03.02.1960
Sameinað þing: 11. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í D-deild Alþingistíðinda. (3097)

901. mál, efnahagsmálaráðuneyti og iðnaðarmálaráðuneyti

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er fyrst það atriði hjá hv. 7. þm. Reykv., að annað gildi í grundvallaratriði um starf efnahagsmálaráðunauts en ráðuneytisstjóra, að því er varðar skyldu á auglýsingu starfsins. Þessu er ég ekki sammála. Ef það væri svo, eins og hann vék að, að starf efnahagsmálaráðunautsins hefði verið þannig hugsað, að hann hefði verið kallaður til ráðuneytis um ákveðið mál til bráðabirgða, má til sanns vegar færa það, sem hann sagði, að ekki hefði verið skylt að auglýsa starfið. En þessu var alls ekki þannig varið. Það var af stjórn Hermanns Jónassonar efnt til stofnunar fasts starfs eða embættis, sem kallað var efnahagsmálaráðunautur ríkisstjórnarinnar. Það var ekki gert samkv. lögum, heldur með ráðherrabréfi, svo sem fjölmörg fordæmi eru fyrir. Hitt hefði mátt segja, að formlegra hefði verið, svo að notuð séu orð hv. þm., Ólafs Jóhannessonar, að gera þetta líka með lögum. Það var ekki gert, og fyrir því eru ótal fordæmi. En af því að staðan var fast starf, hefði, ef strangasta bókstaf laganna frá 1954 hefði átt að fylgja, einnig átt að auglýsa það, en að því er ég búinn að víkja áður, að það var af augljósum ástæðum ekki framkvæmanlegt, enda datt það engum í hug. Engum datt heldur í hug, að með því að auglýsa ekki starf efnahagsmálaráðunauts laust til umsóknar væri verið að brjóta lög. Vegna þess að það var ekki gert, tel ég, og það töldu fleiri, að lög hefðu ekki heldur verið brotin, þegar þessu starfi var breytt í ráðuneytisstjórastarf.

Þetta var annars aukaatriði í því, sem hv. þm. sagði. Hitt var aðalatriðið, og því vil ég sérstaklega og mjög eindregið andmæla, sem hann sagði, að ekki sé þörf á því að koma á fót efnahagsmrn. Við allir í ríkisstj. Hermanns Jónassonar vorum á einu máli um það, að brýna nauðsyn bæri til þess að koma á fót starfi efnahagsmálaráðunauts. Um það var enginn ágreiningur í þeirri stjórn, ekki heldur við flokksbræður hv. 7. Þm. Reykv.

Ég átti nokkurn þátt í því, að það var einmitt Jónas Haralz, sem valinn var til starfans, og hann fenginn til þess að koma hingað til lands úr mjög góðu starfi erlendis, sem var miklu betur launað en það, sem hægt var að bjóða honum hér á Íslandi til þess að taka þetta nýja starf að sér, Ég hika ekki við að segja, að ég tel mín afskipti af því máli vera eitt hið bezta, sem mér kann að hafa tekizt að gera í ríkisstj. Hermanns Jónassonar, bæði af því, að nauðsyn á starfinu var jafnbrýn og hún var, og ekki síður vegna hins, að það tókst að fá einmitt þennan mann til starfsins, sem ég hika ekki við að segja að má telja í hópi færustu hagfræðinga á Norðurlöndum og þótt víðar væri leitað og hefur þegar á mjög skömmum starfstíma sínum hér skipað sér í fremstu röð íslenzkra embættismanna. Það er einmitt af þessum sökum, sem ég tel ummæli hv. 7. þm. Reykv. vera mjög ómakleg og að þeim þurfi að andmæla þegar í stað. Ég skal nú segja það, sem ég hikaði við að segja áðan, að einmitt vegna þess, hve hér er um nauðsynlegt starf að ræða, og einmitt vegna þess, hve hér er um frábæran embættismann að ræða, fannst mér, þegar ég sá fsp. hv. þm. Norðurl. v., Ólafs Jóhannessonar, að hún væri vægast sagt lítið smekkleg. Það hafa á undanförnum árum gefizt mörg tilefni til þess að ræða þau efnisatriði, sem hér er um að ræða: hvort auglýsa skuli embætti, hvort stofnað skuli ráðuneyti án sérstakrar lagaheimildar. En að nota einmitt þetta tilefni til þess að hefja slíkar umræður á Alþingi, það þótti mér, þegar ég sá fsp., og þykir enn hafa verið lítið smekklegt.

Það lýsti sér mikill misskilningur hjá hv. 7. þm. í ummælum hans um hagstofuna og hennar verkefni. Hagstofan hér á ekki og getur ekki haft með höndum nein ráðuneytisstörf. Engin hagstofa, sem ég þekki til í víðri veröld, hefur með höndum nokkur ráðuneytisstörf fyrir ríkisstjórnir í sínu landi. Verkefni hagstofunnar hér, eins og allra annarra hagstofa annars staðar, er að safna upplýsingum og gera það á sem allra hlutlausastan hátt og vinna úr gögnum að vissu marki. Á slíku starfi og ráðuneytisstarfi er mikill eðlismunur, og það er mjög óheppilegt, að sömu aðilar fjalli um slíkt, úrvinnslu þeirra gagna, sem byggja á tillögur og skoðanir á, og það, hvaða ályktanir á að draga af niðurstöðum gagnasöfnunarinnar og hvaða ákvarðanir á að taka á þeim grundvelli. Það væri fráleit tillaga að leggja efnahagsmrn. aftur niður og fela verkefni þess hagstofunni, enda eru engin dæmi til þess, a.m.k. í nokkru nálægu landi, að slík skipun sé á höfð. Að því væri heldur enginn sparnaður, því að það ráðunautsverkefni, sem efnahagsmrn. á að hafa, er svo óskylt verkefnum hagstofunnar, að hún mundi þurfa nákvæmlega sama starfslið til þess að gegna því eins og efnahagsmrn. er þörf á.

Ég vil því aðeins endurtaka, að mitt aðalerindi í ræðustólinn var að andmæla mjög eindregið þeirri skoðun hv. 7. þm. Reykv., að efnahagsmrn. sé óþarft. Ég tel það þvert á móti eina nauðsynlegustu og beztu endurbót, sem gerð hefur verið á stjórnarkerfinu á hinum síðari árum.