08.04.1960
Sameinað þing: 39. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í D-deild Alþingistíðinda. (2963)

97. mál, virkjun Jökulsár á Fjöllum

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Í till. þeirri til þál., sem við þrír af þingmönnum Norðurlandskjördæmis eystra höfum leyft okkur að flytja á þskj. 205, er lagt til, að ríkisstj. verði falið í fyrsta lagi að hlutast til um, að gerð verði fullnaðaráætlun um virkjun Jökulsár á Fjöllum, og í öðru lagi að láta athuga möguleika til þess að koma upp framleiðslu á útflutningsvöru í sambandi við virkjunina.

Jökulsá á Fjöllum, öðru nafni Jökulsá í Öxarfirði, er eitt af mestu og lengstu vatnsföllum landsins. Þorvaldur Thoroddsen telur í Íslandslýsingu sinni lengd hennar frá upptökum til sjávar í Öxarfirði 25 mílur danskar. Í ritinu Íslenzk vötn eftir Sigurjón Rist, fyrsta hluta, sem kom út árið 1956 á vegum vatnsmælingadeildar raforkumálaskrifstofunnar, er hún talin 206 km. sem er nokkru meira. En niður undir efstu fossa milli byggða á Hólsfjöllum og í Öxarfirði eru nú sagðir vera um 2/3 af lengd árinnar allrar. Jökulsá kemur upp í norðanverðum Vatnajökli — í nálega 800 m hæð yfir sjávarmál — í krikanum milli Kverkfjalla og Dyngjujökuls og er þar þegar vatnsmikil. Skammt frá upptökum falla í hana að vestan margar smákvíslar, einnig frá jöklinum. Frá Brúarjökli, austan Kverkfjalla, sem eins og Dyngjujökull er útjökull frá Vatnajökli, kemur Kreppa, sem er álíka mikið vatnsfall og Jökulsá þar efra. Kreppa mun vera 70 km löng og fellur í Jökulsá austur af Herðubreið eða litlu norðar. Enn fremur falla í Jökulsá hið efra að vestan auk kvíslanna frá Dyngjujökli Svartá og Lindaá — eða uppsprettur hennar — og Grafarlandaá, en að austan Arnardalsá, Skarðsá af Möðrudalsöræfum og Hólsselskíll af Hólsfjöllum. Einnig er talið, að í hana renni mikið af lindarvatni neðanjarðar undir hraunum þeim, er að henni liggja. Það er talið, að allt vatn af nálega 7500 km2 svæði safnist saman í þessa miklu móðu, eins og Thoroddsen nefnir hana, ofan við brú í Öxarfirði, en af þessu svæði eru um 1700 km2 undir jökli nærri upptökum. Frá upptökum rennur Jökulsá norður á við um jafnhallandi hásléttu, allt þar til hún fellur niður í gljúfrin fyrir neðan Dettifoss. En eftir að gljúfrunum sleppir, fellur hún um lágt land og slétt út í Öxarfjörð. Í sambandi við þann kafla árinnar, sem um gljúfrin fellur, eru hin einstöku skilyrði til stórvirkjunar, sem ég mun ræða lauslega hér á eftir.

Guðmundur Hlíðdal verkfræðingur, síðar póst- og símamálastjóri, lét fyrst mæla vatnsmagn Jökulsár haustið 1907. Þær mælingar annaðist Páll Jóhannesson hreppstjóri á Austaralandi í Öxarfirði, og var þá mælt um fjögurra ára skeið. Að tilhlutan mþn. í vatnamálum lét vegamálastjóri mæla vatnsmagnið 1918–19, og enn fremur var það mælt á árunum 1920–23. En síðan á árinu 1938 — eða um rúmlega 20 ára skeið — hafa stöðugar vatnsmælingar átt sér stað í ánni, og hefur Ólafur Gamalíelsson bóndi á Ferjubakka í Öxarfirði haft umsjón með þeim allan þennan tíma, en mælistaður er rétt neðan við brúna í Öxarfirði. Meðalvatnsrennsli árinnar er, eftir því sem segir í riti því, er ég nefndi áðan, um íslenzk vötn, 193 m3 á sekúndu við Dettifoss. Stundum er það mun minna, en stundum líka miklu meira. Eins og í öðrum jökulvötnum er það að sjálfsögðu mest í sumarhitum og þegar hláka er á jöklinum, en minnst í frostum á veturna. Ef meðalrennslið ætti að koma að notum sem orkugjafi, þyrfti mikla stíflugerð og vatnsmiðlun. En minna rennsli en meðalrennslið er hægt að virkja án verulegrar vatnsmiðlunar og vegna hinnar miklu fallhæðar, sem þarna er til staðar, nægir það rennsli, þótt það sé langt undir meðallagi, til þess að framleiða miklu meiri raforku en nú er framleidd samtals í öllum rafstöðvum landsins með vatnsvirkjunum eða á annan hátt.

Efsti fossinn í Jökulsá heitir Selfoss. Það er lágur foss rétt ofan við Dettifoss og mun vera í 330–340 m hæð yfir sjávarmál, en yfirborð árinnar, rétt eftir að kemur norður úr gljúfrunum, mun ekki vera nema 30–40 m yfir sjávarmál. Svo segir Þorvaldur Thoroddsen. og kemur það heim við síðari mælingar. Fallhæð árinnar frá brún Selfoss niður fyrir gljúfrin er því um 300 m, en sá kafli árinnar er um 25 km á lengd. Hæsta þrepið í farveginum á þessari leið er hinn mikli Dettifoss, þar sem áin fellur í gljúfrin, 58 m hár, „ægilegur og undrafriður“ í auðninni, .,þar sem aldrei á grjóti gráu, gullin mót sólu hlæja blóm,“ eins og Kristján kvað Fjallaskáld.

Nú munu sex eða sjö ár liðin, síðan ýtarlegar athuganir hófust á þessu svæði á vegum raforkumálastjórnarinnar. Hefur nú allt þetta svæði verið mælt og kort gerð, og síðan á árinu 1957 hafa kunnáttumenn unnið að því að gera sér grein fyrir, hvers konar mannvirki það væru, sem þarna kæmu til mála, sennilegum kostnaði við þau og afköstum raforkuvers eða raforkuvera. Hefur til þessa undirbúnings alls verið varið nokkrum hluta af þeim 18–19 millj. kr. samtals, sem á undanförnum tíu árum hafa verið notaðar til rannsókna á virkjunarmöguleikum hér á landi. Flm. þessarar till. hafa af skiljanlegum ástæðum haft áhuga fyrir því að fylgjast með þessu verki eftir föngum, þar sem það stóð þeim nokkuð nærri, en tveir af þeim hafa til skamms tíma verið hér á hv. Alþ. sérfulltrúar héraða, sem að Jökulsá liggja. Við höfum að vísu ekki í höndum niðurstöðuskýrslur þær, sem nú munu vera fyrir hendi, enda munu þær ekki hafa legið fyrir fyrr en á s.l. hausti og hafa ekki verið birtar. Það ætlum við þó rétt vera, að í þeim bráðabirgðaáætlunum, sem fyrir liggja, sé helzt gert ráð fyrir, að fallhæðin, sem ég nefndi áðan í gljúfrunum, 300 m, verði nýtt í tveim orkuverum og ánni veitt í jarðgöng tvisvar sinnum. hin efri og styttri frá brún Selfoss fram hjá Dettifossi niður fyrir Hafragilsfoss og hin, sem samkv. áætlun eru mun lengri, neðar við ána, en í þessu neðra fallí árinnar eru Réttarfoss og Vígabjargsfoss. Í þessum tveim orkuverum mun vera hægt að framleiða samtals 300–400 þús. kw., hlutfallslega ódýrt, svo ódýrt, að verð raforkunnar yrði að líkindum vel samkeppnisfært við það, sem gerist, þar sem skilyrði til virkjunar eru hagstæð í öðrum löndum.

Hér er um stórvirki að ræða, jafnvel á mælikvarða stærri þjóða en Íslendingar eru. Það mundi sennilega taka nokkuð mörg ár að vinna þetta verk. Til samanburðar vil ég geta þess, að þarna virðist vera um að ræða þrisvar til fjórum sinnum meiri orku en fást mun úr Soginu fullvirkjuðu. Eins og segir í grg. till., benda líkur til, að varla muni annars staðar á landinu vera hægt að framleiða svo mikið orkumagn á lægra verði, en það hefur mér skilizt á fróðum mönnum, að ca. 100 þús. kw. virkjun við Dettifoss út af fyrir sig sé tvímælalaust hlutfallslega ódýrasta stórvirkjun, sem völ er á hér á landi.

Í grg. till. er af hálfu okkar flm. komizt þannig að orði, að nú sé tímabært að hefjast handa um að gera fullnaðaráætlun um orkuver við Jökulsá og stofnkostnað þeirra. Við teljum æskilegt, að sú fullnaðaráætlun verði, að svo miklu leyti sem unnt er, um virkjun í áföngum, en að þar sé þá einnig gerð grein fyrir þeirri stærstu virkjun, sem til mála kemur að dómi sérfræðinga.

Til þess að hægt sé að gera slíka áætlun, mun þurfa að kortleggja landssvæðið fyrir ofan fossana, því að þar mun verða sett stífla í ána. Það mun hins vegar enn vera álitamál, hversu mikið mannvirki sá stíflugarður ætti að vera, a.m.k. í byrjun. Uppi hafa verið ráðagerðir um að gera þennan stíflugarð mjög háan, og yrði þá stórt stöðuvatn til vatnsmiðlunar þar efra. Í grein eftir Sigurð Thoroddsen verkfræðing í Tímariti Verkfræðingafélagsins 1952 er stærð slíks stöðuvatns áætluð 160 kmz, og væri það þá nálega helmingi stærra en Þingvallavatn og rúmlega 4 sinnum stærra en Mývatn. Svo hátt gæti yfirborð slíks vatns orðið að sögn fróðra manna, að nokkuð af því félli vestur og þar niður í Mývatn og yki þannig vatnsmagn Laxár. En hvað sem um það má segja og slíkar hugmyndir, þá virðist það liggja fyrir, að um mikla möguleika er að ræða og hægt er að ráðast í misjafnlega stórar framkvæmdir og velja milli áfanga.

Þá vil ég nefna það hér, að æskilegt mun vera talið, að hraunin í nágrenni Jökulsár séu könnuð með borunum til þess að komast að raun um, hvort uppistöðuvatn færi til spillis og þá í hve miklum mæli vegna jarðleka. Enn er þess að geta, að möguleikar munu vera til að stífla ána suður hjá Möðrudal og gera þar uppistöðu eða lón, en þeir möguleikar hafa enn ekki verið rannsakaðir að neinu ráði.

Með þessari till. er ekki farið fram á, að tekin sé ákvörðun um það nú að ráðast í virkjunarframkvæmdir við Jökulsá, heldur að lokið verði með fullnaðaráætlun og tillögum sérfræðinga því rannsóknar- og áætlunarstarfi, sem staðið hefur yfir mörg undanfarin ár og allmiklu verið til kostað. Er þá einnig á það að líta, að þarna mun það síður vera álitamál, hvað gera skuli, en í sambandi við sum önnur virkjanleg stórvötn hér á landi. Af þessum og fleiri ástæðum, en að sumum þeirra hef ég þegar vikið, teljum við flm., að ef ráðizt verður í stórvirkjun hér á landi, áður en langt um líður, umfram það, sem óhjákvæmilegt er vegna vaxandi almennrar eftirspurnar, hljóti Jökulsá á Fjöllum að koma til greina öðrum fallvötnum fremur. En hvernig má það þá verða, og í hvaða tilgangi væri það gert að ráðast í slíkt stórvirki, stærra í sniðum og kostnaðarsamara en nokkurt annað mannvirki, sem Íslendingar hafa ráðizt í hingað til? Það liggur auðvitað í augum uppi, að með slíkri stórvirkjun gæti skapazt mjög svo öflugur raforkuvarasjóður fyrir allar orkuveitur á Norður- og Austurlandi. En þegar á það er lítið, að öll raforkunotkun þessara landsfjórðunga nemur nú samtals nálægt 20 þús. kw., gefur auga leið, að varla mundi í slíkt stórvirki ráðizt fyrst um sinn eingöngu í þessu skyni, en vel má hafa það sjónarmið í huga samtímis öðru. En megintilgangurinn með virkjun Jökulsár hlyti að vera sá að efla atvinnulíf landsmanna og skapa verkefni fyrir framtíðina, að koma upp framleiðslu, sem byggist á raforku, og þá fyrst og fremst útflutningsframleiðslu, sem yki fjölbreytni atvinnulífsins hér á landi, aflaði þjóðinni gjaldeyris og skapaði nýja atvinnu- og lífsmöguleika.

Þegar það er haft í huga, að þjóðinni fjölgar að líkindum um 200 þús. eða um mun meira en helming fram að næstu aldamótum, þá er vissulega full þörf á því að láta hendur standa fram úr ermum við eflingu atvinnulífsins. Auðvitað ber fyrst og fremst að efla þær greinar atvinnulífs, sem fyrir eru í landinu, byggja þar á reynslu, verðmætum og áunninni verkmenningu. En fleira mun þó þurfa til að koma.

Framkvæmd þessarar mildu virkjunar kemur ekki til greina, nema fyrir liggi, að hægt sé að koma meginhluta raforkunnar í verð, um leið og hún verður til staðar. Athugun á framleiðslumöguleikum í sambandi við virkjunina þarf því að fara fram, og æskilegt er, að niðurstaða þeirrar athugunar liggi fyrir samtímis fullnaðaráætluninni, ef unnt er, eða sem allra fyrst að henni lokinni. Að þessu lýtur annar töluliður þáltill. á þskj. 205.

Lengi var einkum rætt um framleiðslu á tilbúnum áburði í sambandi við stórvirkjun fallvatna hér á landi og þá einnig til útflutnings. Sú hugmynd er nú komin til framkvæmda þannig, að framleiddur er áburður til innanlandsnotkunar með raforku frá Sogsvirkjuninni, en um útflutning er þar varla að ræða frá ekki stærri verksmiðju. En nú í seinni tíð hefur einkum verið rætt um að nota raforku frá stórvirkjunum til framleiðslu á alúminíum, en það yrði unnið úr báxitleir, sem fluttur yrði hingað frá fjarlægum löndum, en af þessu hráefni mun ca. 50% af þunganum vera hreinn málmur og mundi vera fluttur út allur fyrst í stað, en síðan e.t.v. að meira eða minna leyti geta orðið efnivara í íslenzkar iðnaðarvörur til innanlandsnota og útflutnings. Trúlega getur verið um fleiri framleiðslumöguleika að ræða í sambandi við orkuvinnslu, og er ekki á mínu færi eða okkar flm. að ræða það efni. Iðjuver mundu þá væntanlega rísa á einhverjum hafnarstað eða hafnarstöðum á austanverðu Norðurlandi samtímis virkjunarframkvæmdunum og um leið eða fljótlega byggð margra manna þar nærri.

Það er ekkert efamál, að til þess að koma upp raforku- og iðjuverum af þessu tagi þarf miklu meira fjármagn en svo, að hægt sé að afla þess hér á landi í náinni framtíð. Rætt hefur verið um leiðir til að afla þess fjármagns, og trúlegt, að sá vandi, sem þar er um að ræða, geti skapað deiluefni, eins og margt annað hjá þessari sundurlyndu þjóð. Ég mun ekki ræða þau mál hér. Þau munu verða rædd síðar, er að því kemur, að um þau þurfi að ræða. En það er von mín og trú, að einnig þennan vanda muni mega leysa á viðunandi hátt fyrir Íslendinga, a.m.k. ef fram undan er sá friðarheimur og það samstarf á milli þjóða, sem menn þrá og dreymir um og margir telja sig sjá hilla undir um þessar mundir. En um slíka hluti tel ég, eins og ég sagði áðan, ekki tímabært að fara fleiri orðum að þessu sinni.

En munu nú ekki einhverjir koma og spyrja: Hvað verður um Dettifoss? Hvað verður um Jökulsárgljúfur og hina rómuðu fegurð náttúrunnar á þessum slóðum? Kannske heyrist það bráðlega endurtekið, sem eitt sinn var sagt:

„Og því er nú dýrlega harpan þín hjá þeim herrum til fiskvirða metin.“

En hörpunni þarf ekki að farga. Dettifoss mun halda áfram að vera til. Hann mun birta ásjónu sína og tign á sólbjörtum sumardögum, alveg eins og drottning norðurfjallanna, Herðubreið, gerir, þótt hún sé oft skýjum hulin. En þess á milli mun hann hverfa til starfa með sitt jötunafl. „Gljúfrahofin“ munu standa, og hjá því, sem náttúran hefur þar byggt upp, eru jafnvel stórvirki mannanna lítil og lág. Þó þarf hér auðvitað að hafa á öllu gát.

Ég veit ekki, hvort það þykir máli skipta í þessum sal, en hugmyndin um virkjun Dettifoss og Jökulsár á Fjöllum er ekki ný. Hún er a.m.k. eldri en margir þeirra, sem nú eiga sæti hér á hv. Alþ. Um hana var fyrir löngu gerð áætlun, hin fyrsta, sem til er um virkjun á íslenzku fallvatni. Sú áætlun var ekki birt í teikningum eða tölum frá vinnustofum verkfræðinga. Hún birtist í því tjáningarformi, sem snjallri hugsun hefur löngum verið valið hér á landi, í ljóði. Sá boðskapur, sem þar var fluttur, lifir á vörum þjóðarinnar og minnir hana á, að hún á enn nokkuð ógert, á meðan hún lætur þá áætlun óframkvæmda, sem í honum felst.

Einhvern tíma á morgni þessarar aldar sat langferðamaður við fossinn. Sá hafði víða farið og veröldina kannað. Hann var gæddur skyggni á það, sem öðrum var hulið, þá hluti, sem ekki voru fram komnir. Hann kvað um Dettifoss, „konung vorra stoltu, sterku fossa,“ forsöngvarann í kór hinna streymandi íslenzku fljóta. Á þessa leið komst hann að orði. Og sem hann kvað um fossinn og gný vatnanna, birtist honum hin mikla sýn yfir það, sem er og mun verða. Hann kvað um þá sýn. Hann kvað um aflið „frá landsins hjartarót“, sem „kviksett er í klettalegstað fljótsins“. Þannig hefði það verið kviksett um aldir. En sú stund mundi koma, að kviksetningin tæki enda. Hinn dauði máttur yrði máttur lífs og starfs.

„Hve mætti bæta lands og lýðs vors kjör

að leggja á bogastreng þinn kraftsins ör

Og frjómögn lofts má draga að blómi og björk,

já, búning hitans sníða úr jökuls klæðum.

Hér mætti leiða líf úr dauðans örk

og ljósið tendra í húmsins eyðimörk

við hjartaslög þíns afls í segulæðum.“

Það getur ekki verið úr vegi að íhuga það nú á Alþingi, hvort tími sé til þess kominn, að þjóð Einars Benediktssonar fari að búa sig undir að stuðla að því, að orð hans rætist fyrir hennar atbeina og að hennar frumkvæði.

Ég skal svo láta máli mínu lokið. Ég hygg, að um till. hafi verið ákveðin ein umræða, og ég legg til, ef umr. verður frestað, sem eðlilegt má telja, að þá verði málinu vísað til hv. fjvn. Ég vona, að skyggnigáfa skáldsins komi til hennar, þegar hún fær það til meðferðar.