19.03.1960
Neðri deild: 50. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1373 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

88. mál, söluskattur

Gunnar Jóhannsson:

Frv. hæstv. ríkisstj. um söluskatt, sem boðað hafði verið að flutt yrði á Alþingi, var lagt fram í Ed. nú fyrir nokkrum dögum. Við afgreiðslu málsins í hv. Ed. voru engar efnislegar breyt. gerðar á frv.; heldur var það samþ. að mestu óbreytt. Sjálfsagt hafa menn ekki búizt við því, að fram kæmi í frv. nein stefnubreyting hjá hæstv. ríkisstjórn. Menn eru nú orðnir ýmsu vanir og m.a. því, að þau mál, sem hæstv. ríkisstj. hefur flutt hér, eru barin í gegn af meira offorsi en áður hefur þekkzt og til þess notuð öll hugsanleg og óhugsanleg meðul. Það, sem ríkisstj. ákveður, skal fram, hvað sem hver segir.

Í sambandi við þessi efnahagsmál öllsömun mætti að sjálfsögðu margt segja, og það er búið að segja margt orðið um þau. Menn eru orðnir ýmsu vanir í sambandi við efnahagsmálin og afgreiðslu þeirra hér, eins og áður hefur verið bent á, og þá ofsalegu fjárplógsstarfsemi, sem ríkisstj. berst fyrir og aldrei í sögu Alþingis hefur nálgazt það hámark, sem nú er stefnt að með auknum álögum á þjóðina. Það má vel vera, að það sé tilgangslítið að ræða við hæstv. ríkisstj. um þessi mál. Sjáanlegt er, að hún hefur þegar tekið sínar ákvarðanir í krafti þess þingmeirihluta, sem að henni stendur. Ég er einn af þeim, sem eru ekki alveg vissir um, að það sé ætíð og ævinlega rétt pólitísk afstaða og rétt pólitísk hyggindi að neyta í einu og öllu krafta meirihlutavalds og taka að engu leyti til greina óskir og ábendingar frá stjórnarandstöðunni. Ég álít t.d., að slík afstaða til stjórnarandstöðunnar sé síður en svo hyggileg vinnubrögð. Það má vei vera, að hæstv, ríkisstj. telji sig ekki standa pólitískt sterkt meðal almennings í landinu og hún álíti, að með því að mæta að einhverju leyti kröfum og óskum stjórnarandstöðunnar á einn eða annan hátt, þá sé hætta á því; að hin pólitíska spilaborg hennar bresti, jafnvel hrynji saman.

Annars eru starfsaðferðir hæstv: ríkisstj, út af fyrir sig ákaflega merkilegt mál, sem hægt væri ýmislegt um að segja. Það er t.d. mikið rannsóknarefni, hvernig á því getur staðið, að efnahagsmálin og söluskattsfrv. skuli ekki hafa verið lögð fram samtímis, svo nátengd sem þau tvö mál eru. Á þessum óvenjulegu og óeðlilegu vinnubrögðum hefur engin fram: bærileg skýring fengizt. Það er engin skýring og það er engin afsökun að bera því við, að hæstv. ríkisstj, hafi ekki haft nægan tíma til að undirbúa þessi mál og leggja þau fyrir bæði í einu, — það er engin afsökun. Það hljóta allir að sjá, að það hefði verið miklu eðlilegra og reyndar alveg sjálfsagt, að allar aðaltillögur hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum og öðrum hliðstæðum málum hefðu verið lagðar fram á Alþingi samtímis. Með því hefði fengizt betri yfirsýn yfir málin og þm. gefizt betra tækifæri til að kryfja málin frekar til mergjar. Auk þess hefði slík málsmeðferð haft mikinn tímasparnað í för með sér. Menn tala hér mikið um sparnað. Menn tala um, að það sé mjög nauðsynlegt að spara í öllum ríkisrekstri. En mér sýnist einmitt, að allar starfsaðferðir hæstv. ríkisstj. bendi í alveg þveröfuga átt.

Ég þarf ekki mörgum orðum um það að fara, en það er vitað, að aldrei á Alþingi Íslendinga hefur verið lagt fram fjárlagafrv. með jafnháum upphæðum og nú. Bendir það í sparnaðarátt? Er ekki alltaf verið að stofna til nýrra embætta? Hefur ekki hæstv. ríkisstj. m.a. stofnað heilt ráðuneyti? Ég held það — með fjölda starfsmanna, miklu skrifstofuhaldi o.s.frv. Það bendir sannarlega ekki í þá átt, að hæstv. ríkisstj. sé á sparnaðarleiðinni, síður en svo.

Það hafa verið boðaðar alhliða breytingar á skattalöggjöfinni. Ekkert frv. er enn þá fram komið frá hæstv. ríkisstj. um það mál. Hvað veldur því? Eftir hverju er verið að bíða með að koma með slíkt frv. fram? Það hefur verið boðað, að það ætti að lækka tekjuskattinn. Það var gert í frv. um efnahagsmálin. En endanlegt frv. um þetta er ekki komið fram.

Þá ræða hæstv. ráðherrar um lækkun tekjuskattsins sem orðinn hlut, og nú er farið að ræða um lækkun útsvara. En hver trúir því í alvöru, að útsvörin verði lækkuð, á sama tíma sem flestir útgjaldaliðir bæjarfélaganna hljóta að hækka stórlega vegna aðgerða ríkisstj. og Alþingis? Ég tel það mikinn vafa, þó að Reykjavíkurbær geti ausið af nægtabrunni sinna skattgreiðenda hér, með þeim aðgerðum, sem nú er verið að gera, að Reykjavíkurbær geti lækkað svo sem neitt útsvörin frá því, sem þau voru í fyrra. Ég hef fylgzt með því, hvernig útsvörin hafa verið afgreidd úti á landi hjá hinum ýmsu bæjum. Ég minnist ekki, að í einu einasta bæjarfélagi hafi útsvar verið lækkað nema í einu, á Akureyri, og það eru taldar vera mjög óraunhæfar aðgerðir.

Margt furðulegt hefur komið fram í umræðum um þessi mál undanfarna daga. Því er t.d. haldið fram, að vaxtahækkunin auki ekki dýrtíðina í landinu og að vaxtahækkun eigi ekki að koma fram í verðlaginu. Svona málflutningur er hinn furðulegasti. Hver trúir svona málflutningi? Hver trúir því, að kaupmaður, sem verður að taka víxil í banka eða sparisjóði með 11% vöxtum — og 111/2 eða 12% á framlengingarvíxlum, sleppi að setja það inn í vöruverðið? Ja, hver trúir því? Ekki ég. Trúir hæstv. fjmrh. því? Trúa hv. þm. stjórnarflokkanna því, að svona lagað sé hægt áð bera á borð fyrir almenning?

Þá er verið að reyna að telja þjóðinni trú um, að hinar nýju efnahagsráðstafanir séu ekki neinar byrðar fyrir almenning, í hæsta lagi svolítil óþægindi. Staðreyndin er hins vegar sú, að varla líður sá dagur, að ekki komi fram nýjar og nýjar stórhækkanir, stórkostlegar hækkanir. Seinast í dag var það birt í blöðunum, að t.d. allar tóbaksvörur í landinu hefðu stórlega hækkað. Ja, tóbaksvörur eru algengar neyzluvörur, sem almenningur í landinu almennt notar, og það gengur út yfir tekjur fólksins hin stórkostlega hækkun á þeim. Það gengur út yfir það, að fólkið verður að neita sér um margt annað, vegna þess að allar vörur í landinu hafa stórhækkað og eru að hækka daglega frá 30 upp í 80%. Svo halda hv. stjórnarflokkar, að hér sé ekkert á ferðinni, hér sé ekki um neina hækkun að ræða, aðeins örlítil óþægindi. Jafnvel vörur, sem hæstv. ríkisstj. greiðir niður, eftir því sem blöð ríkisstj. hafa sagt og ríkisstj. sjálf, þær hækka, þær hækka mikið. En það er annað, sem er dálítið merkilegt við þetta, og það er það, að blöð hæstv. ríkisstj. eru alveg þögul sem gröfin yfir hinum nýju hækkunum. Ég minnist ekki að hafa séð það í einu einasta blaði, sem stendur að ríkisstj., að það sé minnzt á neinar hækkanir. Nei, nei, ekkert. En sú var tíðin, að Morgunblaðið, Vísir og Alþýðublaðið þögðu ekki yfir hækkunum, ef einhverjar urðu. Ég minnist þess á dögum vinstri stjórnarinnar. Þá var ekki þagað yfir því, að vörurnar hækkuðu. Þá komu fyrirsagnir á fyrstu síðum þessara blaða um stórkostlegar hækkanir af völdum og fyrir aðgerðir vinstri stjórnarinnar. Þá var ekki þagað yfir því, ef vörurnar hækkuðu. En þá gerðist líka annað. Þá gerðust þau stórtíðindi, að Sjálfstfl. gerðist kaupkröfuflokkur á Íslandi og meira að segja lét flokksmenn sína bjóða kauphækkun til vissra aðila. Það getur margt merkilegt skeð, jafnvel það, að Sjálfstfl. getur gerzt kaupkröfuflokkur, ef hann heldur, að hann græði á því pólitískt. Nei, annar eins hráskinnsleikur hefur aldrei áður verið leikinn. Aldrei hefur meiri blekkingum og lýðskrumi verið beitt en þá var gert af Sjálfstfl. Og enn er sömu aðferðunum beitt, lýðskrumi og blekkingum. Nú er ekki hvatt til verkfalla reyndar. Nei, nú er fólkinu bara sagt, að það hafi lifað um efni fram og það verði að fórna einhverjum hluta launa sinna, svo að kapítalisminn á Íslandi geti lifað, annars sé hann búinn að vera, auðvaldsþjóðfélagið sé alveg í andarslitrunum. Ja, það er ekki lítið: sjálft auðvaldsþjóðfélagið á Íslandi var alveg komið að því að deyja. Og þá náttúrlega hljóp hæstv. ríkisstj. upp til handa og fóta til þess að bjarga því, — bjarga því, sem bjargað yrði. Og að ætla sér að lifa á Íslandi, án þess að auðvaldið sé alls ráðandi, það væri alveg óhugsandi út frá sjónarmiði þessara manna. Þannig er fólkinu sagt í öðru orðinu, að það þurfi að færa fórnir, í hinu orðinu, að það færi engar fórnir. Hvað rekur sig hér á annars horn, hver æpandi mótsögnin á móti annarri.

Það er engu líkara en hæstv. ríkisstj. telji, að fólkið í landinu sé hætt að hugsa og það sé óhætt að bjóða almenningi upp á hvað sem vera skal. Heldur nú hæstv. ríkisstj. — og ég endurtek: Heldur hæstv. ríkisstj., að verkalýðssamtökin t.d. láti það viðgangast til lengdar, að kjör verkafólks og annarra launþega verði rýrð jafnstórkostlega og nú er stefnt að, án þess að til gagnráðstafana komi frá þeirra hendi? Dettur hæstv. ríkisstj. það virkilega í hug? Hæstv. ríkisstj. mun fyrr eða síðar sannfærast um, að það er óhugsandi, það er óvinnandi verk að stjórna Íslandi í baráttu á móti verkalýðssamtökunum. Auðvaldið á Íslandi hefur áður reynt að koma á fót sterkri afturhaldsstjórn, en allar tilraunir, sem gerðar hafa verið í þá átt, hafa verið fyrir fram dauðadæmdar, og eins mun nú verða, vegna þess að stefna þeirra í fjármálum og efnahagsmálum gengur á móti hagsmunum fólksins í landinu. Þetta er ákaflega einfaldur sannleikur, sem hæstv. ríkisstj. mætti gjarnan leggja sér betur á minni hér eftir en hún hefur gert hingað til. Alþýðan í landinu liður engri ríkisstjórn að traðka á rétti sínum, og hún mun ekki heldur láta nokkra misvitra fulltrúa auðmannastéttarinnar í ríkisstjórn og á Alþingi leiða yfir sig stórfellt kauprán, atvinnuleysi og fátækt. Það er engin ástæða til þess, að við á okkar góða landi séum að leiða yfir landið fátækt og örbirgð. Við, sem erum komin á þann aldur, sem ég er, þekkjum; hvað var að búa við fátækt, og við óskum ekki eftir henni. Og við munum beita öllum okkar samtakamætti, beita okkar samtökum á móti því, að slíkt ástand endurtaki sig sem var um 1920 og fram til 1930 og 1940.

Það er algerlega vonlaust verk fyrir hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokka hennar að reyna að telja almenningi í landinu trú um það, að launin séu of há og hlutur hans af þjóðartekjunum sé of mikill. Menn vita, að þetta eru ósannindi, hvað sem öllum hagfræðilegum útreikningum líður. Efnahagsörðugleikarnir liggja ekki í of háu kaupgjaldi, síður en svo, heldur fyrst og fremst í skipulagsleysi í sjálfum þjóðarbúskapnum. Að ætla sér að reka þjóðfélagsbúið án nokkurs skipulags, án nokkurrar fyrir fram gerðrar áætlunar, er hrein og bein pólitísk glópska — ekkert annað; sem fyrr eða síðar hlýtur að hefna sín geipilega.

Frá því að núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum og fram á þennan dag er það eitt fremur öðru, sem einkennt hefur stefnu hæstv. ríkisstjórnar, og það er hið óhugnanlega skattaæði, sem virðist hafa gripið hæstv. ríkisstjórn. Mönnum hafði þó fundizt fulllangt gengið á skattabrautinni áður. Engar opinberar skýrslur liggja fyrir um það, hvað launafólk greiðir mikinn hluta af launum sínum til hins opinbera. Hins vegar telja menn, sem hafa rannsakað þetta lítillega, að ekki muni fjarri lagi að ætla, að íslenzkir launþegar greiði af launum sínum 45% til ríkis og bæja, þar með talin sjúkrasamlagsgjöld og tryggingagjöld. Séu þessar tölur ekki fjarri því rétta, sést, að hér er gengið lengra í skatta- og tollaálögum en í nokkru öðru landi í Vestur-Evrópu. Við Íslendingar búum þó ekki við það ástand að þurfa hér að kosta her, en það gera allar aðrar þjóðir í Evrópu. Þrátt fyrir það er þó skattaálagningin hér á Íslandi og tollaálagningin meiri en í nokkru öðru landi í VesturEvrópu.

Með frv., sem hér liggur fyrir, er boðaður nýr og áframhaldandi söluskattur, söluskattur á allan almenning, sem er hreint og beint ekkert annað en nefskattur og leggst vitanlega og kemur harðast niður á þeim, sem hafa stærstu fjölskyldurnar. Stærstu fjölskyldurnar hafa ekki greitt háan tekjuskatt, heldur tiltölulega mjög lágan, en þessir nýju skattar koma með öllum sínum þunga og lenda með öllum sínum þunga mest á þeim, sem hafa flesta munna að fæða og klæða. Þessi skattur skal lagður á allar vörur og þjónustu, án þess að launþegar fái neitt í staðinn. Vísitöluna er búið að afnema. Það þýðir, að hvað mikið sem allt verðlag hækkar í landinu, fá launþegarnir engar bætur á móti.

Á meðan vísitalan var í gildi, fengu þó launastéttirnar hækkaða vísítölu í nokkru samræmi við hækkað verðlag. Þetta öryggi launastéttanna, sem alveg tvímælalaust var mikið öryggi fyrir alla alþýðu gegn vaxandi dýrtíð, var mikill þyrnir í augum stóratvinnurekenda og afturhalds á Íslandi. Engin ríkisstj. hafði þó þorað að afnema vísitölukerfið, þar til nú að samstjórn Alþfl. og Sjálfstfl. taldi sig hafa til þess nægilegan pólitískan styrk hér á Alþingi að ráðast þannig aftan að launþegasamtökunum á ósvífnari hátt en nokkur dæmi eru til í allri þingsögu Íslendinga.

Í skjóli þeirra aðgerða að afnema vísitöluuppbót á kaup hefur svo hæstv. ríkisstj. lagt til, að hún fái mjög víðtækt vald í skattamálum og að lögleiddur verði nýr söluskattur, sem mun nema 161/2 % eða jafnvel meira. Það er erfitt að reikna út, hvað hinn nýi skattur kann að verða hár, það er hægt að láta sér detta í hug, að skatturinn verði samanlagt allt upp í 20%. Með svona aðferðum er gengið lengra á rétt verkalýðsfélaganna og annarra launþega en áður hefur þekkzt. Ég vil hér alveg sérstaklega sem einn af meðlimum verkalýðshreyfingarinnar mótmæla fyrir hönd verkalýðsfélaganna hinum síendurteknu árásum á lífskjör verkalýðsins og annarra launastétta, og ég er alveg viss um það, að þau munu áskilja sér allan rétt til að gera nauðsynlegar gagnráðstafanir, þótt siðar verði.

Engar af þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið í efnahagsmálum þjóðarinnar, eru gerðar að vilja launastéttanna, heldur þveröfugt. Allar ráðstafanir, sem gerðar hafa verið í efnahagsmálum þjóðarinnar, eru gerðar án nokkurs samráðs við verkalýðshreyfinguna. Það hefur aldrei verið við hana rætt um eitt einasta atriði. Það hefur verið rætt við aðra. Það hefur verið rætt við samtök atvinnurekenda, við samtök kaupmanna, við samtök heildsala, það hefur verið rætt við þá, en alls ekki verið rætt við fulltrúa verkalýðsfélaganna um þessi mál. Þau eru þó stærstu fjöldasamtökin í landinu, og þess ætti ríkisstj. að vera minnug, að þau eru vald, sem er erfitt að brjóta á bak aftur, ef þau fara af stað á annað borð. Við skulum vona, að ekki komi til slíkra átaka, en ég tel mér skylt að aðvara ríkisstjórnina að halda ekki áfram á þeirri braut, sem hún er nú á.

Hæstv. ríkisstjórn ber því að fullu og öllu ábyrgð á þeim afleiðingum, sem óumflýjanlega munu fyrr eða síðar fylgja í kjölfar þessara hrottalegu aðgerða og stórkostlegu árása á lífskjör fólksins í landinu. Alþýða manna um allt land mun taka sér tíma til að athuga sinn gang, athuga, hverjar afleiðingar hinar nýju aðgerðir í efnahagsmálum koma til með að hafa á lífskjörin, og að lokinni þeirri rannsókn og athugun mun fólkið í þessu landi taka sínar ákvarðanir og krefjast þess réttar, sem núv. valdhafar eru að reyna að ræna frá fólkinu. Réttinn til að lifa mannsæmandi lifi, þann frumburðarrétt mun alþýðan á Íslandi aldrei leyfa neinum að taka af sér. Þess skyldi hæstv. ríkisstj. minnast, að hún hefur verið aðvöruð. Hún ein ber því ábyrgðina á því, sem kann að verða gert. Hún hefur með aðgerðum sínum stuðlað að auknum stéttaátökum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Þetta frv. er bara einn hlekkur í þeirri miklu árásakeðju, sem hæstv. ríkisstj. hefur verið og er að leggja á herðar allrar alþýðu. Þessi keðja verður slitin, og þessum árásum verður hrundið, það má hæstv. ríkisstjórn vera viss um.