04.05.1960
Sameinað þing: 46. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í D-deild Alþingistíðinda. (3012)

129. mál, eftirlit með fyrirtækjasamtökum

Flm. (Unnar Stefánsson):

Herra forseti. Á þskj. 309 er till. um, að ríkisvaldið taki upp eftirlit með fyrirtækjasamtökum, og hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta athuga, með hverjum hætti hið opinbera geti haft eftirlit með viðleitni einkafyrirtækja til að hafa með sameiginlegri afstöðu á markaði óæskileg áhrif á verðmyndun í landinu og hvernig bezt megi tryggja, að neytendur fái notið ávaxta aukinna framleiðsluafkasta í meira vöruúrvali og hagstæðara verðlagi.“

Með þessari þáltill. fylgir ýtarleg grg., svo að ég sé ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð mörg. Í umr. þeim, sem farið hafa fram hér að undanförnu um skipan innflutnings- og gjaldeyrismála, hefur þrásinnis komið fram í ræðum hv. alþm. ótti um, að aukið frelsi á sviði innflutnings leiði til þess, að svokallaðir auðhringar eða samtök innflytjenda eða fyrirtækja muni ná hér aðstöðu á markaði, sem muni jafnvel torvelda það, að kostir frjálsrar samkeppni geti notið sín. Einmitt vegna þess ótta, sem fram hefur komið, er þessi till. tímabær nú. Hún felur í sér, að það verði athugað, hve mikil brögð séu hér innanlands að því, að einstök sjálfstæð fyrirtæki hafi á eigin spýtur eftirlit eða hömlur á framboði til þess að laga það eftir þeirri eftirspurn, sem fyrir er, sjálfum sér til hagsbóta, en neytendum til tjóns.

Samþykkt þessarar þáltill. er einmitt núna aðkallandi. vegna þess að hún undirstrikar, að það aukna frjálsræði, sem nú verður gefið á sviði innflutnings- og viðskiptamála, má ekki undir neinum kringumstæðum verða túlkað eftir eigin geðþótta innflytjenda eða kaupmanna á þann veg, að þeir fái frelsi til þess að taka sjálfir upp þau höft og hömlur, sem átti að afnema. Ísland hefur þá sérstöðu miðað við önnur lönd, að markaðurinn er mjög þröngur og hefur til þessa verið bundinn í alla enda og kanta, og ríkisvaldið hefur með verðlagseftirliti tryggt sér, að það hefði aðstöðu til þess að vernda hagsmuni neytenda á þessu sviði. Þess vegna hefur til þessa ekki verið talin brýn ástæða til þess að taka upp hérna innanlands eftirlit af hálfu hins opinbera með viðleitni einkaaðila til þess að hafa slíkar hömlur á markaðinum, eins og þeir leitast við að hafa með myndun fyrirtækjasamtaka.

Eins og hv. alþm. er sjálfsagt kunnugt, hefur þetta vandamál verið eitt þeirra mála á þingum nágrannalanda okkar, sem hafa valdið einna mestum deilum undanfarin ár. Það er langt síðan ýmis lönd tóku upp eftirlit með fyrirtækjasamtökum og hafa jafnvel bannað þau með öllu, eins og Bandaríkin, Ástralía og Japan, en önnur hafa tekið upp strangt eftirlit, komið á fót nefndum til þess að fylgjast með þessari viðleitni einkaaðilanna á markaði. Í þeim flokki eru nágrannalöndin okkar, Norðurlöndin, England, Írland, Holland, Belgía, Kanada og önnur lönd. Ég vil undirstrika það, að hér er ekki talið að um sé að ræða neitt óeðlilega ríkisihlutun á markaðnum. Jafnvel helztu talsmenn frjálsra viðskipta fallast einnig á, að nauðsynlegt sé, að ríkisvaldið hafi hönd í bagga um alla þróun viðskiptamála. Ludvig Erhardt, sem er mikill brautryðjandi á sviði viðskiptamála í Vestur-Evrópu og hefur leitt Þjóðverja til þess kerfis hagstjórnarmála, sem hann telur sjálfur, efnahagsmálaráðh. Þýzkalands, að eigi mikinn þátt í þeim efnahagslegu framförum, sem Þjóðverjar hafa orðið aðnjótandi á undanförnum árum, leggur áherzlu á í ræðu og riti, að ríkisvaldið eigi að hafa eftirlit með markaðinum, með fyrirtækjasamtökum, sem kynnu að myndast, og viðleitni þeirra til að hafa áhríf á verðlag og vöruframboð. Hann er á móti algerri stjórn ríkisvaldsins á viðskiptakerfinu, en hann mælir mjög með því, sem hann kallar „Ordnung“ ríkisvaldsins, sem mætti kalla handleiðslu eða eftirlit ríkisvaldsins með markaðinum í staðinn fyrir bein ríkisfyrirmæli eða fyrirskipanir.

Hvað snertir Ísland, þá vil ég leggja áherzlu á, að það er full ástæða til að taka upp slíkt eftirlit hérna innanlands. Í skjóli innflutnings- og gjaldeyrishafta á undanförnum árum hafa einstök innflutningsfyrirtæki skipt á milli sín innflutningsmagni eftir kvótum, sem þau sjálf hafa ákveðið. Innflytjendur og heildsalar á ýmsum sviðum mjög mikilvægra innflutningsvara hafa komið fram gagnvart verðlagseftirliti og gjaldeyrisyfirvöldum sem einn aðili. Það væri hægt að nefna einstök dæmi um það, hvernig fyrirtækjasamtök hafa þegar verkað á markaðinn hérna innanlands. Ég tel þó ekki heppilegt að ræða þau mál hérna, vegna þess að um þau mætti halda heilt erindi, og það gæti verið óheppilegt, áður en þetta mál er afgreitt og þessi till. samþykkt, en hins vegar vil ég taka fram, að ég mundi verða fús til þess að veita allshn., sem væntanlega fengi þetta mál til umr., upplýsingar um þennan þátt íslenzkra viðskiptamála.

Verkaskipting hér innanlands á geysimikinn þátt í þeim efnahagslegu framförum, sem Íslendingar hafa orðið aðnjótandi, þegar heimilisiðnaðurinn færðist yfir í stóriðnað og almenningur tók upp verkaskiptingu milli sveita, borga og viðskiptamiðstöðva. Íslendingar standa nú á þeim tímamótum, að þeir munu eiga kost á því að taka þátt í enn þá meiri verkaskiptingu, í þeirri verkaskiptingu, sem nú verður tekin upp á milli Evrópulandanna. Ég tel sjálfsagt af íslenzkum stjórnarvöldum að miða stefnu í efnahagsmálum að því, að Íslendingar geti orðið aðnjótandi þeirra framfara, sem slík verkaskipting leiðir af sér. Í sambandi við þær breytingar og aðild okkar að efnahagssamvinnustofnunum í Evrópu er nauðsynlegt, að hér á Íslandi sé fyrir hendi heimild fyrir hið opinbera til þess að fylgjast með tilraunum erlendra hringa, fyrirtækjasamtaka, til þess að reyna að setja hömlur eða höft á framboð varnings á íslenzka markaðnum í samvinnu við íslenzka innflytjendur til að vernda þannig neytendur gegn hugsanlegum samtökum. Þess vegna tel ég mikil rök hníga að því, að þessi þáltill. verði samþykkt núna, og leyfi mér að leggja til við hæstv. forseta, að umr. verði frestað og till. vísað til allshn.