi leitast við að svara.

Hv. 3. þm. Reykv. (EOl) vildi fá upplýst, hvort það væri ríkisstj., sem bæri ábyrgð á þessu frv., eða þessir bannsettu hagfræðingar, sem hann þarf að eyða mörgum klukkutímum hér til að skamma og úthúða. Ég vil í fyrsta lagi vekja athygli hans, þess reynda þingmanns, sem setíð hefur á Alþingi í meira en tvo áratugi, á því, að stjfrv. er flutt af ríkisstjórninni og á ábyrgð ríkisstj. og einskis annars, í öðru lagi, að undirbúningur þessa máls var falinn fjórum embættismönnum, eins og ég gat um hér áðan, og ég vil gleðja hv. þm. með því, að það voru aðeins tveir þeirra hagfræðingar. Það er á engan hátt ætlunin, eins og hv. þm. er að gefa í skyn, að ríkisstj. sé á nokkurn hátt að skjóta sér bak við þá embættismenn, sem hafa undirbúið frv. Ég tel, að þeir hafi lagt mikla og góða vinnu í undirbúning málsins, en að sjálfsögðu var það ríkisstj., sem tók ákvarðanir um einstök atriði og málið í heild og ber ábyrgð á frv.

Hv. þm. hneykslaðist mjög á því, að þetta frv. skyldi vera sýnt nokkrum samtökum þeirra manna, sem eiga að hafa með höndum innheimtu söluskattsins, áður en þm. var sýnt frv. Hér var um að ræða vinnubrögð, sem ég held að hafi verið hyggileg. Í stað þess að kveðja til í undirbúningsnefnd fulltrúa frá þessum samtökum, eins og t.d. Sambandi ísl. samvinnufélaga, kaupmannasamtökunum, iðnaðarsamtökunum og öðrum, til þess að vera með í undirbúningsnefndinni, er undirbúningurinn falinn þessum fyrrnefndum fjórum embættismönnum, og þegar þeir höfðu lokið sínum tillögum, voru kvaddir til fulltrúar frá þessum samtökum til þess fyrst og fremst að gera ábendingar og aths. um þá framkvæmdahlið, sem snertir þá sjálfa, en eins og menn vita, þá er framkvæmd þessa söluskatts, innheimta hans, fyrst og fremst í höndum kaupfélaga. kaupmanna, iðnrekenda og iðnaðarmanna. Ég tel, að þetta hafi verið hyggileg vinnubrögð og miklu heppilegra að leita þannig álits þessara aðila, áður en endanlega var frá frv. gengið til prentunar, heldur en láta þetta ógert og tefja svo málið í þingi með því, að þingnefndir leituðu til þessara aðila, og þyrfti þá að breyta frv. miklu meira en ella í meðförum þingsins. Þetta ætla ég að allir, sem kynna sér málið, séu sammála um að hafi verið hyggileg vinnubrögð.

Hv. 7. þm. Reykv. (ÞÞ) spurðist fyrir um heildarálit samtakanna á þessu máll. Því er til að svara, að sum samtakanna svöruðu ekki og gerðu engar aths. við frv., eins og t.d. Samband ísl. samvinnufélaga. Það hreyfði engum aths. Ég skal ekkert segja, að í því felist, að Samband ísl. samvinnufélaga sé samþykkt frv. í öllum greinum, en sem sagt, svör komu ekki né neinar aths. Að því er snertir önnur samtök, voru þar skiptar skoðanir. Smásalarnir hafa yfirleitt, bæði nú og fyrr, verið fremur andvígir þeirri leið að leggja á smásöluskatt, sem þeir þurfa að innheimta, og hefðu heldur kosið, að skatturinn yrði tekinn allur í tolli, þ.e.a.s. innflutningssöluskatturinn hefði verið hafður þeim mun hærri. Hins vegar voru teknar til greina ýmsar ábendingar kaupmannasamtakanna um framkvæmdaatriði. Í umsögn Vinnuveitendasambandsins, Félags ísl. iðnrekenda og Landssambands iðnaðarmanna kom það skýrt fram, að um leið og þeir gerðu vissar ábendingar og óskir um breytingar, sem sumar voru teknar til greina, lýstu þessi samtök yfir ánægju yfir því, að í frv. væri í veigamiklum atriðum bætt úr margs konar misrétti, sem leiðir af núgildandi söluskattsreglum.

Í sambandi við þetta minntist sami hv. þm., 7. þm. Reykv., á hluta sveitarfélaganna af söluskatti og spurðist fyrir um, hvort von væri á frv. frá ríkisstj. um þetta mál nú á þessu þingi. Því er til að svara, að á þessu þingi verða lögð fram af ríkisstj. hendi tvö frv. snertandi þetta mál, annað um breyt. á útsvarslögunum og hitt frv. um jöfnunarsjóð sveitarfélaga, þar sem nánar verður kveðið á um, hvernig þessi hluti sveitarfélaganna af söluskatti skuli skiptast milli sveitarfélaganna, og er þar gert ráð fyrir þeirri meginreglu, að hann skiptist milli sveitarfélaganna eftir íbúatölu hvers og eins, en þó með vissu hámarki eftir sérstökum reglum.

En það var vissulega eitt, sem vakti nokkra athygli í ræðu hv. 7. þm. Reykv., þegar hann lýsti skoðun sinni á því, hvernig bæjar- og sveitarfélögin ættu að nota þennan hluta sinn af söluskatti. Hann taldi nefnilega, að þennan hluta sveitarfélaganna af söluskatti ætti fyrst og fremst að nota til þess að lækka veltuútsvörin eða afnema þau með öllu. Nú er það að sjálfsögðu rétt, að um veltuútsvörin þarf að setja nýjar reglur, og gert ráð fyrir því. Í frv., sem ég var að skýra frá að lagt yrði fram, er lagt til, að þau verði lögbundin og settar um það ákveðnar reglur. En ég verð að segja, að það er fróðlegt að heyra frá þessum fulltrúa Framsfl., að það er skoðun hans og stefna, að hluta sveitarfélaganna af söluskatti eigi fyrst og fremst að nota til þess að lækka veltuútsvörin á atvinnurekendum eða afnema þau með öllu, en það eigi ekki að nota þau til að lækka útsvörin á almenningi. Um leið og ég tel, að veltuútsvörin þurfi gagngerrar endurskoðunar við, hef ég talið, að fyrst og fremst ætti að nota hluta bæjar- og sveitarfélaganna af söluskatti til þess að lækka útsvörin á alþýðu manna, á hinum almenna útsvarsgreiðanda. En sú stefna sem sagt fær ekki hljómgrunn hjá hv. 7. þm. Reykv.

Annars er í rauninni spurning um það, að hve miklu leyti eða hvort á að nokkru leyti að taka alvarlega andstöðu og hneykslun fulltrúa Framsfl. og Alþb. á móti söluskattinum.

Hv. 3. þm. Reykv. á varla nógu sterk orð til að lýsa andstöðu sinni og andúð á þessum söluskatti. Nú veit þessi hv. þm. ákaflega vel, alveg eins og við flestir hér á Alþingi, að í dýrðarríkinu, sem hann mænir jafnan til, Sovét-Rússlandi, er einmitt söluskattur aðaltekjustofn ríkisins. Þetta liggur fyrir m.a. í upplýsingum þeirra hv. alþm., sem fyrir skemmstu voru boðnir í opinbera heimsókn til Rússlands á vegum rússneska þingsins. Þeir spurðu einmitt um þetta, hvernig Rússar öfluðu sér tekna í sinn ríkissjóð, og var ekkert farið dult með það. Það var upplýst, að yfirgnæfandi meiri hluti af tekjum ríkisins til þess þarfa væri tekinn með söluskatti. Þetta er þannig ekki aðeins í Rússlandi, heldur í kommúnistaríkjunum yfirleitt. Ég skal bæta því við, að ég hef upplýsingar um það, að í sæluríkinu í Austur-Þýzkalandi er ekki aðeins tekinn söluskattur af innflutningi eða framleiðslustigi eða heildsölustigi eða þjónustustigi, í AusturÞýzkalandi er tekinn söluskattur á öllum viðskiptastigum. Þannig er það yfirleitt með kommúnistaríkin. Ég spyr þess vegna: Á maður að taka alvarlega þessa hneykslun hv. 3. þm. Reykv. á því, að söluskattur sé eitthvert glapræði og árás, eins og hann orðaði það, svívirðileg árás á alþýðu manna, það sé með söluskattinum verið að niðast á hinum fátæku?

Að því er varðar Framsfl. og hv. 1. þm. Austf., verður manni að spyrja um það sama, því að frá því að söluskatturinn, sem nú er í gildi, var lögleiddur 1947—48, — ekki aðeins þá, heldur alla stund síðan, með nokkurra mánaða undantekningu, hefur Framsfl. verið í ríkisstj., og lengst af þessu 12 ára tímabili hefur þessi sami hv. þm., 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, verið fjármála- og skattamálaráðherra. Ég hef aldrei orðið þess var, að þessi hv. þm. hafi taliðsöluskattinn neina goðgá, heldur hefur hann talað fyrir honum og talað fyrir mínni söluskattsins á hverju einasta þingi, vegna þess að söluskatturinn hefur alltaf verið framlengdur frá ári til árs. Og þessi hv. þm. hefur oft lent í deilum hér á þingi, vegna þess að aðrir hafa gagnrýnt söluskattinn, en þessi hv, þm. og Framsfl. staðið í fyrirsvari fyrir söluskattinn, að hann væri réttlátur og eðlilegur tekjustofn. Það meira að segja gekk svo langt í umræðum hér í þingi fyrir 5 eða 6 árum, að einn af fulltrúum Framsfl. taldi hreina fjarstæðu að ætla sér að fara að afnema söluskattinn og sagðist ekki geta komið auga á nokkurn tekjustofn, sem gæti þá komið í staðinn, nema þann, að Íslendingar legðu undir sig Grænland til þess að arðræna Eskimóana. Nú eftir þennan 12 ára feril hv. 1. þm. Austf. kemur það nokkuð spánskt fyrir, ef hann nú allt í einu, þegar hann er utan gátta í stjórnmálum, er ekki í valdaaðstöðu, þá skuli söluskatturinn allt í einu vera orðinn óalandi og óferjandi og árás á alþýðu manna. Hinu er svo ekki að neita, að á þessu tímabili hefur söluskatturinn tekið breytingum og verið færður úr einu formi í annað, og undir forustu hv. 1. þm. Austf, hefur hann færzt í það versta form, sem hann hefur tekið hér á landi, sem er 9% söluskattur á iðnaði og þjónustu, sem öllum kemur saman um nú að sé ekki hafandi lengur vegna þess ranglætis, sem hann skapar.

Í sambandi við söluskatt á síðasta stigi eða smásöluskatt í öðrum löndum má minnast þess sérstaklega, vegna þess að hv. 7. þm. Reykv. sæmdi einu sinni stærsta stjórnmálaflokkinn í Bandaríkjunum, Demókrataflokkinn, því heiðursheiti að kalla hann Framsóknarflokk Bandaríkjanna, að þessi Framsfl. Bandaríkjanna lögleiddi á sinum tíma allháan smásöluskatt í Bandaríkjunum, og ætla ég, að bæði sá flokkur og Repúblikanaflokkurinn séu sammála um að halda þeim skatti. Að því er snertir önnur lönd, er það nú þannig, að þessi skattur, sem hv. 1. þm. Austf. og 3. þm. Reykv. mega ekki heyra nefndan og telja að með honum sé verið að níðast á alþýðunni, — ja, hann hefur nú verið í mörg ár í gildi í jafnágætu landi og Noregi, hann hefur nýskeð verið tekinn upp í Svíþjóð, og þetta frv., sem hér liggur fyrir, er sniðið í veigamiklum atriðum eftir þeirri löggjöf, sem gildir í Noregi og Svíþjóð, og stuðzt við þeirra reynslu. En það eru fleiri lönd en þessi, sem ég nú hef minnzt á, sem hafa tekið upp þann hátt að hafa söluskatt á síðasta stigi, smásöluskatt. Auk þessara þjóða, sem ég nefndi nú, eru það Bretar, Vestur-Þjóðverjar, Belgar, Hollendingar, Austurríkismenn, Ítalir, og þannig mætti nefna marga fleiri, sem einmitt hafa þann sama hátt á og hér er lagt til og hafa haft hann lengi. Það er náttúrlega fjarstæða ein að láta sér detta í hug, að allar þessar menningarþjóðir, þar sem einmitt félagsmál standa með hvað mestum blóma og á hæsta stigi, þar sem við þekkjum til, hafi farið inn á þessa leið vegna þess, að þær vilji endilega níðast á alþýðu manna.

Annars hafa þessir tveir hv. aðalandmælendur og formenn sinna þingflokka, hv. 1. þm. Austf. og 3. þm. Reykv., þyrlað hér upp hinu mesta moldviðri og ruglað saman annars vegar gengisbreytingu og beinum áhrifum hennar og hins vegar hreinum skattamálum. Annars vegar er um að ræða gengisbreytinguna sjálfa og þær ráðstafanir, sem standa í beinu sambandi við hana, eins og afnám útflutningssjóðs, afnám útflutningsbóta og styrkja o.s.frv., þær ráðstafanir, sem beinlínis eru til þess gerðar að komast út úr því kviksyndi, sem íslenzka þjóðin hefur verið í að undanförnu, og reyna að koma atvinnuvegunum á heilbrigðan grundvöll. Hins vegar er svo sú breyting á skattakerfl landsmanna, sem tekjuskattsbreytingin og útsvarsbreytingin og söluskattsbreytingin hafa í för með sér. Það er í rauninni alveg sjálfstætt mál og stendur alls ekki í beinu sambandi við gengisbreytinguna. Gengisbreytingin, afnám útflutningssjóðs, viðskiptafrelsi og annað, sem þarf til þess að koma hér á jafnvægi í efnahagsmálum, gæti fyllilega staðizt út af fyrir sig, þó að við gerðum ekki þá breyt. á okkar skattakerfi, sem hér er lagt til. Og ef menn vilja heldur halda skattalögunum óbreyttum, ef menn vilja í öðru lagi halda 9% iðnaðarskattinum og ef menn vilja ekki láta einn einasta eyri af nýjum tekjustofnum til sveitarfélaganna, þá er þetta frv. óþarft og má leggja það til hliðar. Því spyr ég: Er það ósk og stefna Framsfl. og Alþb., að þetta sé gert? Eru þeir andvígir því að afnema tekjuskatt á almennum launatekjum? Eru þeir andvígir því að afnema 9% skattinn á iðnaði og þjónustu? Eru þeir andvígir því að láta hluta af söluskattinum ganga sem nýjan tekjustofn til bæjar- og sveitarfélaganna til þess að gera þeim kleift að lækka útsvör? Ef þeir eru andvígir þessu, þá eru þeir sjálfum sér samkvæmir í því að berjast á móti þessu frv. En ef þeir vilja afnema tekjuskatt á launatekjum og fella niður 9% skattinn og hjálpa bæjar- og sveitarfélögunum til að lækka útsvörin, þá eru þeir ekki sjálfum sér samkvæmir, og þá er það skylda þeirra að benda á einhverjar aðrar leiðir til að afla þessara tekna. Hitt, að koma hér fram eins og þeir gera með sínar rökleysur, það er náttúrlega ein hringavitleysa.

Nei, eins og ég hef tekið fram, ástæðan til þess, að þetta frv. er fram borið, sem gert er ráð fyrir að færi ríkissjóði um 280 millj. kr. í tekjur á þessu ári, er eingöngu sú, að þessa upphæð vantar í ríkissjóðinn til þess að bæta upp tekjumissinn af hinu þrennu, sem ég nefndi. Hér er því eingöngu um að ræða breytingu á skattakerfinu, tilflutning á skattstofnum og annað ekki. Hvers vegna erum við þá að gera þessar tilfærslur? Það er vegna þess, að ríkisstj. og stjórnarflokkarnir og þm. þeirra eru sannfærðir um, að það skattakerfi og útsvarskerfi, sem þjóðin býr nú við, fær ekki staðizt og því verður að gerbreyta. Svo er allt slitið út úr samhengi og slegið fram hér, að þetta söluskattsfrv. þýði hækkun um það bil 3% á vísitölunni og framfærslukostnaði almennings, en hinu er sleppt, að um leið og í beinu sambandi og áframhaldi af þessu er verið að létta af því sama fólki tekjuskatti, hluta af útsvari og iðnaðarsöluskatti, og það hefur verið reiknað út, og það eru óvefengjanlegar tölur, að aukin útgjöld þeirrar fjölskyldu, sem vísitöluútreikningurinn er byggður á, verða á þessu ári um 1400 kr. vegna söluskattsfrv., en lækkuð útgjöld þeirrar sömu fjölskyldu verða vegna afnáms tekjuskattsins og lækkunar um 10–15% á útsvarsstiga í Reykjavík 2150 kr. M.ö.o.: það er ekki verið að auka útgjöld vísitöluheimilisins eða fjölskyldunnar með þessari breytingu á skattalöggjöfinni, heldur er það fremur í hina áttina, að það sé henni til hagnaðar.

Sé það athugað, hver geti verið grundvöllurinn fyrir hv. 3. þm. Reykv., formann þingflokks Alþb., að berjast með slíkum stóryrðum og heift gegn söluskatti, þegar vitað er, að í hans þúsund ára ríki, í öllum ríkjum kommúnismans, er söluskattur aðaltekjustofn ríkisins, þá verður manni að spyrja: Hvað kemur til þess, að hv, þm. lætur eins og hann gerir? Hann afhjúpaði sjálfan sig hér í ræðu sinni áðan. Aðalfjandskapurinn stafar af því, að ég hafði látíð orð falla í minni framsöguræðu, að það væri ætlunin og stefna stjórnarflokkanna að gefa verzlunina sem mest frjálsa og komast í samband við fríverzlunarsvæði Evrópu. Í því felst að sjálfsögðu ekkert um það, hvort við eigum að ganga inn í eitt eða annað af þeim tveim fríverzlunarsamböndum, sem nú eru í Vestur-Evrópu. Von mín er sú, að það takist að sameina þetta og fá fríverzlun á miklu stærra svæði en nú er. Aðalatriðið er, að við Íslendingar gefum verzlunina sem mest frjálsa og fáum hlutdeild í hinum frjálsa viðskiptaheimi. Það er þetta, sem hv. 3. þm. Reykv. er reiðastur út af, því að til þess má hann ekki hugsa, því að hann er hræddur við, að við þetta gætu viðskiptin við kommúnistaríkin í Austur-Evrópu eitthvað minnkað. Nú er það að vísu furðulegt, ef hann þarf að vera svo hræddur við frjálsa samkeppni og frjáls viðskipti. Það, sem í orðum mínum fólst, var ekkert annað en það, að ég vil, að Íslendingar stefni að því að geta selt vörur sínar þar, sem þeir fá hagkvæmust kjör fyrir þær, og keypt aftur innflutningsvörur sínar þar, sem hægt er að fá hagstæðust kaup. Þetta er allt og sumt. En hv. þm. þarf í bræði sinni að segja, að ég heimti, að Ísland sé innlimað í kreppukerfi vesturlanda. Við vitum ákaflega vel, hvað fyrir honum vakir. Fyrir honum vakir ekki, að Íslendingar verði hluttakar í hinum frjálsa viðskiptaheimi. Fyrir honum vakir það að ánetja Íslendinga meira og meira í viðskiptaheim kommúnistaríkjanna, vafalaust með það fyrir augum, að við lendum á sínum tíma í svipaðri aðstöðu og t.d.. ein af Norðurlandaþjóðunum, Finnar, sem eru orðnir svo háðir Sovétríkjunum, að þegar fyrir tveimur árum var mynduð stjórn, sem studd var af yfirgnæfandi meiri hluta þings, þá var hún með viðskiptaþvingunum frá hinum volduga nágranna knúin til þess að segja af sér.

Stefna okkar Íslendinga er auðvitað sú og á að vera sú að eiga sem bezt viðskipti við allar þjóðir, hvort sem þær eru í vestri eða austri. En um leið á stefnan að vera sú að selja okkar afurðir og kaupa okkar nauðsynjar þar, sem kjörin eru bezt.

Þegar hv. 7. þm. Reykv. lýsti hér stefnu sinni í efnahagsmálum og alþjóðaviðskiptum, var nokkuð erfitt að komast til botns í, við hvað hann ætti. Annars vegar fordæmdi hann þá stefnu, sem nú ætti að taka upp hér á Íslandi og væri sú stefna, sem ríkti á vesturlöndum. Hann sagði, að það væri stefna samdráttarins, stefna kreppuhagfræðinganna. Hann fordæmdi þessa stefnu, sem sagt stefnu viðskiptafrelsis og efnahagsjafnvægis. Hann telur hana leiða til öngþveitis. Hann lýsti því með fögrum orðum, að kommúnistaríkin hefðu miklu betur nú í samkeppninni við hin frjálsu vesturlönd. Ég vil ekki leggja það inn í orð hv. þm., að hann hafi verið að prédika hér hið kommúnistíska efnahagskerfi. En hvað er það þá, sem hann vill? Það er vafalaust þriðja leiðin, og þriðja leiðin er aðeins ein: það er verðbólgustefnan, sem við Íslendingar höfum búið við í áratugi. Hann vill ekki stefnu jafnvægis í efnahagsmálum og hins frjálsa viðskiptalífs. Það er á hans máli samdráttarstefna kreppuhagfræðinganna, sem leiðir til öngþveitis. Ég geri ekki ráð fyrir, að hann vilji stefnu kommúnismans. En hann vill vafalaust og Framsfl. með honum áframhald á verðbólgustefnunni, sem ég hélt þó að yfirgnæfandi meiri hluti Íslendinga hafi sannfærzt um að getur ekki staðizt lengur.

Sami hv. þm. sagði, að ég hefði sagt hér í þingi 4. des., að með óbreyttu skipulagi mundi vanta milli 2 og 3 hundruð millj. til að jafna halla ríkissjóðs og útflutningssjóðs á árinu 1960, það sé ekki aðeins með skattaálögum verið að ná þessum milljónum, heldur finnur hann og hv. 1. þm. Austf. út, að núv. ríkisstj. sé búin að leggja hvorki meira né minna en 1100 millj. kr. á landslýðinn. Minna má nú gagn gera á ekki lengri tíma. En ég held, að þeir fari villir vegar í því, að athafnasemi ríkisstj. hafi verið svo mikil að koma því í verk að leggja 1100 millj. á landslýðinn á þessum tíma. Vitanlega er þarna um að ræða hinar ferlegustu talnablekkingar. Ruglað er hér saman við skráningu á genginu, þ.e.a.s. viðurkenningu á því, hvert er raunverulegt gengi eftir stjórnartíma vinstri stjórnarinnar. Reikna þessir herrar út þannig, að með því sé núv. ríkisstj. að leggja mörg hundruð millj, kr. í nýja skatta á þjóðina. Hv. þm. finnur út, að það hefði mátt láta nægja þessar 200–300 millj., þá var allt í himnalagi og þurfti ekki að gera frekari ráðstafanir, segir hann. Hv. þm. ætti þó að vita, að þó að þessar tölur hafi verið nefndar sem nauðsynlegar til þess að mæta halla útflutningssjóðs og ríkissjóðs á þessu ári, þá var ekki öllu borgið með því. Það var öllum ljóst, að gjaldeyrishallinn, gjaldeyrishungrið var eftir, og það var gersamlega óhugsandi að halda áfram nema kannske nokkra mánuði, í mesta lagi eitt ár, á braut hins óbreytta skipulags, nema við hefðum fengið til viðbótar stórkostleg gjaldeyrislán, sem lá þó fyrir að hvergi voru fáanleg, og áframhald þessa skipulags þegar af þeirri ástæðu dauðadæmt. Og hv. 7. þm. Reykv. finnur það svo út, að í stað þess að í síðasta fjárlagafrv. Eysteins Jónssonar hafi tekjur ríkisins eða álögur numið aðeins 900 millj., þá hafi mér tekizt á stuttum tíma að koma þessu upp í 1464 millj., sem sagt hækkað það um rúml. hálfan milljarð. Þessi fullyrðing er náttúrlega á svipuðum grunni byggð og hitt, að núv. ríkisstj. sé þegar búin að leggja 1100 millj. nýja skatta og álögur á þjóðina. Það er m.a. eitt, sem hv. þm. láist að geta, og veit hann þó mætavel, að fyrrv. hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, notaði ýmis klókindabrögð vafalaust í hans augum til þess að láta útgjöld og tekjur ríkissjóðs fá allt annan svip en þau raunverulega höfðu. Það var t.d. tekinn upp sá háttur að kljúfa ríkissjóðinn í tvennt. Síðustu árin, sem Eysteinn Jónsson var fjmrh., var ríkissjóður í tvennu lagi, annar parturinn hét ríkissjóður og hinn parturinn hét útflutningssjóður, og ef ríkissjóðurinn væri tekinn í einu lagi, eins og vitanlega ber að gera, voru ekki álögurnar í þessu síðasta fjárlagafrv. 900 millj., heldur má bæta nokkuð mörgum hundruðum millj. þar ofan á. Ég hélt, að þessi blekkingaplata væri svo gatslitin bæði á mannfundum og ekki sízt í málgagni þessa hv. þm., að hann mundi ekki koma með þetta enn þá einu sinni hér inn í þing. Nei, slíkur loddaraleikur hefur náttúrlega ekki áhrif á og blekkir ekki nokkurn mann lengur, þó að það hafi e.t.v. tekizt rétt í bili að telja einhverjum trú um það, að útgjöld ríkissjóðsins og tekjur væru ekki nema 900 millj., þó að partur úr honum væri tekinn út úr og kallaður útflutningssjóður.

Hv. 7. þm. Reykv. deilir fast á núv. stjórn og á mig fyrir hækkun fjárlaga. Skýring þess máls hefur margsinnis verið gefin hér í Alþingi. En það má í því sambandi minnast aðeins á 2–3 atriði, aðeins til skýringar. Það er í fyrsta lagi, að hinar taumlausu ríkisábyrgðir, sem stofnað var til undir forustu fyrrv. hæstv. fjmrh., hafa leitt til þess, að vanskilaskuldir hrúgast svo á ríkissjóð, að nú í fjárlagafrv. 1960 þarf að áætla þann lið eingöngu, greiðslur á vanskilaskuldum, sem ríkið er í ábyrgð fyrir, hvorki meira né minna en 35 millj. kr., og er þó viðbúið, að sú upphæð nægi ekki. Þetta er einn arfurinn frá fjármálastjórn Framsfl. og ekki sízt í tíð vinstri stjórnarinnar.

Það má nefna hér annað. Það var nýlega lagt fyrir Alþingi frv., flutt af hv. framsóknarþm. öllum, 6 að tölu, í Ed., um það, að ríkissjóður taki að sér að borga nokkur lán fyrir Búnaðarbankann og sjóði Búnaðarbankans. Það var smáupphæð, 160 millj. ísl. kr. eða rúmlega það, og föst árgjöld af því áttu að vera rúmar 14 millj. kr. Hvernig er þetta til komið? Það er vegna þess, eins og segir í grg. framsóknarmanna fyrir þessu frv., að það komi alltaf fyrir öðru hvoru, að ræktunarsjóður og byggingarsjóður, þessar lánastofnanir landbúnaðarins, komist í fjárþrot og þess vegna þurfi ríkissjóður öðru hvoru að hlaupa undir bagga. Og það er ekki þannig, að þessir háu herrar hafi þá sýnt þá fjármálaábyrgð að sjá um tekjur, hvort sem það er úr ríkissjóði eða með sérstökum tekjustofnum, til að bæta þessum sjóðum upp árlega þann halla, sem þeir urðu fyrir með því að lána með lægri vöxtum en þeir þurftu að borga, heldur lýsir það ákaflega vel fjármálaspeki og ábyrgð þeirra, að þeir láta allt reka á reiðanum. Þeir taka erlend lán með allháum vöxtum til þessara sjóða og lána féð út aftur til lengri tíma og með lægri vöxtum. Af því leiðir fyrirsjáanlegan árlegan greiðsluhalla á sjóðunum, en ekkert séð fyrir því að reyna að láta þá standa undir sér. Svo er komið á nokkurra ára fresti og heimtað, að ríkissjóður taki að sér 160 millj. kr. í einu lagi, vegna þess að sjóðirnir séu orðnir gjaldþrota. Ég verð að segja, að svona fjármálapólitík er vissulega ekki til fyrirmyndar, að ætla að reka bankastofnanir eða fjárfestingarsjóði fyrir heilan atvinnuveg þannig, að þeir séu fyrirsjáanlega gjaldþrota á nokkurra ára fresti. Þetta er aðeins ein lítil mynd af mörgum, sem mætti bregða upp af fjármálaspeki ag ábyrgð þessara herra.

En hv. 1. þm. Austf. tekur undir með hv. 7. þm. Reykv. og segir: Hver trúir því ekki, að hægt hefði verið að ráða fram úr þessum efnahagsmálum um s.l. áramót án þess að gerbreyta þjóðfélaginu, eins og gert er? Hvers vegna hefði ekki verið hægt að gera það með því að bæta við tekjur ríkissjóðs og útflutningssjóðs þessum 200–300 millj. og halda svo öllu áfram í sama horfinu? — En ég vil spyrja þennan hv. þm.: Hvernig stóð á því, að hann gafst upp í des. 1958? Var það ekki vinstri stjórnin, sem tók að sér að leysa efnahagsmálin, ekki til bráðabirgða, heldur finna varanlega lausn á efnahagsvandamálum atvinnuveganna. Eftir 21/2 ár, eftir að þeir höfðu þó haft samstjórn með fulltrúum verkalýðsins, því að samstarfið við kommúnista var afsakað með því, að það væri nauðsynlegt að hafa þá með til að tryggja vinnufrið, — eftir 21/2 ár gafst þessi hv. þm. upp, og forsrh. ríkisstj. gaf þá yfirlýsingu, að innan ríkisstj. væri ekki samstaða um nokkur úrræði til umbóta eða lausnar á efnahagsvandamálunum. Maður, sem þannig hefur hreinlega gefizt upp á að leysa vandamálin, kemur svo hingað nú og segir: Það var enginn vandi að leysa þetta með einhverjum smávægilegum umbótum.

Sami hv. þm., 1. þm. Austf., segir: Það vottar ekki fyrir því nú, að neitt sé lagt á þá ríku. Það er aðeins lagt á hina efnaminni og almenning. Það er ekki lagður á stóreignaskattur, eins og gert var t.d. 1958. — Þessi hv. þm. hefði átt að kveinka sér við að minnast á stóreignaskattinn, því að sú löggjöf mun vissulega lengi halda nafni hans á lofti til lítillar sæmdar. Þessi stóreignaskattur, sem er einhver vanhugsaðasta löggjöf, sem hér hefur verið samin, hefur nú hvað eftir annað komið til meðferðar í hæstarétti og meira og minna af henni búið að dæma sem hrein stjórnarskrárbrot. Þessi stóreignaskattslöggjöf er nú ekki orðin nema svipur hjá sjón af því, sem hún var í upphafi, og eftir að æðsti dómstóllinn hefur úrskurðað um gildi hennar og ógildi, eru annmarkarnir og rangindin í þessum skatti orðin margfalt meiri en þau voru í upphafi. Og hvað náðist eða næst með þessum stóreignaskatti? Það náðist eða næst ekki fyrst og fremst til einhverra fárra auðkýfinga, eins og hv. þm. lætur í veðri vaka. Árangur þessa skatts er fyrst og fremst að vera lamandi hönd á atvinnulífið, á atvinnureksturinn í landinu. Ég býst við, að fyrir hv. 1, þm. Austf. hafi vakað tvennt við þessa lagasetningu. Annað er náttúrlega að fá blóm í hnappagatið og segja við almenning á Íslandi: Auðvitað látum við breiðu bökin standa undir þessu. Við leggjum sérstakan stóreignaskatt á auðkýfingana. — Það er annað atriðið. Hitt atriðið var vitanlega hjá honum að reyna að ná sér niðri á hinum frjálsa atvinnurekstri í landinu. Það hefur tekizt að nokkru leyti, vegna þess að stóreignaskatturinn hefur verkað eins og lamandi hönd, eins og ég sagði, á hið frjálsa atvinnulíf. En svo að öðru leyti reynist þessi skattur vera meira og minna stjórnarskrárbrot og ómögulegt að segja um það á þessu stigi, hvað eftir verður af þessari löggjöf, um það er lýkur.

Að lokum vil ég svo segja þetta: Hv. 1. þm. Austf. var svo heppinn hér í sinni ræðu að koma með samlíkingu, þar sem hann líkti ráðstöfunum núv. ríkisstj. við sólina annars vegar og hins vegar vænti ég fyrri aðgerðum hans við tunglið. Hann áttaði sig á því, að þetta var ekki rétt heppileg samlíking. En það er enginn vafi á því, að honum hefur orðið hugsað til kvæðisins gamla, um leið og hann líkir sjálfum sér við tunglið: „Máninn hátt á himni skín,“ því að það var um tíma, að hans máni skein ákaflega hátt, en hins vegar er hann nú orðinn hrímfölur og grár.

Hann segir, þessi hv. þm., að með þessum ráðstöfunum sé verið að rétta rothögg að uppbyggingunni í landinu og hér sé ekkert annað en svartnætti, eymd og hrun fram undan. Það er út af fyrir sig ekkert nýtt, þó að þessi hv. þm. spái hruni og eymd, því að hann er einn af þessum svartsýnismönnum, þessum mönnum, sem rithöfundurinn Þórbergur Þórðarson kallar einhvers staðar öngþveitismenn, og hann segir, að sú manntegund fari einna mest í taugarnar á sér af öllum mönnum. En þessir öngþveitismenn eru þeir, sem yfirleitt sjá ekkert annað en öngþveiti og svartnætti fram undan. Það er að vísu svo, að þessar efnahagsráðstafanir og hliðarráðstafanir hafa auðvitað í för með sér vissar þrengingar fyrir þjóðina um nokkurt skeið, það er öllum ljóst. En við, sem að þeim stöndum, erum sannfærðir um, að ef þjóðin sýnir skilning á þessum ráðstöfunum, muni þessar þrengingar ekki verða langvarandi, heldur áður en langt um liður hafa náðst hér efnahagslegt jafnvægi, sem þýðir það, að þjóðin mun áður en langt um líður sækja fram til enn vaxandi velsældar.