03.02.1960
Sameinað þing: 11. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í D-deild Alþingistíðinda. (3099)

901. mál, efnahagsmálaráðuneyti og iðnaðarmálaráðuneyti

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. — Hv. 7. þm. Reykv. sagði, að hann teldi með öllu óþarft að stofna embætti ráðuneytisstjóra í efnahagsmrn., því að hagstofan ætti eðli málsins samkv. að annast hans störf. Hæstv. viðskmrh. hefur svarað fyrir sitt leyti. Ég þarf ekki miklu við það að bæta. En hafi það verið rangt að stofna þetta rn., hvernig stóð þá á því, að vinstri stjórnin undir forsæti formanns Framsfl. kvaddi þennan mann heim frá — eins og hæstv. viðskmrh, sagði — mjög vel launaðri og virðulegri stöðu í alþjóðastofnun til þess að vinna sinni ættjörð gagn einmitt með því að starfa sem efnahagsmálaráðunautur stjórnarinnar? Ekki þarf hv. þm. að ætla, að hæstv. þáv. forsrh. hafi ekki eins vel þekkt störf hagstofunnar eða mikla hæfileika hagstofustjórans eins og hann sjálfur. Hitt skilur á milli þeirra, að hæstv. þáv. forsrh. kunni skil á því, að störfin, sem efnahagsmrn, átti að vinna, voru þess eðlis, að þau urðu ekki með eðlilegum hætti unnin á hagstofunni með því sérstaka hlutverki, sem hún á að gegna. Það er þess vegna fullkomin árás á vinstri stjórnina og forsrh. hennar, ef því er lýst hér yfir af hans ágæta stuðningsmanni, áhrifamanni í hans flokki, að þetta hafi verið óþarft embætti. Hitt er svo annað mál, hvort menn vilja vera að deila um það, að óþarfi hafi verið að breyta titli mannsins, sem er að vinna þetta mikilvæga starf, í ráðuneytisstjóra í staðinn fyrir efnahagsmálaráðunaut. Ég vissi um þetta og var því samþykkur. Ástæðan fyrir því, að ég hef verið því mjög meðmæltur og hefði gert það sjálfur, ef ég hefði átt að ráða málum, er sú, að ég hefði viljað mikið til vinna og allt annað og miklu meira en þetta — því að þetta er ekki neitt — til að reyna að tengja þennan mann að málefnum Íslands. Ég vil gjarnan láta þetta koma fram.

Ég vil líka, að það komi fram hér, að ég vissi vel um, að vinstri stjórnin gerði þessum manni tilboð um að koma hingað heim til Íslands. Ég vissi vel um, að hann var og er stjórnmálaandstæðingur minn. En ég kunni það mikil skil á manninum, að ég var eindregið hvetjandi, að hann réðist í þjónustu ættjarðarinnar, og ég kann það vel skil á honum núna og enn þá betur, að ég tel það mjög mikilsvert fyrir okkur alla, að hann starfi á þessu afar þýðingarmikla sviði. Ég veit vel, að þessi maður gengur með tilboð í vasanum um að koma aftur að mjög virðulegum og afar vel launuðum störfum, þannig að hann gæti líklega kostað og haft á ómagaframfæri hv. 7. þm. Reykv. og mig í kaupbæti fyrir sín laun. Hann hefur ekki látið af þessu freistast. Ég tel, að okkur beri að reyna að hnýta hann að okkur, ef við allir metum hans hæfni eins og við gerum í núv. stjórn og eins og vinstri stjórnin auðsjáanlega gerði og alveg að makleikum.

Ég vildi aðeins, að þetta kæmi fram. Ég tel mjög vel fara á því, að slíkir menn fái á Alþingi viðurkenningu fyrir, hversu þýðingarmikil þeirra störf séu annars vegar, en hins vegar hversu einstaklega hæfir einmitt þeir séu til að inna þau af hendi.

Ég býst líka við, að allir þeir, sem hafa unnið með þeim manni, sem hér á hlut að máli, og allir, sem kunna glögg skil á starfshæfni hans, sem er algerlega óvenjuleg, og þekkingu hans, dugnaði og gáfum, vilji unna honum þess sannmælis, að hann sé nokkuð óvenjulegur maður. Skal ég ekki kveða sterkara að. Og mér er ánægja að segja þetta, einmitt sérstaklega af því að ég veit, að ég get ekki glatt mig af því, að hann líti sömu augum á stjórnmálin almennt talað og ég. Og það er náttúrlega gott, að menn fái viðurkenningu frá fleiri en þeim, sem eru stjórnmálalega sammála. Það er svona eins og ég fæ frá hv. 7. þm, Reykv., þegar hann talar undir fjögur augu, en aldrei öðruvísi, þó að ég eigi það nú ekki skilið í samanburði við þennan mann.

Ég skal svo ekki vera að ræða um, af hverju þetta embætti hafi ekki verið auglýst, en ég tek undir það, sem hæstv. viðskmrh. sagði, að það hefði verið nærri hlægilegt að gera það, Það er bezt að segja það eins og er, að beinasta ástæðan til þess, að embættið er stofnað, er, að þessi maður taki við því, í þeirri von, að það tengi hann fastar að því að starfa fyrir ættjörðina.

Ég hef ekki mikið að segja út af þeim fáu orðum, sem hv. 1. þm. Austf, sagði. Ég kannast ekki við það, að þetta sé í fyrsta skipti, sem hv. þm. Ólafur Jóhannesson situr hér á Alþingi. Mér finnst ég hafa séð hann hér áður og hygg, að það sé rétt, og mér finnst ég hafa séð hann nærri of oft, því að það hefur þá verið í forföllum hins ágæta vinar míns, fyrrv. forsrh., Steingríms Steinþórssonar, sem ég hef séð hann, — ekki af því, að ég hafi neitt á móti þessum hv. þm., heldur af því, að ég sakna hins. En hvað sem því liður, þessi hv. þm. hefur fyrr haft tækifæri til að ráðast á þessa skipan.

Ég get ekki meðgengið það, að hv. 1. þm. Austf. hafi verið neitað um allar upplýsingar um efnahagsmálin. Við vorum að ræða saman fyrir nokkrum dögum um málsmeðferð, og ég spurði hann, hvort hann gæti hugsað sér, ef hann fengi allar upplýsingar tafarlítið, að semja þá um málsmeðferðina á frv. um efnahagsmálin, af því að ég taldi það nokkru skipta, að það tæki ekki allt of langan tíma að afgreiða það. Auk þess veit hann vel, að hann var að ræða við einn af aðalráðunautum ríkisstj, nýverið til þess að fá frá honum ýmsar upplýsingar, og sá maður er svo samvizkusamur, að hann fer ekki á bak við ríkisstj., þegar hann ræðir við þennan leiðtoga Framsfl. Ég efast ekkert um, að hann hefur fengið þar ýmsar upplýsingar, og sjálfur var ég ekkert á móti, að hann fengi þær.

En ég skal svo ekki ræða þetta að öðru leyti en því að segja, að ég hrökk í kút áðan, þegar hann bar á sjálfstæðismenn, að við teldum réttmætt að gera það, sem framsóknarmenn hafa gert. Ég sagði: Þetta er hroðalegur áburður, — og var satt að segja að vona, að hinn virðulegi hæstv. forseti reyndi, þegar svona er borið á mann, að vita það framferði. Ég er ekki að segja, að ég sé ekki syndaselur eins og aðrir, en mér þykir það verstu skammaryrði, sem um mig hafa verið sögð í mörg ár, ef því er haldið fram í alvöru, að ég teldi mér leyfilegt að gera allt, sem þessir menn hafa gert.

Ég hef miklar mætur á þessum hv. þm. að mörgu leyti. Við höfum unnið mikið saman, og mér hefur þótt ánægja að því. En það er einmitt af því, hve margt Framsfl. hefur gert, sem ég vildi ekki sjálfur hafa gert né lenda í að gera, að við erum ekki þeir sömu ástvinir í dag og við stundum höfum verið og áreiðanlega kannske eigum eftir að vera, ef hann iðrast syndanna. En svona áburði má þá ekki halda uppi að bera á mig, ef sú vinátta á að takast upp.