15.03.1960
Neðri deild: 48. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1346 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

88. mál, söluskattur

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Það er nú ekki orðið svo mjög framorðið, að það sé ástæða til þess að fara að þrengja mjög að mönnum með ræðutíma, en ég skal samt verða við þeim tilmælum forseta að taka ekki mjög langan tíma.

Hæstv. fjmrh. svaraði fsp. minni um það, hverjar hefðu orðið undirtektir þeirra samtaka, sem ríkisstj. sneri sér til og óskaði eftir að segðu álit sitt um það frv., sem hér liggur fyrir, og það kom fram í þessum upplýsingum hæstv. fjmrh., að smásalarnir hefðu yfirleitt verið þessu frv. andvígir eða a.m.k. hinum almenna söluskatti, sem ætlunin er að leggja á, og þeir hefðu heldur lagt til, að innflutningssöluskatturinn yrði aukinn. Ég hygg, að þetta sé nokkuð skynsamleg tillaga, og .það er alveg víst, að skatturinn mundi innheimtast miklu betur með því móti og verða miklu auðveldari og kostnaðarminni í innheimtu. Þess vegna álít ég, að það hljóti að koma mjög til greina, að ríkisstj. geri þau skipti á þessum sköttum, að í staðinn fyrir, að í frv. er ætlazt til þess, að hinn almenni smásöluskattur haldi áfram, en aukningin á söluskattinum á innflutningi falli niður um næstu áramót, ef til þess kæmi, að það yrði einhver samdráttur á þessum sköttum, að þá yrði það framkvæmt þannig, að hinn almenni smásöluskattur yrði felldur niður, en í staðinn væri hinn aukni söluskattur af innflutningi látinn haldast. Ef þetta væri gert, mundi það tvímælalaust tryggja miklu betri innheimtu þessa skatts og koma í veg fyrir þá geysilega miklu skriffinnsku, sem mun fylgja hinum almenna söluskatti.

Hæstv. fjmrh. svaraði einnig fsp., sem ég lagði fyrir hann í sambandi við væntanleg frv. ríkisstj. um skattamál sveitar- og bæjarfélaga, og tel ég það vel farið, sem kom fram í orðum hans, að frv. um þessi mál verða lögð fram síðar á þinginu.

Hæstv. ráðh. tók hins vegar illa undir það, sem ég sagði um veltuútsvörin, og það var bersýnilegt, að hæstv. ráðh. hefur áhuga á því að halda veltuútsvörunum áfram.

Ég tel það miður farið, vegna þess að það er tvímælalaust, að veltuútsvörin eru einn ranglátasti skattur, sem lagður er á, vegna þess að hann er lagður á fyrirtækin án alls tillits til afkomu og efnahags. Hann getur þess vegna í mörgum tilfellum verið mjög léttbær hjá fyrirtæki, sem hefur góða afkomu og á miklar eignir, aftur á móti mjög þungbær fyrir fyrirtæki, sem hefur lélega afkomu, og getur leitt til þess, að það verði að greiða skattinn að verulegu leyti af eignum sínum. Þess vegna á að hverfa frá veltuskattinum í því formi a.m.k., sem hann er lagður á núna, og koma í veg fyrir, að hann þýði raunverulega eignaupptöku hjá fyrirtækjunum.

Hæstv. fjmrh. var að lýsa því hér áðan, hvernig stóreignaskatturinn hefði lamað atvinnufyrirtækin og verkað eins og dauð hönd á þau. Það má vel vera, að eitthvað sé rétt hjá honum í þessu sambandi, a.m.k. í vissum tilfellum. En það er alveg víst, að veltuútsvarið verkar í mörgum tilfellum miklu þungbærar fyrir fyrirtækin en stóreignaskatturinn þó gerir. Þess vegna er það réttlætismál að hverfa frá veltuútsvarsfyrirkomulaginu, a.m.k. í því formi, sem það er nú, eða því formi, að það geti orðið til þess, að það þýði raunverulega eignaupptöku hjá fyrirtækjunum.

Það, sem á að stefna að í sambandi við skattaálögur, er að sjálfsögðu það, að skattarnir séu lagðir á með tilliti til afkomu og efnahags fyrirtækjanna, og veltuútsvar, eins og það er lagt á núna, fullnægir alls ekki þeim kröfum.

Eins og ég sagði hér í frumræðu minni, verkar veltuútsvarið í mörgum tilfellum þannig, að það leggst þyngst á þau fyrirtæki, sem veita bezta þjónustu, sem hafa lága álagningu og hafa þess vegna mikla veltu, en aftur á móti sleppa í mörgum tilfellum þau fyrirtæki miklu betur, sem hafa lakari þjónustu, hafa t.d. háa álagningu, hafa að vísu kannske þess vegna minni veltu, en þó meiri gróða en þau fyrirtæki, sem veita betri þjónustu.

Þess vegna á að hverfa frá veltuútsvarafyrirkomulaginu í því formi, sem því er beitt nú, og ég er satt að segja talsvert undrandi yfir því, ef það á að haldast, vegna þess að hæstv. fjmrh. og sá flokkur, sem hann fylgir, telur sig vilja styðja að heilbrigðu einkaframtaki, en veltuútsvarið stendur í mörgum tilfellum mjög í vegi þess, að heilbrigt einkaframtak fái notið sín.

Það kom fram hjá hæstv. fjmrh., að þeir vísitöluútreikningar, sem ríkisstj. er með, eru hagkvæmir til þess að ná alls konar blekkjandi niðurstöðum. Þannig er hæstv. fjmrh. búinn að finna það út, að samkv. þessum vísitöluútreikningi sé það til hagsbóta fyrir almenning, að tekjuskatturinn sé lækkaður, en söluskatturinn lagður á í staðinn, það sé hagkvæmt fyrir hina svonefndu vísitölufjölskyldu og þess vegna hljóti það að vera hagkvæmt fyrir allan almenning. En þegar menn athuga þá staðreynd, að samkv. upplýsingum hæstv. fjmrh. nemur tekjuskattslækkunin ekki nema 110 millj., og er það áreiðanlega mjög ríflega reiknað, en samkv. upplýsingum fjmrh. á söluskatturinn að gefa 280 millj. kr. á 9 mánuðum þessa árs, en mundi gefa um 370–380 millj. kr. yfir heilt ár, þá hygg ég, að allir hljóti að sjá, að það sé meira en lítið undarlegt eða meira en lítið skrýtið við þessa útreikninga, sem fjmrh. er með, þar sem það á að vera til hagsbóta fyrir almenning, að felldar séu niður 110 millj., en 280 millj. teknar í staðinn. Ég held, að þetta nægi alveg til þess að sýna, hversu fjarstætt það er, sem hæstv. fjmrh. var hér að halda fram, að það væri raunverulega hagnaður fyrir almenning að fá tekjuskattslækkunina, miðað við það, að söluskatturinn væri svo lagður á í staðinn, eða m.ö.o., að það sé hagkvæmt fyrir almenning að fá skatta upp á 280 millj. í staðinn fyrir 110 milljónir. (Fjmrh.: Hv. þm. gleymir 9% innflutningsskattinum.) Hann nemur ekki nema 35 millj. kr., svo að það breytir ekki miklu í þessu sambandi, sá hluti sem rennur í ríkissjóð, og það er það, sem hér er um að ræða.

Þá fór hæstv. fjmrh. að tala um viðskipti okkar við önnur lönd og afstöðu okkar til væntanlegra verzlunarbandalaga eða fríverzlunarsvæða og gerðist mikill talsmaður þess, að við gengjum í eitthvert af hinum vestrænu fríverzlunarsamböndum og sennilega þá annað hvort þeirra fríverzlunarsambanda, sem nú er búið að stofna, því að eins og ástatt er í dag, er ekki um önnur að ræða. Ég held, að Íslendingar eigi að fara að með mikilli gát í þessum efnum. Og ég held, að það sé rétta stefnan hjá okkur, eins og nú er ástatt og eins og líklegt er að verði ástatt í náinni framtíð, að bindast ekki neinum bandalögum, heldur reyna að halda okkur utan við þau. Eins og það var rétt hjá hæstv. fjmrh., að það gæti fylgt því nokkur hætta, að við byndum okkar viðskipti um of við Austur-Evrópu, þá getur fylgt því nákvæmlega sama hættan, ef við bindum viðskiptin um of við Vestur-Evrópu eða vestrænu löndin. Við höfum mjög glögga reynslu af því, hvað af því getur hlotizt. Við víssum t.d. hvaða afleiðingar það hafði fyrir okkur á sínum tíma, þegar Spánarmarkaðurinn hrundi saman, og er skemmst að minnast þess, að fyrir eitthvað fimm eða sex árum var mikill samdráttur í fiskmarkaðinum í Bandaríkjunum og verðfall þar, sem hafði mjög slæmar afleiðingar fyrir íslenzka fiskverzlun. Þess vegna er það vafalaust rétta stefnan í þessum efnum að reyna að hafa viðskipti sem allra víðast, bæði til austurs og vesturs, en ánetjast ekki að lítt hugsuðu máll neinu ákveðnu bandalagi. Þess vegna fannst mér það mjög miður að heyra, hvað mikinn áhuga hæstv, fjmrh. virtist hafa á því, að við að lítt athuguðu máli stefndum að því að gerast aðilar að einhverju vestrænu markaðsbandalagi og víð gerðum alveg sérstakar þrengingarráðstafanir hér innanlands til þess að geta náð því takmarki. Það er áreiðanlega ekki eftir svo miklu að sækjast í þeim efnum, að við þurfum að vera að gera einhverjar neyðarráðstafanir hér í landinu í því skyni að reyna að réttlæta þær með því, að við höfum eitthvert slíkt takmark fyrir augum.

Hæstv. fjmrh. taldi sig ekki hafa skilið það fullkomlega, sem ég sagði um kreppuhagfræðina og kreppuhagfræðingana, og það má vel vera, að hæstv. fjmrh. hafi ekki fullkomlega skilið það. En það, sem ég talaði um og átti við í þeim efnum, var sú samdráttarstefna, sem nú er yfirleitt ríkjandi í vestrænum löndum undir forustu Bandaríkjanna og hefur það í för með sér, að framleiðsluaukningin er miklu minni í þessum löndum en hún gæti verið og þarf að vera, og af þeim ástæðum minnkar bilið á milli framleiðsluafkasta lýðræðislandanna og kommúnistaríkjanna miklu meira en nokkur þörf er á. Í því, sem ég sagði hér áðan, varaði ég mjög við þessari stefnu, og ég er ekki einn um það, því að það er yfirleitt viðhorf frjálslyndra manna í vestrænum löndum að vara við þessari þróun, sem leiðir af samdráttarstefnunni, vegna þess að hún veikir lýðræðisríkin alltaf meira og meira í samkeppninni við kommúnistaríkin, og þess vegna er það áreiðanlega ekkert ofsagt, að beztu bandamennirnir, sem kommúnistar eiga í heiminum í dag, eru kreppuhagfræðingarnir, sem nú ráða fjármálastefnunni í vestrænum löndum, vegna þess að þeir eiga sinn mikla þátt í því, hve framleiðsluaukningin er þar óhæfilega lítil miðað við það, sem á sér stað hjá kommúnistaríkjunum, og eins það, að framleiðsluaukningin þar beinist ekki heldur að þeim framleiðslugreinum, sem eru mikilvægastar í samkeppninni á milli austurs og vesturs. Það, sem ég sagði að væri rétta stefnan og ætti að leysa þessa stefnu af hólmi, ef lýðræðisríkin ættu að halda sínum hlut í samkeppni við kommúnistaríkin, var í stuttu máli það, að í vestrænum löndum þyrfti að hverfa meira að áætlunarbúskap en nú er gert til þess að beina framleiðslumöguleikunum eða framleiðslugetunni að hinum réttu viðfangsefnum og innan þess ramma ætti svo einkaframtakið að fá sem mest svigrúm, og í sambandi við það lagði ég einmitt áherzlu á, að það ætti að veita m.a. hér á landi einstaklingsframtakinu aukið svigrúm með því að afnema óeðlilega skatta, eins og t.d. veltuútsvarið, og t.d. draga úr verðlagshömlum, sem oft og tíðum hafa ekki aðrar afleiðingar í för með sér en þær að draga úr því, að framtak félaga og einstaklinga geti veitt almenningi góða þjónustu.

Þetta var það, sem ég sagði að þyrfti að koma í hinum vestræna heimi til þess að mæta sókn kommúnismans, og sú stefna, sem ég áliti að við ættum að fylgja í vaxandi mæli hér á landi. Hæstv. fjmrh. þóttist hins vegar lesa það út úr því, sem ég sagði, að ég teldi, að í staðinn fyrir þá samdráttarstefnu, sem væri fylgt í vestrænum löndum og ætlunin væri nú að taka upp hér á landi, sæi ég ekkert nema verðbólgustefnuna. Ég skil það satt að segja ekki, vegna hvers eða hvernig hæstv. fjmrh. getur komizt að þessari niðurstöðu, vegna þess að sú stefna, sem nú er verið að framkvæma hér á landi, er sú að koma á samdrætti í atvinnulífinu með óðaverðbólgu. Megintakmark núverandi stjórnarstefnu er að auka verðbólguna til að draga úr framkvæmdum og framförum og skerða lífskjörin.

Það, sem ríkisstj. hefur verið að gera, síðan hún kom til valda, hefur svo að segja allt beinzt að því að auka verðbólguna. Með gengislækkuninni hefur verðbólgan verið stórkostlega aukin. Með þeim skatti, sem hér er verið að leggja á, og öðrum nýjum álögum, sem ríkisstj. beitir sér fyrir, er verið að auka verðbólguna. Með vaxtahækkuninni er verið að auka verðbólguna. Það hefur aldrei hér á landi verið fylgt þvílíkri verðbólgustefnu og þeirri, sem núv. ríkisstj. fylgir, og það er einmitt gegn þessari stefnu, sem ég og aðrir stjórnarandstæðingar hafa verið að tala hér. Og svo kemur hæstv. fjmrh. alveg eins og álfur út úr hól og segir, að stjórnarandstæðingar séu að berjast fyrir verðbólgustefnunni, þegar þeir eru að berjast á móti henni. Ég skil ekki þessa niðurstöðu hjá hæstv. fjmrh. eða ég satt að segja skil það ekki, hvernig hann álítur sig geta bætt sinn hlut og ríkisstjórnarinnar með öðrum eins útúrsnúningum og fjarstæðum og þessu.

Þá var hæstv. fjmrh. að reyna að hnekkja því, sem ég hafði haldið fram, að hann hefði aukið álögur ríkisins og ríkisútgjöldin eins stórkostlega og hefði komið fram í þeim tölum, sem ég nefndi, og vildi aðallega nota sér það til afsökunar, að áður hefði nokkur hluti þeirra útgjalda, sem væru nú í fjárlögum, verið færður hjá útflutningssjóði. Þetta er rétt. En það breytir þessu dæmi ekki mikið. Eftir því sem upplýst er í grg, fjárlagafrv., tekur ríkið að sér nú að sjá um niðurgreiðslur upp á 265 millj. kr., sem útflutningssjóður greiddi áður, en í staðinn fyrir það hverfur út úr ríkisreikningnum líka framlag til útflutningssjóðs, sem nam 152 millj. kr., svo að raunverulega hækka útgjöld ríkissjóðs af þessum ástæðum ekki nema um 112 millj. kr. Og þá verður niðurstaðan sú, að samkv. fjárlagafrv. hæstv. fjmrh., að þessum 112 millj. frádregnum, verða útgjöldin 1354 millj. kr., og hækkunin, sem verður þá hjá honum frá því, sem var í því fjárlagafrv., sem Eysteinn Jónsson lagði seinast fyrir þingið, fjárlagafrv. fyrir 1959, sem lagt var fram haustíð 1958, er um 450 millj. kr., þó að búið sé að taka það tillit til útflutningssjóðs, sem hann talaði um, svo að hann er á þessum stutta tíma eða tæpu 11/2 ári búinn að eiga sinn þátt í því, að ríkisútgjöldin og þar með ríkisálögurnar eða álögur til ríkisins eru auknar um 450 millj. kr. Annað eins þrekvirki í þessum efnum hefur aldrei verið unnið hér á landi og sennilega hvergi, ef menn þá vilja kalla þetta þrekvirki. En vafalaust lítur hæstv. fjmrh. svo á, að hann sé að gera hér einhverja stóra og merkilega hluti, sem eru þá fólgnir í því að auka ríkisálögurnar um 450 millj. frá því haustíð 1958. Og svo eru þessir menn, eins og hv. 3. þm. Austf., að koma hér upp og tala af miklum eldmóði á móti sköttum og háum ríkisálögum, þó að þeir á þessum stutta tíma hafi aukið ríkisútgjöldin miklu meira en nokkru sinni hefur áður átt sér stað.

Ég veit ekki, hvort það er ástæða til þess að vera að elta ólar að þessu sinni við fleiri vífilengjur hjá hæstv. fjmrh., en þó er sennilega rétt að koma að einni að lokum og það var það, að hæstv. fjmrh. reyndi að bera á móti því, að með þeim svokölluðu efnahagsráðstöfunum, sem ríkisstj. er búin að gera, er raunverulega búið að auka álögurnar um 1100 millj. kr. Það hafa verið færð svo glögg rök að þessu, að það er óþarfi að vera að rifja það upp hér líka, enda kom hæstv. fjmrh. ekki fram með neinar fullyrðingar til að hnekkja þessu. Hins vegar viðurkenndi hann það, sem hann reyndar var líka búinn sjálfur að segja hér áður í þinginu, að það hefði ekki þurft nema 200–300 millj, kr., til þess að útflutningssjóður og ríkissjóður hefðu getað verið hallalausir á þessu ári. Það þurfti sem sagt ekki að afla nema 1/4 af þeim álögum, sem nú eru lagðar á, til þess að tryggja áfram hallalausan rekstur útflutningssjóðs og ríkissjóðs á þessu ári. Það eru m.ö.o. lagðar á fjórum sinnum meiri álögur en nokkur ástæða er til.

Það er þess vegna ekki hægt að halda því fram með neinum rétti eða neinum sanni, að verið sé að gera þessar ráðstafanir vegna þess, að atvinnuvegirnir hafi þurft á öllu þessu að halda. Þetta er eingöngu gert vegna þess, að ríkisstj. ætlar sér að knýja fram nýja þjóðfélagsstefnu. Hún ætlar að hverfa aftur til gamla tímans, eins og hæstv. forsrh. hefur útmálað svo greinilega hér á Alþingi. Tilgangurinn er að reyna að þröngva sem mest framtak allra efnaminni einstaklinga í þjóðfélaginu og skapa þar með sem mest olnbogarúm fyrir örfáa einstaklinga. En ríkisstj. skal gera sér ljóst, að þetta heppnast ekki, og því meira sem hún gerir til þess að framkvæma þessa stefnu og því lengur sem hún heldur því áfram, því meiri verða ógöngurnar, sem þjóðin kemst í.

Það er alveg rétt, sem hæstv. dómsmrh. hefur látið danskt blað hafa eftir sér, að það getur skapazt mjög varhugavert ástand hér á landi, ef þessar ráðstafanir ríkisstj. leiða til stórátaka og verkfalla. Það er alveg rétt. En hættulegast af öllu, sem þó gæti komið fyrir, væri það, að ríkisstj. tækist að framkvæma stefnu sína. Hvort heldur af þessu tvennu, sem fyrir gæti komið, þá er það hættulegt og skaðlegt, og það er ekki gott að segja, hvaða afleiðingar það kynni að geta haft í för með sér. Þess vegna er það eina rétta, sem ríkisstjórnin getur gert nú, að taka sönsum og snúa við í tíma, reyna að bæta úr ágöllum þeirra ráðstafana, sem hún er búin að gera, eftir fremsta megni, leitast við að draga úr þeirri kjaraskerðingu, sem hún er búin að stofna til, hverfa frá vaxtahækkuninni og öðrum slíkum ráðstöfunum, koma þannig til móts við almenning í landinu í tíma og jafnframt draga úr þeim mikla samdrætti, sem annars hlýtur að fylgja hennar ráðstöfunum. Með þessu eina móti getur ríkisstj. komið í veg fyrir það öngþveiti, sem annars er hætta á að verði hér fram undan. En geri hún það hins vegar ekki, þá er það hún og hún ein, sem ber ábyrgð á þeim afleiðingum, sem því fylgja.