24.05.1960
Sameinað þing: 53. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í D-deild Alþingistíðinda. (3040)

146. mál, veiðitími og netjanotkun fiskiskipa

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Síðari málsgr. þeirrar till., sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir því, að að þeirri athugun lokinni, sem þar er vitnað til, verði undirbúin lagasetning um takmarkanir á veiðarfæranotkun og veiðitíma. Þetta gefur mér tilefni til þess að láta álit mitt í ljós í sambandi við þetta mál.

Ég er alveg sammála hv. frsm. þessarar þáltill., að nauðsynlegt sé og eðlilegt, að gerðar séu ráðstafanir til þess að tryggja, eins og við verður komið, að það hráefni, sem fiskiðnaðurinn fær, sé eins gott og nokkur kostur er. Ég held, að allir hljóti að vera sammála um þetta, og ég held, að allir viðurkenni þá staðreynd, að traustasti hornsteinninn undir útflutningsframleiðslu okkar sé það, að við framleiðum eins góða og eins seljanlega vöru og aðstæður frekast leyfa.

Þetta er það lögmál, sem allir vita að gildir manna á meðal og þá ekki síður í viðskiptum þjóða á milli. Hitt er svo annað mál, að þegar ástand skapast, eins og um getur í grg. þeirrar till., sem hér liggur fyrir, er ekki nema eðlilegt, að menn greini á um, hvaða leiðir beri að fara til úrbóta í þessum efnum og hvaða leiðir séu fljótvirkastar og raunhæfastar.

Því miður tel ég, að till. sú á þskj. 371, sem hér liggur fyrir til umr., nái ekki því marki, sem að er stefnt, og sé ekki raunhæf lausn á því vandamáli, sem þar er rætt um. Ég tel, að í hana vanti ábendingu um þá leið, sem að margra dómi er sú eina, sem er líkleg til að leysa þennan vanda, en það er að meta eða flokka þann fisk, sem fiskiðjuverin taka við, og greiða hann með mismunandi verði eftir gæðum, þannig að verð á góðum og óskemmdum fiski, hvort sem hann er veiddur á línu, net eða önnur veiðarfæri, sé mun hærra en á lakari og verr með förnum fiski. Ég mun koma nánar að þessu atriði síðar.

Þegar rædd er netjanotkun sérstaklega, mega hv. þm. ekki halda að netjaveiðar séu nokkurt nýtt fyrirbæri eða veiðiaðferð. Þær hafa t.d. verið stundaðar úr einni verstöð hér á landi, Vestmannaeyjum, samfellt í 46 ár, og er sú útgerðarstöð og sú framþróun, sem þar hefur orðið, að langmestu leyti byggð upp á verðmæti þess afla, sem fengizt hefur í þorskanet. Mér er ekki kunnugt um, að Vestmanneyingar hafi nokkurn tíma verið í vandræðum með að selja sinn fisk af þeirri ástæðu, að þeir væru með verri vöru en flutt er út frá öðrum verstöðvum. Netjafiskur er á erlendum markaði seldur sem slíkur og flokkaður í ákveðna gæðaflokka hvað saltfisk snertir, og munu Norðmenn hafa verið búnir að leggja þar línuna, bæði hvað verðmismun og flokkun snerti, áður en Íslendingar byrjuðu að flytja þessa vöru út.

Ég dreg þetta fram hér til þess að benda á, að þjóðarbúið hefur undir engum kringumstæðum efni á því að láta bátaflotann hætta netjaveiðum eða takmarka afköst hans með óeðlilegum ráðstöfunum, og einnig sem sönnun fyrir því, að fiskframleiðslu okkar og fiskútflutningi þarf engin hætta að stafa af þessum veiðum, ef rétt er að þeim staðið og eðlilegs hófs gætt með notkun veiðarfæra. En því miður verður að viðurkenna, að sú staðreynd blasir við, að lengra er nú gengið í Þessum efnum en eðlilegt er og það svo að til tjóns er bæði fyrir þá, sem þessar veiðar stunda, og einnig fyrir þjóðarheildina, og er þá ekki nema eðlilegt, að hv. Alþingi ræði þessi mál og reyni að finna leiðir til úrbóta, sem varanlegar gætu orðið.

Hv. flm. þessarar þáltill. benti á tvær leiðir til úrbóta, eins og áður hefur verið sagt: annars vegar takmörkun á veiðarfæranotkun og hins vegar takmörkun á veiðitíma með þorskanet. Ég sagði í upphafi máls míns, að ég teldi, að hvorug þessi leið mundi ná því marki, sem að er stefnt, og skal ég færa fram rök fyrir þessari staðhæfingu.

Takmörkun veiðarfæra í þessu sambandi er hvergi nærri eins einfalt mál og hv. flm. virðast gera sér í hugarlund. Nú mun það algengast, að þeir bátar, sem þessar veiðar stunda, hafi 90–100 net í sjó. Til þess að draga þennan netjafjölda daglega þarf vana og samhenta skipshöfn. Þetta virðast eðlileg afköst slíkrar skipshafnar. Það væri því eðlilegt, ef lögbinda ætti netjafjölda þeirra báta, sem þessar veiðar stunda, að miða við það, sem vön skipshöfn fengi við ráðið, miðað við, að netjanna væri vitjað daglega, ef veður leyfir.

En þá kemur annað spursmál: Hvað um þá báta, sem hafa ekki vana menn innanborðs nema að takmörkuðu eða litlu leyti? Og verðum við að gera okkur grein fyrir, að svo er um marga báta, sem netjaveiðar stunda. Hver yrði þeirra aðstaða? Í Vestmannaeyjum, þar sem ég er þessum málum kunnugur, liggur fyrir nokkur reynsla einnig hvað þetta atriði snertir. Það er almennt talið, að eins og bátar með vana og samhenta skipshöfn ráða við að draga 90–100 net í veiðiferð, þá eigi bátar sömu stærðar, ef um óvana og ekki nægilega samhenta skipshöfn er að ræða, fullt í fangi með að innbyrða 60–70 net. Ef takmarka ætti netjafjölda báta, eins og hér er verið að ræða, þá er spurningin: Við hvað á að miða? Á að miða við bát, sem afkastar allt að 100 netjum, eða á að miða við báta, sem í hæsta lagi afkasta 60 netjum, eða á að setja bilið einhvers staðar þarna á milli? Ef takmarkið væri bundið við 90–100 net, mundi tilganginum engan veginn náð, þar sem fjöldi báta mundi eftir sem áður hafa aðstöðu til að koma með skemmdan fisk að landi, þótt veður hamlaði ekki. Ef takmarkið væri hins vegar bundið við 60 eða t.d. 75 net, mundi að vísu færast nær því marki, að tilganginum yrði náð, en það mundi aftur leiða af sér stórkostlega afkastaskerðingu fyrir þá báta, sem betri aðstöðu hafa. Og ég held, að rétt sé, að hv. Alþingi geri sér ljóst þegar í upphafi, að löggjöf um takmörkun netjafjölda, sem hefði slíka skerðingu í för með sér bæði fyrir útgerðarmenn og sjómenn, mundi brotin niður í reyndinni og gerð óvirk. Til þess eru nógar leiðir, sem liggja alveg í augum uppi fyrir þá, sem til þekkja. Dugmiklir sjómenn mundu aldrei una því, að þeim yrði settur slíkur fjötur um fót. Lög um slíka takmörkun mundu því þegar af þeirri ástæðu ekki ná tilætluðum árangri og ekki ná því marki, sem stefna ber að, og er þó margt fleira, sem þarna grípur inn, margar aðstæður, sem ég sé ekki ástæðu til að fara út í hér, en allar ganga í þá átt að undirstrika, að lög um takmörkun á netjanotkun mundu óframkvæmanleg og óraunhæf.

Um annað meginatriði þessarar till., þ.e. tímabindingu á því, hvenær megi hefja veiðar með þorskanet, segir orðrétt í grg. till., með leyfi hæstv. forseta: „Framanrituð till. til þál. er fram borin með það í huga, að þessi háskalega þróun verði stöðvuð. Telja flm. það hægt t.d. með því að takmarka veiðitímann þannig, að ekki megi hefja netjaveiðar fyrr en t.d. 15. marz eða 15. apríl.“ Um þetta er það að segja, að ég held, að allir, sem nokkuð þekkja til veiða í þorskanet, hljóti að vera sammála um, að mjög hæpið sé, svo að ekki sé meira sagt, að ákveða með lögum, hvenær rétt sé að hefja veiðar með þessu veiðarfæri. Hve lengi fram eftir vertíð er hagkvæmt að veiða þorsk á línu og hve snemma er eðlilegt að byrja með net hér við Suður- og Suðvesturlandið, fer alveg eftir því, hve snemma æti það, sem þorskurinn sækist eftir, ber að landinu. Það vita allir, að þegar svo er komið, að ætíð er komið á miðin, er tilgangslítið að reyna að fiska á línu með nokkrum árangri, og er þá eðlilegt, að bátar hefji netjaveiðar. Hvenær slík aðstaða skapast, fer eftir lögmálum, sem engin lagasetning getur nokkurn tíma náð yfir. Að ætla sér að tímabinda eða hefja netjaveiðar ekki fyrr en 15. apríl, væri sama og að skerða stórkostlega rekstrargrundvöll mikils hluta þess bátaflota, sem veiðar stundar hér við Suður- og Suðvesturland, þar sem vel getur farið svo, enda mörg dæmi um, að netjafiskur er á þessum tíma að mestu leyti genginn hjá. Ég veit, að þetta vakir ekki fyrir hv. flm. þessarar þáltill., heldur mun þetta tímatakmark komið inn í grg. till. að of lítið athuguðu máli. Ég held, að þegar sé alveg óhætt að slá því föstu, að gersamlega tilgangslaust er að tala um 15. apríl sem tímatakmark, sem leyfilegt væri að hefja veiðar með þorskanet.

Eins og ég gat um í upphafi máls míns, hafa Vestmanneyingar stundað netjaveiðar í 46 ár. Þeir hafa því óefað öðlazt mikla reynslu í þessu sambandi, þekkja bæði kosti þess að veiða í net og eins þá ágalla, sem á því eru. Ég vil a.m.k. ekki eiga neinn hlut að því að setja löggjöf um, hvenær heimilt sé að skipta um veiðarfæri, hætta við línuna og hefja netjaveiðar. Ég held, að það verði affarasælast fyrir alla, að sjómennirnir finni það sjálfir út af hyggjuviti sínu og reynslu, en séu ekki háðir neinni löggjöf þar um.

Ég vil enn síður eiga nokkurn þátt að slíkri löggjöf, þegar ég sé, að tímatakmark það, sem um getur í grg., er byggt á grundvallarmisskilningi. Það er ekki framan af netjavertíð og e.t.v. ekki allt fram í aprílmánuð, sem hætta er á ofnotkun veiðarfæra, og þar af leiðandi ekki hætta á skemmdum fiski af þeim ástæðum. Kemur þetta til af því, að þá eru veður oft miklu harðari en þegar út á liður, og það þarf enginn að ætla, að menn geri sér leik að því að hætta veiðarfærum sínum, meðan aflavon er þá einnig minni. Þetta er sú reynsla, sem fyrir hendi er, og á henni er eðlilegast að byggja. Það er fyrst, þegar netjavertíð er komin í algleymi og dagur farinn að lengjast verulega, að menn freistast til þess að leggja meiri net í sjó en þeir fá við ráðið. Það er alveg eins með þetta atriði og með hugmyndina um takmörkun veiðarfæra, að það nær ekki því takmarki, sem að er stefnt, og er því ekki raunhæft,

Þá kem ég að því atriði, sem ég í upphafi gat um að mundi vera sú leið, sem líklegust væri til að koma í veg fyrir, að menn, við skulum segja af framsækni, kæmu með verri fisk að landi en efni standa til, en það er að flokka fiskinn eða meta, áður en hann er afhentur fiskiðjuverunum eða fiskkaupendum. Ég hef heyrt marga vantrúaða á, að þessu yrði komið við, svo að að gagni yrði. Ég er þar á annarri skoðun, og byggi ég á þeirri reynslu, sem þegar er fengin í þeirri útgerðarstöð, sem ég þekki bezt til. Áður en það ákvæði, sem enn er í gildi, var tekið inn í samning milli sjómanna og útgerðarmanna, að sama verð skyldi greiða fyrir netjafisk, hvort sem hann er einnar eða tveggja nátta gamall, þá var allur fiskur, sem fiskiðjuverin í Vestmannaeyjum keyptu, flokkaður og greiddur misjöfnu verði eftir gæðum. Þessi tilhögun komst á í frjálsu samkomulagi milli sjómanna og útgerðarmanna annars vegar og fiskkaupenda hins vegar og reyndist vel framkvæmanleg. Mér er alveg ljóst, að til þess að þetta beri þann árangur, sem til er ætlazt, verður verðmunur á góðum og óskemmdum fiski og aftur lakari fiski að vera allverulegur, þannig að sjómenn og útgerðarmenn sjálf sér beinlínis fjárhagslegan ávinning í því að koma með betri fisk að landi, þótt aflinn sé eitthvað minni. Ég tel þetta fljótvirkustu og færustu leiðina út úr þeim vanda, sem við blasir í þessum efnum. Ég óttast ekkert afstöðu sjómanna í þessu sambandi, mér er hún nokkuð kunn. Mikið aflamagn skapar þeim miklar vökur og mikið erfiði. Ef þeir geta fengið jafnan hlut út úr minna magni af betri fiski, liggur alveg í augum uppi, að það er einnig þeirra hagsmunamál, og fyrst hægt var að koma þessu fyrirkomulagi á í stærstu verstöð landsins á sínum tíma og framkvæma það með góðum árangri, hvers vegna skyldi þá ekki vera hægt að koma því við á öðrum útgerðarstöðum, þar sem minna aflamagn berst á land?

Ég skal skjóta því hér inn, að það, sem reyndist raunhæfast í sambandi við flokkun fisks, áður en hann var lagður inn til fiskiðjuveranna, var það, að sjómönnunum var það vitanlegt og ljóst, að þegar þeir komu að landi, Þá var fiskurinn skoðaður og hann var metinn, ef með þurfti. Þetta varð til þess, að þeir vöndust bókstaflega af því að skemma fiskinn með of mikilli veiðarfæranotkun eða of slæmri meðferð, þannig að ég er sannfærður um, að þetta aðhald verður til þess, að þessi leið er mjög vel framkvæmanleg og framkvæmanlegri en menn almennt gera sér í hugarlund.

Í grg. þeirrar þáltill., sem hér er verið að ræða, er lítillega minnzt á eitt mál, sem Vestmanneyingar telja stórmál í sambandi við fiskveiðarnar, en það eru netjaveiðarnar á hrygningarsvæðunum um hrygningartímann. Mál þetta hefur á undanförnum árum mikið verið rætt þar. Með áskorun, sem bæjarstjórn Vestmannaeyja sendi haustið 1957 þáv. sjútvmrh. um útfærslu grunnlínunnar frá Geirfuglaskeri við Eyjar í Geirfugladrang við Reykjanes, var lagt til, að ákveðin svæði, sem vitað er að eru stærstu hrygningarstöðvar þorsksins á þessum slóðum, yrðu alfriðuð fyrir öllum veiðarfærum ákveðinn tíma árs. Var í þessu sambandi farið eftir tillögum skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðanda í Vestmannaeyjum. Ég bendi á þetta til þess að sýna fram á, hversu alvarlegum augum er litið á þetta mál við þessa útgerðarstöð, þar sem sjómennirnir sjálfir leggja til, að slík leið skuli farin, og kæmi það þó í bili harðast niður á þeim. Ég tel sjálfsagt, að strax og tímabært þykir að taka upp umr. um útfærslu grunnlínunnar hér við land, verði þetta atriði tekið til athugunar.

Hæstv. sjútvmrh. las hér upp grg. um mat á netjafiski, eins og það liggur fyrir samkvæmt opinberum skýrslum. Ég vil í því sambandi benda á, að þó að þetta sé tekið upp úr opinberum skýrslum, þá sýnir það engan veginn rétta mynd af því, hvernig netjafiskur raunverulega kemur út og hver vara hann raunverulega er á sölumarkaði. Úr þeim netjafiski, sem lagður er inn í fiskiðjuverunum, er almennast að valinn sé langsamlega bezti fiskurinn í frystingu, verri fiskurinn aftur tekinn í salt, og það er einmitt á því, sem hinar opinberu tölur eru byggðar. Ég hef alveg raunhæft dæmi um það, hvernig netjafiskur flokkast og hvernig vara hann er, þ.e. úr Vestmannaeyjum og eftir þessa vertíð. Þar er nú verið að ljúka við að ganga frá til útflutnings þeim fiski, sem þar lá fyrir. Þetta er samsöfnun af fjórum bátum, sem stunda netjaveiðar. Það kemur þannig út eftir vertíðina og eru að heita má alveg sömu hlutföll og voru árin 1959 og 1958, — þetta er fiskur, sem eingöngu er saltaður, ekkert valið úr, það kemur þannig út, að í 1. flokki lenda 52%, í öðrum flokki 27%, í þriðja flokki 14% og í fjórða flokki 7%. Þetta er raunhæft dæmi um það, hvernig vara netjafiskurinn er, eins og hann er lagður á land og verkaður þarna í þessari verstöð.

Ég vildi láta þetta, sem ég hef hér sagt, koma fram til athugunar fyrir þá hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar.