03.02.1960
Sameinað þing: 11. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í D-deild Alþingistíðinda. (3094)

901. mál, efnahagsmálaráðuneyti og iðnaðarmálaráðuneyti

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Af því að annar liður þessarar fsp. fjallar um iðnmrn. og ég ber ábyrgð á þeirri skipan, sem nú er á afgreiðslu mála í því rn., finnst mér rétt að láta koma fram nokkrar skýringar á því, hvers vegna ég taldi rétt á sínum tíma að taka upp þá skipan, sem enn helzt.

Skömmu eftir að mér hafði verið falin forsjá iðnaðarmála í ráðuneyti Hermanns Jónassonar 1956, fékk ég til afgreiðslu mál fyrstu daga þeirrar stjórnar varðandi iðnfræðslumál, og mér var ætlað að afgreiða það mál bréflega í nafni samgmrn. Þetta var auðvitað fjarstæða. Rétt á eftir var um það að ræða að gefa út einkaleyfi í iðnaði. einkaleyfi í iðjurekstri. Það einkaleyfi átti ég að gefa út í nafni samgmrn. Og það leið ekki heldur langur tími, þangað til á borð mitt bárust mál, sem snertu réttindamál iðnaðarmanna, Þau átti líka að afgreiða í nafni samgmrn. Það er ekki aðeins, að slíkt afgreiðsluform er beinlínis hlægilegt, heldur er stærstu atvinnustétt landsmanna með þessu móti sýnd bein lítilsvirðing, að öll mál iðju og iðnaðar í landinu, sem er nú orðin stærsta atvinnugrein Íslendinga, skuli úr sjálfu stjórnarráðinu vera afgreidd í nafni samgmrn, Sök sér hefði verið, ef skipulag málanna hefði verið þannig, að málin hefðu verið afgreidd í nafni atvmrn., svo sem upphaflega mun hafa verið. En fyrir um það bil tíu árum hafði verið sú breyting gerð á atvmrn., að út úr því höfðu verið klofin samgöngumál og iðnaðarmál og falin til meðferðar sérstöku rn., sem hlaut þá nafnið samgmrn., en hefði átt að kalla samgöngu- og iðnaðarmálaráðuneyti svo sem nú er gert. Sú breyt. hafði raunar líka gerzt með einföldu ráðherrabréfi, en ekki með lagasetningu, svo sem þegar er búið að víkja að.

Ég aflaði mér því upplýsinga um, hvernig skipulag þessara mála væri í öðrum rn., og fékk þá auðvitað strax þau svör hjá mönnum, sem það vissu, að það væri mjög algengt skipulag í hinum stóru rn. að afgreiða einstök mál undir nafni, sem svaraði til þess málaflokks, sem málin heyrðu til, eins og raunar hæstv. dómsmrh. gat um í sinni ræðu áðan. Það er til í lögum aðeins ákvæði um atvinnumálaráðuneyti, en það er áratuga venja og skynsamleg venja að afgreiða mál atvmrn. ýmist undir nafni sjútvmrn. eða landbrn. Sú venja skapaðist með mjög venjulegum hætti á þann hátt, að það varð mjög algengt, að sitt hvor ráðh. færi með sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál. Og til þess að báðir ráðh. afgreiddu ekki mál í nafni atvmrn., skapaðist sú venja fyrir áratugum að afgreiða mál atvmrn. ýmist í nafni sjútvmrn. eða landbrn. Sama venja er einnig í dóms- og kirkjumrn., að afgreiða mál þar ýmist í nafni dómsmrn., kirkjumrn. eða heilbrmrn., og fleiri dæmi um þetta mætti nefna. Þessi regla er skynsamleg, og hana þótti mér sjálfsagt að taka upp varðandi afgreiðslu þess rn., sem fram til ársins 1957 hafði verið kallað samgmrn., að afgreiða öll iðnaðarmál þaðan í nafni iðnaðarmálaráðuneytis. Því fór því fjarri, að það væri fordæmalaust, og auk þess, að því er ég tel, mjög skynsamleg og heppileg ráðstöfun og iðnaðinum í landinu með því sýndur lágmarkssómi. Þessu fylgdi enginn kostnaður á sínum tíma, því að í sambandi við þetta var engin breyt. gerð á starfsliði rn. Það var ekki fyrr en síðar, að í ljós kom, að afgreiðslur, sem snertu iðnað, urðu æ umfangsmeiri, auk þess sem beinlínis ný verkefni voru tekin upp í rn., sem við, sem um málin fjölluðum, töldum rétt að sinna meira en áður hafði verið gert. Í sambandi við það var ráðinn sérstakur fulltrúi. Til þess þurfti ekki lagaheimild, heldur eingöngu fjárlagaheimild, og hennar var aflað. Um það efni fór allt að eðlilegum lögum.

Ég vil því ekki viðurkenna, að að því er snertir iðnmrn. hafi neitt það gerzt, sem sé í ósamræmi við lög og ekki heldur í ósamræmi við nokkra skynsamlega venju, heldur þvert á móti að sú skipun, sem þarna var talin upp, hafi verið eðlileg og sjálfsögð gagnvart iðnaðinum í landinu.

Að því er hitt atriðið snertir, sem síðasti ræðumaður, hv. 1. þm. Austf., vék að, að ekki hafi verið farið að lögum varðandi stofnun embættis ráðuneytisstjóra í efnahagsmrn. að því leyti, að það hafi ekki verið auglýst, vil ég segja þetta:

Ríkisstj. Hermanns Jónassonar réð til sín mann, sem skyldi vera efnahagsmálaráðunautur hennar. Með því stofnaði hún í raun og veru nýtt embætti. Það má segja, að það hafi ekki verið farið að lögum að auglýsa það embætti ekki, strangt tekið. Þar hafði hv. fyrirspyrjandi rétt fyrir sér. En lagaákvæði geta verið þannig, að ekki sé hægt að framfylgja þeim út í æsar, og er þetta starf einmitt gott dæmi um það. Það hefði verið beinlínis hlægilegt, ef ríkisstj. Hermanns Jónassonar hefði auglýst eftir efnahagsmálaráðunaut. Hvað segja menn um það? Á því hefði verið þokkalegur svipur eða hitt þó heldur, og það datt engum í hug í þeirri ríkisstj., að það kæmi til mála, að stjórnin ætti að fara að auglýsa eftir efnahagsmálaráðunaut. En starfið var engu að síður stofnað, manninum greidd sín laun, hann fékk sína skrifstofuaðstöðu og alla nauðsynlega aðstoð, sem hann þurfti á að halda til þess að sinna sínu starfi. Það, sem fyrrv. ríkisstj., ríkisstj. Emils Jónssonar, taldi sér rétt að gera vegna þeirrar góðu reynslu, sem af starfi ráðunautsins fékkst, var að koma fastari skipun á starf hans. Það þótti eðlilegast að gera með þeim hætti að breyta starfi hans og skrifstofu hans í ráðuneytisstjórastarf og ráðuneyti.

Vegna þess að starfið var þegar til, var mikið álitamál, hvort eðlilegt eða rétt væri að auglýsa það, og það varð niðurstaða okkar, sem um það mál fjölluðum í fyrrv. ríkisstj. Hæstv. forsrh. og meðráðh. mínir nú úr Sjálfstfl. bera á þeirri ákvörðun enga ábyrgð. Það var ákvörðun okkar fjórmenninganna í fyrrv. ríkisstj. Eftir að hafa rætt það mál við ýmsa sérfróða menn varð niðurstaða okkar, að ekki væri ástæða til þess að auglýsa þetta embætti, af því að hér væri um að ræða breyt. á einu starfi í annað. Hafi eitthvað verið rangt gert, að því er varðar starf Jónasar Haralz, þá hefur það fyrst og fremst verið gert, þegar hann var ráðinn sem efnahagsmálaráðunautur. Þetta varð niðurstaða okkar þá, og töldum við því ekki rétt að auglýsa starfið, þegar efnahagsmrn. var stofnað.

Því má einnig bæta við, að í vissum tilfellum getur verið varasamt að auglýsa störf, jafnvel þótt ekki svona standi á. Ákvæðið um skylduna til þess að auglýsa opinber störf er auðvitað sett því til tryggingar, að allir, sem telja sig geta komið til greina við veitingu starfans, fái tækifæri til þess að sækja, þannig að ekki sé líklegt eða minnkaðar líkur á því, að gengið sé fram hjá hæfum mönnum til starfsins. Það liggur í augum uppi að auglýsing á starfi ráðuneytisstjóra í efnahagsmrn., sem ætlað er að verða ríkisstj. til ráðuneytis í efnahagsmálum, væri form eitt og þjónaði raunverulega engum tilgangi, því að það er alveg augljóst mál, að slíkt ráðuneyti mundi ekki verða stofnað og því ekki falið slíkt verkefni, ef ekki væri fyrir fram ráðið, hver skyldi hljóta stöðuna. Auglýsing væri því í raun og veru blekking. Þeir menn, sem sæktu eftir slíkri auglýsingu, væru tældir til þess að sækja, vegna þess að allir hljóta að vita, að úrslit yrðu fyrir fram ráðin. Slík auglýsing þjónar ekki þeim tilgangi, sem fyrir löggjafanum hlýtur að hafa vakað, þegar hann setti ákvæðin í margnefnd lög frá 1954, um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.