26.11.1959
Efri deild: 3. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (30)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í yfirlýsingu þeirri, sem hæstv. forsrh. gaf á Alþingi hinn 20. nóv., segir svo: „Að undanförnu hafa sérfræðingar unnið að ýtarlegri rannsókn á efnahagsmálum þjóðarinnar. Skjótlega eftir að þeirri rannsókn er lokið, mun ríkisstj. leggja fyrir Alþ. till. um lögfestingu þeirra úrræða, er hún telur þörf á.“ Það er ljóst, að þessar athuganir taka nokkurn tíma, en fjárlög eru að sjálfsögðu svo nátengd þessum efnahagsráðstöfunum, að þar verður ekki sundur skilið. Það er því sýnt, að útilokað er að afgreiða fjárlög fyrir áramót, og verður því að fara þá leið, sem alloft hefur veríð farin áður, að fá heimild til bráðabirgðafjárgreiðslna úr ríkissjóði á árinu 1960. Þess vegna er frv. þetta fram borið, og er efni þess það, að til febrúarloka 1960 sé ríkisstj. heimilt að greiða úr ríkissjóði til bráðabirgða í samræmi við ákvæði fjárlaga 1959 öll venjuleg rekstrargjöld ríkisins og önnur gjöld, er talizt geta til venjulegra fastra greiðslna þess, þótt ákveðin séu og heimiluð til eins árs í senn.

Þetta frv. er að efni og orðalagi samhljóða þeim frumvörpum, sem áður hafa verið borin fram og samþykkt, þegar líkt hefur staðið á.

Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og fjhn.