02.12.1959
Sameinað þing: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í D-deild Alþingistíðinda. (3071)

11. mál, lántaka í Bandaríkjunum

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Fyrsta fsp. á þskj. 11 er á þessa leið: „Hvað hefur verið tekið mikið af fyrirhuguðu 6 milljón dollara láni í Bandaríkjunum.“

Því er til að svara, að teknar hafa verið 3 milljónir dollara.

Önnur spurningin: „Hvernig hefur því lánsfé verið varið, sem búið er að taka á móti?“

Enn sem komið er, hefur af þessum 3 millj. dollara einungis greiðzt inn af láninu jafnvirði 377 þús. dollara. Af því hafa 6–7 millj. kr. verið greiddar upp í lán til nokkurra þeirra hafna, sem úthlutun fengu af láni þessu s.l. sumar. Þá hefur seðlabankinn samþ. að verða við beiðni ríkisstj. um fyrirgreiðslu til að mæta þörfum ræktunarsjóðs. Bankinn mun lána í þessu skyni 12½ millj. kr., sem mun svo endurgreiðast af því fé, sem fyrst kemur inn af dollaraláninu. 6½ millj. af þessu fé var greidd 1. des., en 6 millj. mun seðlabankinn inna af hendi eigi síðar en 10. des.

Þá eru hinar fsp. á sama þskj.

Sú fyrsta er: „Hve mikil vörukaupalán (PL 480) hafa verið tekin samtals í Bandaríkjunum?“ Fyrsti vörukaupasamningurinn milli ríkisstjórna Íslands og Bandaríkjanna er frá 1957, og hann er að upphæð 2 millj. 785 þús. dollarar. Sams konar samningur frá 1958 nam alls 3068300 dollurum. Samningur þessa árs nemur alls 2 millj. 575 þús., og er þá meðtalin upphæð viðbótarsamnings um ávaxtakaup, sem nýlega var gerður og nemur alls 375 þús. dollurum. Samtals eru þessir vörukaupasamningar á árunum 1957–1959 því að upphæð 8425300 dollarar. Af þeirri fjárhæð hafa verið notaðir um 6790751.97 dollarar. Af þessari síðasttöldu upphæð er hlutur Íslands 4441227.67 dollarar, og sú upphæð getur gengið til útlána innanlands.

Næsta spurning er á þessa leið: „Til hvaða framkvæmda hefur sá hluti lánsfjárins runnið, sem gengur til útlána hér innanlands?“

Meginhlutinn af innkomnum greiðslum samkvæmt vörukaupasamningum þeim, sem hér um ræðir, hefur verið lánaður sem hér segir:

1) Til greiðslu á innlendum kostnaði við virkjun Efra-Sogs.

2) Til greiðslu á innlendum kostnaði við lagningu á háspennulínu frá Elliðaám til Keflavíkurflugvallar á vegum rafmagnsveitna ríkisins.

3) Smáfjárhæðir til verksmiðja í einkaeign. Þriðja spurningin: „Hvað er áætlað að þessi vörukaupalán muni nema miklu til ársloka og á næsta ári?“

Eins og áður er greint frá, nemur vörukaupasamningur þessa árs endanlega með nýfenginni viðbót 2575000 dollurum. Fyrir næsta ár hefur enginn samningur verið gerður enn þá, og verður því á þessu stigi ekkert sagt um horfur í þessu efni á því ári.