18.05.1960
Sameinað þing: 50. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í D-deild Alþingistíðinda. (3021)

133. mál, skóli fyrir fiskmatsmenn

Flm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég flyt hér ásamt hv. 4. þm. Reykn. till. til þál. á þskj. 330 um stofnun skóla fyrir fiskmatsmenn, verkstjóra í fiskiðnaði og aðra leiðbeinendur um fiskverkun. Till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér hið fyrsta fyrir setningu löggjafar um sérstakan skóla fyrir fiskmatsmenn, verkstjóra í fiskiðnaði og aðra leiðbeinendur um fiskverkun.“

Eins og tillgr. mælir um, er skorað á ríkisstj. að beita sér hið fyrsta fyrir setningu löggjafar um sérstakan skóla handa fiskmatsmönnum, verkstjórum og öðrum, sem vinna við fiskverkun. Samkv. gildandi lögum um fiskmat er svo fyrir mælt, að á hverri fiskverkunar- eða vinnslustöð skuli vera einn fiskmatsmaður eða fleiri, eftir því sem fiskmatsstjóri álítur þörf fyrir. Segir svo um undirbúningsmenntun þessara manna, að fiskmatsmenn skuli hafa aflað sér staðgóðrar þekkingar á fiskmati, verkun og meðferð fisks eða hafa lokið prófi á námskeiði fyrir fiskmatsmenn.

Síðan lögin gengu í gildi, hefur verið efnt til allmargra námskeiða, og hafa þau oftast staðið þrjár vikur, en mest sex vikur. Eru þessi námskeið að heita má hin eina skipulagsbundna sérmenntun, sem fiskmatsmenn fá, en að öðru leyti verða fiskmatsmenn að byggja á eigin reynslu og brjóstviti í starfi sínu. Reynslan er að vísu dýrmætur skóli hverjum starfsmanni og brjóstvitið ómetanlegur eiginleiki, en á síðari árum hefur þó farið að gæta vaxandi efa á gildi þess eins saman, þegar um vandasöm og ábyrgðarmikil störf er að ræða. Ekki þarf að fara í neinar grafgötur um, að fiskmatsstörfin eru bæði ábyrgðarmikil og vandasöm. Veltur á miklu, að til starfa við fiskmat veljist aðeins þeir menn, sem þekkingu hafa á verkun fisks og meðferð hans og samvizkusemi til þess að fylgja eftir þeim reglum, sem settar eru um fiskmatið. Allt hálfkák er hvarvetna til trafala, í hvaða framleiðslugrein sem er og hvaða starfi sem er, og gildir þar hið sama um fiskmat, fiskverkstjórn og hvað annað, sem að fiskverkun lýtur. Það er því skylda þjóðfélagsins að sjá svo um, að þeir, sem til forustu veljast í fiskverkunarmálum, njóti góðrar undirbúningsþjálfunar undir starf sitt, til þess að tryggt verði, að það komi að sem mestu gagni.

Ég efast ekki um, að fiskmatsmenn hér á landi eru margir ágæta vel hæfir starfsmenn og þeir hafi fengið þá reynslu til starfans, sem núgildandi lög kveða á um. En hitt er mér meira til efs, að löggjafinn hafi verið nógu strangur í hæfniskröfum, þegar þær voru fram settar á sínum tíma. A.m.k. er ég þess alveg fullviss, að nú er kominn tími til þess að skipa þessum málum á annan veg en verið hefur og setja mun strangari kröfur um sérmenntun fiskmatsmanna og annarra, sem forustu hafa á sviði fiskiðnaðarins. Okkur ber að setja okkur hærra mark í fræðslumálum fiskiðnaðarins en það, sem nú endurspeglast í þriggja vikna námskeiðunum, sem tíðkuð hafa verið undanfarin ár. Slík námskeið hafa reynzt góð, svo langt sem þau náðu, en þau eru engin frambúðarlausn. Stefnan í fræðslumálum fiskiðnaðarins hlýtur að breytast úr núverandi námskeiðafyrirkomulagi yfir í það, að fastir skólar starfi í landinu, er sérmennti leiðbeinendur og annað starfsfólk þessarar mikilvægu framleiðslugreinar.

Í þessu sambandi þykir mér rétt að benda á það, að fyrir þinginu liggur nú stjórnarfrv. um ferskfiskeftirlit, þ.e.a.s., gert er ráð fyrir sérstakri stofnun, er beri þetta heiti og hafi með höndum eftirlit með meðferð og gæðum nýs og ísaðs fisks, sem landað er til vinnslu, frá því að fiskurinn kemur í skip og þar til hann er tekinn til vinnslu, og eins að hafa eftirlit með búnaði og þrifnaði fiskiskipa að því er varðar geymslu fisks í veiðiför og þrifnaði og búnaði fiskmóttökuhúsa í landi. Með þessu er gert ráð fyrir nánari og virkari afskiptum opinberra aðila af meðferð fisksins, allt frá því að hann er veiddur og þar til hann er kominn í fiskmóttökuhús í landi. Þá gerir nefnt frv. einnig ráð fyrir því, að yfirstjórn ferskfiskeftirlitsins vinni að aukinni fræðslu um fiskverkun og meðferð afla og skipuleggi og framkvæmi hvers kyns áróður til þess að auka skilning og tilfinningu fyrir vöruvöndun. Ef þetta frv. um ferskfiskeftirlit verður að lögum, sem vart þarf að efa, þá sjá allir, að mjög eykst þörfin á hæfum mönnum til eftirlits og mats í fiskiðnaðinum, og það hlýtur því að kalla á aukna fræðslu í þessu sambandi. Er það skoðun okkar flm. þeirrar þáltill., sem hér er til umr., að mikilvægasta sporið, sem stigið yrði í fræðslumálum fiskiðnaðarins nú í bili a.m.k., sé einmitt stofnun slíks sérskóla, sem við leggjum til að ríkisstj. beiti sér fyrir. Það er sannfæring okkar, að áhrif slíks skóla yrðu fljót að segja til sín og fljót að borga upp þann kostnað, sem óhjákvæmilega hlýtur að leiða af skólastofnuninni.

Ég tel ekki ástæðu til þess, a.m.k. ekki á þessu stigi málsins, að fara út í einstök atriði, er varða starfsfræðslu slíks skóla, sem hér er talað um. Ég mun því hvorki gera staðsetningu skólans né lengd skólagöngunnar að umtalsefni, enda mun það verða verkefni þeirra aðila eða þeirrar n., sem ríkisstj. væntanlega setur til þess að kanna þetta mál og undirbúa löggjöf þá, sem hér er lagt til að sett verði. En hitt vil ég taka fram, að við tillögumenn ætlumst ekki einungis til þess, að skólinn mennti fiskmatsmenn í þrengstu merkingu eða þá, sem starfa samkv. gildandi lögum um fiskmat, heldur er ætlun okkar, að nemendur skólans verði öðrum fremur valdir til verkstjórnar í hraðfrystihúsum og öðrum fiskvinnslustöðvum eða gegni þar öðrum störfum, þar sem þekking þeirra nýtist. Þá sýnist og augljóst, að ef ferskfiskeftirlitið verður sett á stofn, eins og gert er ráð fyrir, þá verði nemendur hins fyrirhugaða skóla öðrum hæfari til þess að starfa á vegum eftirlitsins. Án hæfra og vel menntaðra starfsmanna getur ferskfiskeftirlitið aldrei orðið annað en svipur hjá sjón. Ferskfiskeftirlitinu er ekki ætlað að hafa með höndum hið eiginlega fiskmat, heldur skal það hafa eftirlit með þrifnaði, umgengni og meðferð fisksins í skipum og fiskmóttökuhúsum, áður en hin eiginlega fiskvinnsla hefst.

Þá vil ég leyfa mér að benda á enn eitt verkefni slíks skóla, sem hér er hugsaður, nefnilega það að þjálfa nemendur til leiðbeiningarstarfa, námskeiðshalds og fyrirlestrahalds um fiskvinnslu og meðferð fisks. Eins og frv. um ferskfiskeftirlit ber með sér, er gert ráð fyrir, að stjórn eftirlitsins framkvæmi hvers kyns áróður til þess að auka skilning á og tilfinningu fyrir vöruvöndun. Ef nokkurt gagn á að verða af slíkum áróðri, þurfa að vera til nægilega margir velmenntir menn, sem lagt geti þar hönd að verki. Ég get því ekki betur séð en nú þegar sé þörf sérstaks skóla í þeirri grein, sem um er fjallað. Verkefnin eru næg og margvísleg og sýnt, að framtíðarverkefni velmenntra manna á þessu sviði fara sístækkandi. Sé einnig tekið tillit til þess, að fiskveiðar og fiskverkun eru nú meðal okkar helztu framleiðslugreina og óvefengjanlega mikilvægustu þættir útflutningsins, þá verður enn skiljanlegra, hve nauðsynlegt er að efla verkmenningu á því sviði, og það er því fullkomlega þess vert að hafa í huga, að nútíminn viðurkennir ekki aðra lausn á fræðslumálum en þá, að að þeim starfi vel búnir, fastir skólar með hæfum kennslukröftum. Sannleikurinn er sá, að slíkur skóli sem þessi hefði átt að vera kominn upp fyrir löngu.

Ef við berum saman aðstæður í fræðslu- og skólamálum sjávarútvegs, iðnaðar og landbúnaðar, getur varla dulizt, að þar er sjávarútvegurinn drjúgan spöl á eftir í ýmsu tilliti og hefur að sumu leyti aðeins náð með tærnar, þar sem hinir hafa hælana. Sérstaklega verður það áberandi, ef menn bera saman fræðslumál landbúnaðar og sjávarútvegs. Stýrimanna- og vélstjórafræðsla og matsveinafræðsla er að sjálfsögðu í ágætu lagi hjá okkur, en allt annað, sem lýtur að menntun sjómanna og fiskimanna, gersamlega óviðunandi. Það er fróðlegt í þessu sambandi að virða fyrir sér þingmál Alþingis nú í vetur. Fyrir þinginu liggur, óafgreitt að vísu, stjórnarfrv. um stofnun landbúnaðarháskóla á Íslandi. Svo langt er fræðslu- og skólamálum landbúnaðar komið, að það eitt er eftir að stofna landbúnaðarháskóla. En ástandið í fræðslumálum sjávarútvegs og fiskiðnaðar er hins vegar þannig, að enn er þess enginn kostur að mennta æðstu trúnaðarmenn og leiðbeinendur í fiskiðnaði í sérskóla fyrir þessar atvinnugreinar. Þar verður reynslan og brjóstvitið að ráða stefnunni.

þáltill., sem hér er til umr., miðar að því að vekja athygli stjórnarvaldanna á þessu nauðsynjamáli sjávarútvegs og fiskframleiðslu. Það er einlæg von okkar flm., að málið fái góðar undirtektir á hv. Alþ. og verði afgreitt, áður en þingi lýkur nú í vor.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leggja til, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.