03.02.1960
Sameinað þing: 11. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í D-deild Alþingistíðinda. (3096)

901. mál, efnahagsmálaráðuneyti og iðnaðarmálaráðuneyti

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér mikið í þær umræður, sem hér hafa farið fram. En á því vildi ég þó vekja athygli, að mér virðist, að allir séu nokkurn veginn sammála um það, að þessi fsp. hafi ekki verið flutt að ófyrirsynju, þar sem t.d. tveir hæstv. ráðherrar, bæði hæstv. forsrh. og hæstv. dómsmrh., hafa látið þau ummæli falla, að þetta mál og þessar umræður sýndu, að það væri nauðsynlegt að endurskoða löggjöfina um stjórnarráð Íslands, og þar með, að það þyrfti önnur og betri vinnubrögð í þessum málum en þau, sem hér hafa átt sér stað og hafa verið gagnrýnd með þessari fsp.

Ég vil svo minnast örfáum orðum á það, sem hæstv. viðskmrh. sagði, þar sem hann var að rugla saman ráðunautsstarfi og stofnun nýs ráðuneytis. Það er náttúrlega allt annað, að ríkisstj. kalli sér ráðunaut til aðstoðar um viss málefni og þó að það starf sé ekki auglýst, ellegar þegar verið er að setja nýja, stóra ríkisstofnun á laggirnar án allrar lagaheimildar. Það er svo ólíkt, að þar kemur enginn samanburður til greina.

Það erindi, sem ég ætlaði mér annars hingað, var fyrst og fremst að láta þá skoðun mína í ljós, að ég tel stofnun hins svokallaða efnahagsmrn. með öllu óþarfa, Ég sé, að samkvæmt fjárlögunum er ætlazt til þess að setja hér upp nýja, dýra stofnun. Það er ekki aðeins gert ráð fyrir ráðuneytisstjóra, heldur líka deildarstjóra, fulltrúa og bókara, og búizt við, að árlegur kostnaður fyrsta heila árið verði um 400 þús. kr. Og samkvæmt þeirri reynslu, sem við höfum af slíkum stofnunum, verður ekki langt að bíða, þangað til þessi kostnaður verður búinn að losa eina milljón króna og ríflega það.

Ástæðan til þess, að ég tel stofnun sérstaks efnahagsmrn. vera algerlega óþarfa, er fyrst og fremst sú, að við höfum fyrir ríkisstofnun, sem á að annast hliðstætt verkefni og hefur að verulegu leyti annazt það verkefni, sem þessu ráðuneyti er ætlað. Þessi stofnun er Hagstofa Íslands. Hagstofa Íslands á að geta og verður að geta veitt allar þær upplýsingar, sem ætlazt er til að hið svokallaða efnahagsmrn. veiti. Það, sem hér átti þess vegna að gera, var að reyna að styrkja og efla þessa stofnun, sem fyrir var, en ekki að fara að ráðast í nýtt, dýrt og óþarft fyrirtæki.

Það er þetta sérstaklega í sambandi við þetta mál, sem mér finnst ástæða til þess að áfellast. Það er gamla sagan hjá okkur: Í staðinn fyrir að byggja á þeim grunni, sem áður hefur verið lagður, reyna að treysta hann og bæta og reyna að komast hjá auknum kostnaði á þann hátt, þá er rokið í það að setja á laggirnar nýjar stofnanir, nýjar nefndir, ný ráð og ný fyrirtæki.

Þessi þróun er hættuleg. Hana verður að varast. Hér verður að sporna við fótum. Þess vegna verður að vænta þess, þegar að því ráði verður horfið að reyna að draga eitthvað saman hjá ríkinu og afnema óþörf embætti, að þá verði þetta ráðuneyti eitt hið fyrsta, sem verði lagt niður. Það er engin þörf fyrir það, ef Hagstofa Íslands er efld svo, að hún geti vel skilað sínu starfi.

Þá vil ég segja í þessu sambandi það, að þó að hér hafi mikið lof verið borið á Jónas Haralz og hann sé kannske að ýmsu leyti maklegur þess, má þó alveg fullyrða, að þeim manni má ekki síður treysta, sem veitir Hagstofu Íslands forstöðu.