03.02.1960
Sameinað þing: 11. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í D-deild Alþingistíðinda. (3085)

901. mál, efnahagsmálaráðuneyti og iðnaðarmálaráðuneyti

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það mun koma í minn hlut að svara síðari hluta þessarar fsp., sem hljóðar svo: „Hefur verið sett á stofn sérstakt iðnaðarmálaráðuneyti og ef svo er, eftir hvaða heimild?“

Með bréfi, dags. 27. júní 1947, ákvað þáv. atvmrh., Emil Jónsson, að um nokkra málaflokka, sem fram að þeim tíma höfðu heyrt undir atvinnu- og samgöngumálaráðuneytið, skyldi framvegis fjallað af sérstöku rn., sem þá var kallað samgöngumálaráðuneyti. Þau mál, sem lögð voru undir hina nýju ráðuneytisskrifstofu, voru aðallega samgöngumál á landi, sjó og í lofti og iðnaðarmál. Á sama tíma var ráðinn skrifstofustjóri í samgmrn. og 30. júní 1947 skipaður fulltrúi, hvort tveggja frá 1. júlí sama ár að telja. Allt frá þessum tíma þar til á miðju ári 1958 er starfslið samgmrn. það, sem hér var talið, auk vélritunarstúlku, sem vann jöfnum höndum fyrir atvmrn., þar eð þessi rn. hafa sameiginlega afgreiðslu.

Sumarið 1957 ákvað þáverandi iðnmrh., Gylfi Þ. Gíslason, að þau bréf, reglugerðir og auglýsingar, sem frá rn. færu og fjölluðu um iðnaðarmál, skyldu rituð í nafni iðnaðarmálaráðuneytisins. Hefur sá háttur verið á hafður síðan. Eru ýmis dæmi um slíka tilhögun hjá öðrum ráðuneytum, er hafa með höndum afgreiðslu málaflokka.

Eins og fyrr er sagt, varð ekki breyting á starfsliði þess rn., sem fjallaði um samgöngu- og iðnaðarmál, þar til á miðju ári 1958, þegar þangað var ráðinn nýr fulltrúi, og var það þá talið nauðsynlegt, vegna þess að afgreiðslum hafði fjölgað mjög með árunum. Þar er svo til ætlazt, að hinn nýi fulltrúi starfi fyrst og fremst við iðnaðarmál í rn. Var ráðningarbréf og síðar skipunarbréf hans, dags. 10. des. 1958, gefið út í nafni iðnmrn. 27. ágúst 1958 var fulltrúi sá, er skipaður var í samgmrn. frá 1. júli 1947 og áður getur, skipaður deildarstjóri í samgöngu- og iðnaðarmálaráðuneytinu. Þess má einnig geta, að nafnið samgöngu- og iðnaðarmálaráðuneyti er notað um rn. það, sem hér um ræðir, í fjárlögum 1959.

Samkvæmt framansögðu er ljóst, að sú skipulagsbreyting, sem gerð hefur verið, og sú verkaskipting, sem upp hefur verið tekin innan samgmrn., ásamt því, að nafn iðnmrn. kemur nú orðið fram út á við, þegar fjallað er um iðnaðarmál sérstaklega, hefur komizt á vegna aukinna verkefna, en sérstakt rn. ekki verið sett á stofn í venjulegri merkingu.

Þetta er grg., sem mér hefur verið látin í té af ráðuneytisstjóra þessa rn., og læt ég mér nægja að lesa hana upp, þar sem um þetta mál hefur að öllu leyti verið ákveðið af fyrrverandi stjórnum og ég ekki tekið neinar ákvarðanir um það efni.