03.02.1960
Sameinað þing: 11. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í D-deild Alþingistíðinda. (3095)

901. mál, efnahagsmálaráðuneyti og iðnaðarmálaráðuneyti

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég get vel tekið undir það með hv. 1. þm. Austf., að þessar umræður hafa fengið á sig nokkurn annan blæ en vænta hefði mátt. En það er vegna þess, að hv. fyrirspyrjandi, sá ágæti maður, hagaði orðum sínum svo, bæði í frumræðu sinni og þó ekki síður í seinni ræðu, að það var auðsjáanlega um að ræða pólitíska herferð á hendur núv. stjórn, sem ber enga ábyrgð á því, sem gerzt hefur í þessum efnum, en ekki eingöngu áhugi hans á því að fylgja fram lögum og rétti. Skal ég þó sízt efa, að hann hafi einnig haft það í huga. Það kom líka glögglega fram, hver bar umhyggju fyrir fyrirspyrjandanum og fann nærri sér höggvið, þegar út á hans orð var sett, það var sjálfur hv. höfuðpaurinn, 1. þm. Austf. Varðandi það svo aftur, hvort hér sé um ólöglega aðferð að ræða eða ekki varðandi skipun — þessara starfa, þá sagði ég í ræðu minni áðan, að ég skyldi ekki taka afstöðu til þess. Ég geri ráð fyrir, að þó að það sé ekki fullnægjandi heimild út af fyrir sig, þá sé stuðzt við orð 15. gr. stjórnarskrárinnar, sem nú gildir, og tilsvarandi fyrirmæli áður, þar sem segir: „Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim.“

Vegna þess að stjórnardeildirnar eru svo nátengdar starfi ráðherranna, geri ég ráð fyrir, að talið hafi verið, að í þessu mætti finna nokkra stoð fyrir þeirri aðferð, sem við hefur verið höfð og að því er ég bezt veit var fyrst beitt, þegar hv. 1. þm. Austf. var skipaður viðskmrh. 1939, og þá hafi þótt óheppilegt og að vissu leyti gegn eðli málsins að láta hann hafa sameiginlegt ráðuneyti með þeim, sem þá varð fjmrh.

Ég geri ráð fyrir því, að þannig sé þetta upphaflega til komið. Ég játa, að þetta er ekki fullnægjandi heimild. En ég vil hins vegar segja, að aðfinningarlaus framkvæmd ríkisstj. um 20 ára bil á þessu fyrsta fordæmi og mörg fordæmi flestra eða allra ríkisstj., sem síðan hafa setið, veita ríka ástæðu til þess að telja, að á meðan ekki eru sett ný lagaákvæði, sé núverandi framkvæmd ekki talin stríða í bága við lög. Ég segi hiklaust, að eftir venjulegri túlkun á stjórnarathöfnum mundi svo margítrekað fordæmi sem hér er fyrir hendi, margendurtekin samþykkt Alþingis á því, sem gert hefur verið, án nokkurra aðfinninga eða brigzla um beina lögleysu þangað til nú í dag hér í sölum Alþingis, — ég mundi telja, að á meðan önnur löggjöf er ekki sett, yrði þetta talin næg heimild fyrir því að halda svo áfram. Þess vegna er það skoðun mín, að það sé ekki hægt að saka fyrrverandi ríkisstj. fyrir það, þó að hún hafi stofnað efnahagsmrn., allra sízt þegar það er upplýst, að þar er einungis um að ræða nafnbreytingu á stöðu manns, sem aðfinningarlaust var búið að ráða af fyrrverandi hæstv. ríkisstj., vinstri stjórninni svokallaðri. Og ég vil vekja athygli á því, að þó að ég á sínum tíma fyrir tveimur árum benti á hættuna af upplausn stjórnarráðsins á þann veg, sem þá var vel á veg komin, þá hélt ég því ekki fram, að þar væri um bein lagabrot að ræða, heldur hagaði orðum mínum miklu varlegar en svo. Þess vegna hygg ég, að þau brigzlyrði, sem hafa átt sér stað og komu fram í ræðu hv. fyrirspyrjanda, fái ekki staðizt, — að róleg íhugun leiði til þess, að þó að hér sé um mjög óæskilega aðferð að ræða, þá verði hér ekki talið, að bein réttarbrot hafi verið framin í þessum efnum, vegna þess, hvernig framkvæmd hefur verið háttað, og vegna þeirrar margföldu samþykktar Alþingis, sem fyrir liggur.

Varðandi svo þá leiðbeiningu hv. 1. þm. Austf., að aðrir skyldu varlega ætla sér að feta í fótspor Framsóknar og sízt taka hennar gerðir sér til fyrirmyndar, þá er ég því innilega sammála, og veit ég, að sú aðvörun kemur frá þeim, sem bezt þekkir, að þar er mjög á villigötur komið.

En varðandi hitt, hvort ég muni nú vilja hafa samvinnu við Framsfl. um þá endurskoðun á löggjöf stjórnarráðsins, sem allir telja nú orðið mjög æskilega, þá vil ég spyrja hv. 1. þm. Austf.: óskar hann nú, meðan hann er í stjórnarandstöðu, eftir að hafa samvinnu við ríkjandi ríkisstj. um þá endurskoðun, eða telur hann það jafnóeðlilegt nú og hann taldi áður, að stjórnarandstaðan yrði þarna höfð með í ráðum, — eða telur hann sjálfsagt að hafa stjórnarandstöðuna með í ráðum, meðan hann sjálfur er í stjórnarandstöðu, en vill ekki við hana tala, meðan hann er sjálfur í ríkisstj.? Það væri ekki ófróðlegt að fá svör við þessum spurningum.

Mín skoðun er ljós, að ég tel sjálfsagt að hafa samvinnu við stjórnarandstöðuna um þetta mál, en það, með hverjum hætti það verður gert, þarf vitanlega nánari athugunar við. Meðal annars hljóta að liggja fyrir hjá þeim mönnum, sem hv. 1. þm. Austf. skipaði á sínum tíma, hans hugmyndir um það, hvernig eigi að koma þessari endurskoðun fyrir, vegna þess að væntanlega hefur hann ekki stofnað til þess einungis til þess að sýnast, heldur hefur hann haft einhverjar hugmyndir til þess að ráða fram úr málinu. En hitt vil ég ítreka, sem ég sagði, þegar ég hreyfði þessu máli fyrst fyrir hér um bil tveimur árum, og kom fram í fyrri ræðu minni, þegar ég las upp þau ummæli, að ég tel hér um svo mikilvægt mál að ræða varðandi alla stjórnarframkvæmd, að það sé um fá eða réttara sagt engin mál meiri ástæða en þetta, að menn komi sér öfga- og ýfingalaust, án tillits til þess, hver er í stjórn hvern daginn, saman um skipulega starfshætti í stjórnarráði Íslands.