15.03.1960
Neðri deild: 48. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (293)

88. mál, söluskattur

Einar Sigurðsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. virtist hneykslast á því, að ég gerði söluskattinum ekki slík skil, sem hann hefði vænzt. Frá mínu sjónarmiði er söluskatturinn mjög eðlilegur skattur, þar sem hann er skattur á eyðsluna. Hann er innifalinn í vöruverðinu, og þess vegna kemur hann ekki niður á þeim, sem innheimta skattinn, ekki neitt sérstaklega, heldur á þeim, sem eyða mestu.

Í sambandi við söluskattinn og hv. 3. þm. Reykv. má svo geta þess frekar í sambandi við það, sem hæstv. fjmrh. sagði, að nú eru í Rússlandi 8% beinir skattar. Og verið er að undirbúa að afnema þessi 8% og breyta því öllu í óbeina skatta. En eins og allir vita, er Rússland fyrst og fremst föðurland þeirra kommúnistanna, og ætti þess vegna að vera mjög eðlilegt frá þeirra sjónarmiði, að lagður væri á söluskattur. Það má líka í þessu sambandi minnast á það, að fyrir nokkru var getið um það í útvarpinu, að kommúnistar björguðu sænsku stjórninni einmitt í sambandi við álagningu söluskatts í Svíþjóð.

Efnahagsmálin hafa verið rædd almennt í þessum umræðum, þó að þetta séu umræður um söluskattinn fyrst og fremst, og skal ég víkja nokkuð að því, sem hefur komið fram hjá þeim tveim ræðumönnum, sem einkum beindu geiri sínum að mér.

Hv. 3. þm. Reykv. var að varpa fram ýmsum spurningum í sambandi við lántökur erlendis og beina því til mín, hvort ég hefði nokkuð við það að athuga, þegar féð væri lagt í heilbrigð fyrirtæki eða atvinnutæki á einn eða annan hátt. Það er síður en svo, að ég hafi nokkuð við það að athuga. En það er náttúrlega skilyrði, þegar verið er að leggja erlent fjármagn í atvinnutæki, t.d. eins og skip, að þau beri sig, en séu ekki rekin með halla, eins og átti sér t.d. mjög stað með útgerðina, hvort heldur báta eða togara. En margt af þeim lánum, sem tekin hafa verið undanfarið, í tíð vinstri stjórnarinnar, hafa verið hrein eyðslulán.

Einar Olgeirsson, hv. 3. þm. Reykv., var að minnast á starf sitt fyrir rúmum tíu árum og hversu heilladrjúgt það hefði verið. Hefur hann þá sjálfsagt átt við nýbyggingaráð. Það er alveg rétt, nýbyggingaráð gerði margt gott og nýsköpunarstjórnin yfirleitt. En það var líka úr miklu að spila. Það fé, sem þá var fyrir hendi, var mjög mikið á mælíkvarða fátækrar þjóðar, og miklu af því var vel varið, en mikið varð líka eyðslueyrir. Mjög vafasamt er, að bent verði á nokkra stjórn, sem hafi eiginlega verið íslenzku þjóðinni þarfari í atvinnulegu tilliti en einmitt nýsköpunarstjórnin, og þá fyrst og fremst fyrir það, hve ríkan þátt hún átti í því að byggja upp útveginn á Íslandi. Við búum enn í dag að því, þar sem meiri hlutinn af togurunum, sem eru í eigu landsmanna, varð einmitt til á þeim árum. En eitthvert ömurlegasta tímabilið aftur á móti er áratugurinn fram að stríðinu, frá 1930–1939, þegar höftin hófu innreið sína. Ég minntist áður lítils háttar á, hvernig einkareksturinn var þá ofsóttur á allan hátt með skerðingu á lánsfé og með ofsóknum í sambandi við svonefnda höfðatölureglu, sem fræg varð á sínum tíma.

Það er að vissu leyti mjög mikilvægt, að menn hafi trú á því, sem verið er að berjast fyrir. Þeir virðast hálfhneykslast á því, hv. 3. þm. Reykv. og 1. þm. Austf., að ég skuli hafa trú á því, sem hér er verið að gera. En ég hef fulla trú á því. Ég hef trú á að endurreisa traust þjóðarinnar á krónunni, ég trúi, að því fylgi batnandi efnahagur alls almennings og bætt lífskjör, þegar við erum komin yfir erfiðasta hjallann. Verðbólgan er hins vegar rót alls ills. Af hverju er svona mikill tvískinnungur hjá þessum mönnum, eins og hv. 3. þm. Reykv.? Hann hefur bölsungið verðbólguna, en þegar á að fara að koma á jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar, reynir hann að gera það tortryggilegt á allan hátt.

Hv. 3. þm. Reykv. tók mig sem dæmi um hinn sanntrúaða kapítalista, mann, sem trúir á hið vestræna efnahagskerfi, mann, sem trúir meira á vellíðan fólksins og betri lífsafkomu þess undir því skipulagi heldur en fyrir austan járntjald, og hann sagði, að þetta væri eins og að sjá risaeðlu aftan úr fornöld. En það er aðeins ein risaeðla, sem við Íslendingar og aðrar vestrænar þjóðir óttumst, og það er risaeðla kommúnismans. Takmark kommúnismans og takmark kommúnistanna íslenzku er fyrst og fremst það að koma Íslendingum austur fyrir tjald. Þeir hafa að vísu ýmis stefnumál. Þeir segja: Við viljum berjast fyrir hagsmunum verkalýðsins, og meira að segja, eins og hv. 3. þm. Reykv. sagði áðan, viljum við berjast fyrir, að kapítalistarnir og útgerðarmenn, — já, sérstaklega útgerðarmenn, þeir eru í eitthvað betri flokki hjá hv. 3. þm. Reykv. en kapítalistar almennt, ég tala nú ekki um heildsala, — að þeir fái lán. Við viljum hjálpa til þess, við höfum gert það áður, og við viljum hjálpa til þess enn. — Jú, þeir hafa vissulega sín mál til að berjast fyrir. Ef þeir hefðu það ekki, hlustaði heldur enginn á þá eða gæfi þeim atkvæði sitt, svo að þeir verða að hafa eitthvert mál til að berjast fyrir. En tilgangurinn er að koma okkur austur fyrir tjald. Til þess starfa þeir, til þess fá þeir fé, og okkur undrar, að þeir skuli geta keypt eitt húsið á fætur öðru, byggt eina höllina á fætur annarri, og nú er sagt, að það nýjasta, sem þeir séu að bera víurnar í, sé Lídó fyrir 8 millj. kr. — Nei, það eru ekki þessir menn, þessi hv. 3. þm. Reykv., Einar Olgeirsson. Þetta er sjálfsagt prýðilegur maður í eðli sínu, en hann þjónar húsbændum sínum og gerir það dyggilega.

Það hefur æxlazt svo til, að ég hef orðið fyrir árásum eða geiri tveggja, — já, mér er víst óhætt að segja einna mestu ræðumanna andstöðuflokkanna. Það var alls ekki ætlun mín að lenda í þessum mönnum, síður en svo. En hv. 1. þm. Austf. sagði mér sjálfur, að hann hefði sérstaklega beint ræðu sinni að mér, og þm. vöktu athygli mína á því, að hann hefði aldrei undir sinni löngu ræðu litíð af mér, þar sem ég húkti í sæti mínu. Það getur vel verið, að hann hafi ætlað að ganga af mér dauðum þegar á fyrsta fundinum, svo að þið hv. þm. verðið að afsaka, að ég hef eytt hér dýrmætum tíma og tafið mikilvægt mál frá afgreiðslu, en ég gat ekki annað en tekið þessari áskorun, hólmgönguáskorun.

Það vantar vissulega margt á Austurlandi, og hv. 1. þm. Austf. er mjög hörundssár fyrir því, þegar á það er minnzt, hvað skammt er komið framfaramálum Austurlands undir hans forustu fyrst og fremst. Þarna hefur Framsókn verið einráð og hv. 1. þm. Austf. oftast verið valdamestur eða einn af valdamestu mönnum þjóðarinnar. Honum svíður náttúrlega mjög sárt, þegar við erum að vekja athygli á því, að honum hafi ekki enzt 25 ára eða hvað langur þingmennskuferill til þess að koma á aðalvegasambandi með smávegaspotta, sem er ekki nema eitthvað 7 km, og þvinga svo Austfirðinga til þess að fara 70 km leið til þess að komast þar á áfangastað. Jú, það er ákaflega margt, sem vangert er á Austurlandi, og honum svíður það, þegar ég er að vekja athygli á því, sem ógert er, þó að minn mátt bresti til þess að koma því fram, það er annað mál. En það getur vel verið, að meira hefði verið hægt að gera hér á þessu þingi fyrir Austurland, ef við hefðum ekki verið að súpa seyðið — kannske fyrst og fremst af ráðsmennsku hv. 1. þm. Austf.

Hann vék að sjómannaskiptaverðinu, og ég held ég megi til að minnast aðeins á það. Það er alveg rétt, að ég hélt því fram á framboðsfundunum, að sjómennirnir ættu að fá sama verð fyrir fiskinn og útgerðarmennirnir. Þetta var ekkert nýtt. Ég bara staðfesti það, sem ég hafði sagt áður. Ég hef ár eftir ár haldið þessu fram, og ég gerði ekkert annað en að standa við orð mín, og ég stend við þau hér líka, þó að það verði lagt mér út á verri veg og reynt að túlka það mér til lasts í augum útgerðarmanna. Fyrir þremur árum munaði aðeins orðið 7 aurum á skiptaverðinu og útgerðarmannaverðinu. Þá var það kr. 1.35, en skiptaverðið 1.28. Svo var þetta bil látið breikka. Og hvenær var það látíð breikka? Það var í tíð vinstri stjórnarinnar. Það var undir forustu hv. 4. þm. Austf„ Lúðvíks Jósefssonar, verkalýðsforingjans, samflokksmanns hv. 3. þm. Reykv., Einars Olgeirssonar. Það getur vel verið, að það breikki nú, en það hefur alltaf verið mín skoðun, að það ætti ekki að vera neitt sérstakt skiptaverð. Og ég skal segja ykkur, af hverju ég hef haldið þessu fram. Það er af því, að alltaf er verið að koma með alls konar önnur fríðindi. Það er ekki af neinni sérstakri umhyggju fyrir sjómönnunum, þó að ég unni þeim alls hins bezta og álíti, að þeir þurfi að hafa gott kaup, fyrst og fremst til þess að við fáum menn á skipin. Það er vegna þess, að alltaf er verið að færa sig upp á skaftíð með alls konar kröfur á útgerðarmenn, aukakröfur, af því að sjómennirnir fengju ekki sama verð fyrir fiskinn og við fengjum, útgerðarmennirnir. Það var samþykkt að borga 10. hlutinn, það var samþykkt að borga 11. hlutinn, og nú fyrir nokkrum dögum var samþykkt að borga kr. 3.50 á tonn í Vestmannaeyjum. Allt þetta hefði ekki heyrzt nefnt, ef reynt hefði verið að halda hlutföllunum, sem voru fyrir þremur árum t.d. En það er eins og alltaf sé verið að fara lengra og lengra út í ófæruna í þessum efnum, og ég get satt að segja ekki séð, hvernig þetta verður leyst núna, — kannske ekki í vetur, en hvernig það verður leyst á næstunni.

Hv. 1. þm. Austf. var ósköp hrifinn af því, að ég skyldi hafa tileinkað honum jómfrúræðuna. Það gleður mig sannarlega. Venjulega er mönnum ekki tileinkað nema eitthvað gott, bók eða eitthvað annað slíkt. Það er gert í virðingarskyni. Og ég skal segja það, að maðurinn Eysteinn Jónsson er mér alls ekki ógeðþekkur, það fer prýðilega á með okkur, og ég hef ekkert út á hann að setja sem mann, síður en svo. En stjórnmálamaðurinn Eysteinn Jónsson er í mínum augum ófyrirleitinn stjórnmálamaður, sérstaklega í sambandi við umgengni sína við ríkissjóðinn, þegar flokksbræður og Framsfl. hafa átt í hlut.

Um vextina vitum við, að þeir eru aðeins neyðarúrræði, sem við vonum að standi ekki nema mjög skamma hríð.

Ég fer ekki að fara út í stóreignaskattinn, þó að það hefði verið gaman og gagnlegt, því að hæstv. fjmrh. gerði því svo prýðileg skil.

Hv. 1. þm. Austf. hafði þau orð um mig, að ég hataði samvinnufélögin. Það er alveg rangt. Ég hata ekki samvinnufélögin, síður en svo. Við útgerðarmenn höfum oft notað samvinnusniðið á samtökum okkar og gerum enn. En ég hef krafizt jafnréttis rekstrarformanna. Þess krefst ég, en ég legg ekkert hatur á samvinnufélögin, síður en svo.

Það er hins vegar mjög athyglisvert að athuga samvinnufélögin. Framsfl. hefur notað kaupfélögin og samvinnufélögin sérstaklega sem tæki í stjórnmálabaráttu sinni. Hann hefur skipað sig þar sem hinn alvísa föður og forsjármann þessara samtaka, þó að þau séu skipuð mönnum af öllum stjórnmálaflokkum.

Það er ekki gott að einoka samvinnufélögin undir einn stjórnmálaflokk. Það hlýtur að kalla á, að hinir stjórnmálaflokkarnir eða fólk úr öðrum stjórnmálaflokkum leitast við að koma sér upp verzlunarsamtökum, og það ber meira og meira á því. Ef Framsfl. hverfur ekki af þeirri braut að einoka þannig samvinnufélögin undir sig, er mjög hætt við, að áframhald verði á þessu. En hann gæti komið í veg fyrir þetta með því að hleypa pólitískum andstæðingum sínum til nokkurra áhrifa í stjórn samvinnufélaganna. Hann getur valið á milli, hvort hann vill heldur, að það komi í flestum sveitum landsins, síður í kaupstöðum, samvinnufélag, sem keppir við það félag, sem fyrir er. En sé það til tjóns, getur Framsfl. sjálfum sér um kennt, ef það er ekki eins og hann vildi.

Ég skal nú ekki orðlengja þetta frekar, en vil að lokum aðeins endurtaka, að þessar tilraunir, sem nú er verið að gera í efnahagsmálum til að losa okkur við alla þá skriffinnsku, sem við höfum búið við síðan 1930, eru fyrir mér hugsjón og trú á betra líf íslenzku þjóðarinnar og fyrst og fremst íslenzkrar alþýðu.