19.04.1960
Sameinað þing: 40. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í D-deild Alþingistíðinda. (2942)

91. mál, allsherjarafvopnun

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 4. landsk. þm. að flytja hér till. til þál. um, að Alþingi ítreki ályktun sína frá 13. apríl og skori á Sameinuðu þjóðirnar að beita sér af alefli fyrir allsherjarafvopnun og taki þannig undir þau tilmæli, sem Alþingi bárust 15. febr. frá Æðsta ráði Sovétríkjanna um að leggja till. ráðsins lið, en þær fara fram á, að komið sé á allskömmum tíma, 4 næstu árum, allsherjarafvopnun í heiminum. Hér er um mál að ræða, sem varðar framtíðargæfu okkar þjóðar sem allra annarra og þar sem við Íslendingar ættum alveg sérstaklega að geta borið fram okkar óskir í fullri einlægni og án þess að þurfa að taka nokkurt það tillit, sem stórveldin í heiminum neyðast til að taka. þegar þau eru að ræða þessi mál. Æðsta ráð Sovétríkjanna hafði snúið sér til Alþ. eins og fleiri þjóðþinga, og það er ekki nema von, að einmitt fulltrúar Sovétþjóðanna geri slíkt, því að vart hafa nokkrar þjóðir í veröldinni fengið nú á síðustu tímum að kenna eins ægilega á því, hvað styrjöld er, eins og einmitt þær þjóðir. Frá sjónarmiði okkar, hvort heldur er okkar litlu þjóðar eða annarra, hlýtur viðhorfið í veröldinni nú að vera það, að hverjum einasta manni, hverjum einasta einstaklingi og hverri einustu þjóð beri að gera allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að afstýra megi þeirri ógn, sem yfir mannkyninu hefur nú vofað undanfarinn áratug, að til tortímingarstyrjaldar, þar sem kjarnorkuvopnum væri beitt, gæti komið.

Styrjöld og styrjaldir eru gamlar hjá mannkyninu, en aldrei fyrr en á okkar tímum og það á síðasta áratug hefur verið hætta á því. að með styrjöld yrði bókstaflega mannkyninu útrýmt. Hingað til hafa styrjaldir haft í för með sér mikla ógæfu og miklar hörmungar fyrir alla þá, sem hafa orðið að búa við þær þungu búsifjar, sem styrjöldum fylgja. En styrjaldir hafa ekki ógnað tilveru mannkynsins fyrr en nú á tímum, og þess vegna er það sameiginlegt vandamál og sameiginlegt áhugamál allra þjóða í veröldinni, jafnt stórra sem smárra, að reyna að koma í veg fyrir, að til styrjaldar geti komið. Ástæðan til þess, að slík hætta vofir yfir, að mannkyninu yrði bókstaflega útrýmt, ef til allsherjar kjarnorkustyrjaldar kæmi, er sú, að tæknilegar framfarir mannkynsins, þær nýju uppgötvanir, sem gerðar hafa verið, hafa gefið mannkyninu svo óskaplegt vald yfir þeim öflum í náttúrunni, sem okkur voru áður lítt eða ekki kunn, að einmitt þessi sömu öfl, sem gætu gefið okkur möguleika til þess að koma á hér betra mannfélagi á jörðinni en okkur nokkru sinni fyrr hefur dreymt um, einmitt sömu öfl, ef þau eru leyst á rangan hátt úr læðingi, geta orðið til að tortíma okkur. Ef kjarnorkan er notuð til friðsamlegra starfa, getur hún lagt grundvöll að því að útrýma svo að segja öllum þeim vandamálum, sem mannkynið hefur átt við að etja síðustu árþúsundir. Kjarnorkan og vetnisorkan fela í sér möguleika til svo ódýrrar og til svo stórkostlegrar framleiðslu á jörðinni, að það er hægt að skapa þær allsnægtir, sem mannkynið áður hefur aðeins dreymt um í sínum djörfustu draumum. Það er hægt að útrýma fátækt, sjúkdómum, vanþekkingu, öllu því böli, sem mannkynið hefur átt við að stríða öldum og árþúsundum saman. Það er hægt að skapa þær allsnægtir hjá mönnunum, sem gera vinnuna að leik í staðinn fyrir þrældóm, hægt að koma á þeirri sjálfvirkni í framleiðslu, sem léttir þunga erfiðisins af mönnunum. Allir þessir möguleikar blasa við okkur, svo framarlega sem við aðeins berum gæfu til þess að útrýma í eitt skipti fyrir öll styrjöldum og styrjaldarhættu á okkar jörð og geta í þess stað notað öll þessi miklu og hingað til leyndardómsfullu öfl í þjónustu mannkynsins og vellíðanar og velferðar þess.

En hitt er augljóst, að svo framarlega sem á að takast að nota þessi öfl í þágu hins góða hjá mannkyninu. þá má mannkynið ekki lengur eiga það á hættu, að styrjaldir geti brotizt út. Það er svo skammt á milli, að ef einni þjóð, af hvaða ástæðu sem það er, finnst hún vera að berjast fyrir tilveru sinni og ef hún hefur ráð og möguleika á að beita þeim vopnum, sem kjarnorkuvopnin eru, þá er alltaf hætta á, hvaða samningar sem gerðir eru, að til slíkra vopna yrði gripið, sérstaklega svo framarlega sem fjöldi þjóða er farinn að fá slík vopn í hendur. Það er þess vegna um að gera fyrir okkur nú, þegar það eru enn þá aðeins örfáar þjóðir, sem hafa þessi vopn, og þegar menn meira og meira gera sér ljóst, að það er ekki hægt að útkljá vandamálin á milli þjóðanna með styrjöldum, að láta til skarar skríða og banna allan vopnaútbúnað hjá mönnunum, banna alla vopnaframleiðslu og þar með alla beitingu vopna og eyðileggja öll þau kjarnorkuvopn, sem þegar eru til. Þetta vandamál er þess vegna í senn þess eðlis, að tækist að leysa það, þá er annars vegar verið að bjarga mannkyninu öllu frá tortímingu, sem yfir vofir, svo framarlega sem kjarnorkuvígbúnaðarkapphlaupinu er haldið áfram, og hins vegar, um leið og tekst að leysa þetta, er hægt að leysa úr læðingi þau öfl, sem í kjarnorkunni búa og hægt er að nota til friðsamlegra starfa. Eins og bent er á í grg., er aðeins með því að hætta þeim vopnabúnaði, sem nú er, og hætta að eyða of fjár til styrjaldarundirbúnings, sem þar er bent á, hægt að gerbreyta efnahagslegu viðhorfi í veröldinni, og allt það, sem við, jafnt hér á Íslandi sem annars staðar, höfum verið að tala um undanfarið, efnahagsleg vandamál og annað slíkt, þá mundi það, eftir að svona hlutir hefðu verið gerðir, á einum til tveimur áratugum ekki lengur verða til frekar en við höfum þurft að glíma við svartadauða eða annað slíkt á okkar landi síðustu áratugum og öldum. Möguleikarnir, sem við blasa, ef mennirnir aðeins bera gæfu til þess að standa saman um að leysa þetta vandamál, sem styrjaldirnar hafa verið og verða nú í auknum mæli við það, að kjarnorkan kemur til, — ef okkur aðeins tekst að leysa þennan vanda og standa saman um það, þá bíða þess vegna blómlegri tímar mannanna, mannkynsins í heild og hverrar þjóðar um sig, heldur en við höfum getað gert okkur vonir um, ekki sízt eins og okkar kynslóð, sem hefur orðið að lifa tvær heimsstyrjaldir og búa nú um nokkurt árabil undir ógninni af þeirri þriðju.

Okkur fannst þess vegna. flm. þessa máls, að einmitt á Alþingi Íslendinga ætti sú rödd að koma fram og Alþ, láta til sín heyra um þessi mál. Við erum eina þjóðþing veraldarinnar, sem aldrei hefur þurft að taka ákvarðanir um styrjöld eða leggja fram fé til vígbúnaðar. Við erum fulltrúar þess eina lands í veröldinni, sem aldrei hefur þurft að heyja stríð við aðrar þjóðir. Við höfum verið land friðarins framar öllu öðru. Við höfum, frá því að við öðluðumst fullveldi, lýst yfir ævarandi hlutleysi, og þótt þau sorglegu mistök hafi verið gerð að leiða okkur fyrir áratug inn í hernaðarbandalag, þá er hugsunarháttur okkar þjóðar sá, að hernaðarandi hefur ekki náð tökum á henni, heldur á friðarhugsjónin hjá okkar þjóð áreiðanlega sterkari ítök en jafnvel hjá nokkurri annarri. Við getum þess vegna framar öllum öðrum þjóðum tekið undir áskoranir um afvopnun, og við höfum líka gert það. Alþingi Íslendinga samþ. þann 13. apríl 1954, eða fyrir réttum 6 árum, einmitt þegar kalda stríðið var svo að segja í sínu hámarki, svo hljóðandi ályktun, sem ég — með leyfi hæstv. forseta ætla að lesa upp:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skora á Sameinuðu þjóðirnar að beita sér af alefli fyrir allsherjarafvopnun, sem tryggð verði með raunhæfu alþjóðlegu eftirliti, enda er það öruggasta ráðið til þess að koma í veg fyrir framleiðslu og notkun kjarnorkuvopna og vetnissprengjunnar í hernaði, en tilraunir Bandaríkjanna og Sovétríkjanna með þau vopn hafa sýnt, að í þeim felst geigvænleg og yfirvofandi hætta fyrir mannkynið og framtíð þess, ef ekki tekst með alþjóðlegum samtökum að hindra, að ný heimsstyrjöld brjótist út.“

Þessi þál. var einróma samþykkt á Alþingi, og ég álit, að það sé okkur fagnaðarefni að geta nú ítrekað hana, þegar sú hugsjón, sem Alþ. beitti sér fyrir þá, á svo miklu, miklu meiri ítök hjá þjóðunum en þá var, og þess vegna sé um leið rétt hjá okkur að fela ríkisstj. að ljá bæði því máli, sem Æðsta ráð Sovétríkjanna hefur beint til okkar, og öllum öðrum málum, sem fram koma og í sömu átt stefna, sinn fyllsta stuðning, og við höfum einmitt á síðasta allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna reynt það nú í fyrsta skipti í áratug, að einmitt tvö helztu stórveldi veraldarinnar, Sovétríkin og Bandaríkin, hafa þar tekið höndum saman um tillögur í þessa átt. Ég vil þess vegna vona, að við getum sameinazt um þessa tillögu, annaðhvort í þessu formi eða öðru því formi, sem utanrmn. vildi skila henni í, og vil leyfa mér að gera þá till. til hæstv. forseta, að þessari umr. verði nú frestað, en málinu vísað til utanrmn., sem líka hafði þá till., sem hér var afgreidd fyrir 6 árum, til meðferðar.