27.04.1960
Sameinað þing: 43. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í D-deild Alþingistíðinda. (3007)

128. mál, landaurareikningur

Flm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Sú till. til þál., sem ég flyt hér á þskj. 304, fjallar um að fela ríkisstj. að undirbúa fyrir næsta reglulegt þing frv. um nýjan landaurareikning, er byggja skuli á verði afurða landsins, er seldar séu á innlendum og erlendum markaði.

Ég veit, að hv. alþm. hafa gert sér grein fyrir því, að hér er um mjög stórkostlegt mál að ræða, ef það yrði tekið föstum tökum. Í aðalatriðum geri ég grein fyrir því, hvað fyrir mér vakir, í grg. með þessari till., og ég efast ekki um, að hv. alþm. hafi lesið hana. En fyrir 24 árum, á Alþ. 1936, flutti ég ásamt 2 öðrum þm. frv. um landaura og verðlagsskrár og lagði til að koma þeim málum í nýtt horf frá því, sem áður hefði verið. Eins og kunnugt er, hefur landaurareikningurinn gamli verið í gildi um margra alda skeið hér á landi og mjög verið notaður í viðskiptalífi þjóðarinnar, en svo var tekin upp á þessu sviði allt önnur aðferð, sem alkunnugt er, sem er vísitölureikningurinn, sem hefur haft í för með sér mikla ógæfu í okkar fjármálalífi.

Í landaurareikningnum gamla var aðalatriðið verðlag á lifandi búpeningi, eins og það gerðist að vori til. Nú er það svo, að ástandið siðustu 20–30 árin í okkar viðskiptalífi hefur gersamlega breytzt, og þess vegna vildi ég ekki leggja út í það að flytja hér frv. um verðlagsskrár og landaurareikning. Það er mjög vandasamt mál, hvernig á á því að taka, og kaus ég því þá leiðina að flytja þessa till. um að láta fela ríkisstj. að undirbúa frv. í þessa átt. Sú aðferð, sem gilti í gamla daga um að nota verðlag á lifandi búpeningi sem aðalgrundvöll fyrir verðlagsskránni, er orðin nú algerlega úrelt, og það er af þeim sökum, að lifandi búpeningur er lítil verzlunarvara almennt í viðskiptum landsmanna. Ég lít svo á, að hin nýja verðlagsskrá og þá um leið landaurareikningur verði að byggjast á verði afurðanna, þeirrar vöru, sem seld er, bæði afurða frá landbúnaðinum og sjávarútveginum, bæði eins og það er selt á innlendum markaði og erlendum, og hið vandasama spursmál í því efni liggur í mínum augum fyrst og fremst í því, hvernig hlutföllin eiga að vega á milli í afurðaverðinu, hve mikið hver vara eigi að vega í verðlagsskránni og að hve miklu leyti er þá líka hægt að taka tillit til breyt. á magni, sem verður á framleiðslunni frá ári til árs. Ég ætlast ekki til, að sú regla gildi, eins og hér gerði áður, að verðlagsskrá væri samin í hverri sveit og hverju héraði, heldur að þarna sé ein verðlagsskrá fyrir landið allt og að hún gildi að sjálfsögðu árið út, sé sem sagt ekki breytt nema einu sinni á ári.

Ég skal svo ekki að þessu sinni fjölyrða meira um þetta stóra vandamál, en legg það til, að þessari umr. verði frestað og till. vísað til hv. allshn.