03.02.1960
Sameinað þing: 11. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í D-deild Alþingistíðinda. (3101)

901. mál, efnahagsmálaráðuneyti og iðnaðarmálaráðuneyti

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vona, að mér verði ekki tekið það illa upp, þó að ég beri hér fram fyrirspurn, því að það ber mjög á milli mála um staðreyndir.

Var Jónas Haralz einungis ráðinn sem einkaráðunautur vinstri stjórnarinnar svokölluðu, eða var hann ráðinn í þjónustu íslenzka ríkisins? Ef hann var ráðinn sem einkaráðunautur vinstri stjórnarinnar, borguðu þá ráðherrar vinstri stjórnarinnar honum launin úr sínum eigin vasa, eða var manninum borgað úr ríkissjóði? Var þannig samið við Jónas Haralz, að hann kæmi hér til frambúðar og starfaði fyrir íslenzka ríkið, eða var hann einungís ráðinn í þágu þessarar stjórnar, þannig að hans starfssamningur félli niður af sjálfu sér, um leið og hún léti af völdum? Þetta eru nauðsynlegar upplýsingar, sem þurfa að fást, til þess að menn viti, hvað hér er um að ræða.

Það er vitað mál, að um leið og slíkur ráðunautur er kallaður til, þá þarf hann að hafa húsrúm, hann þarf að hafa nauðsynlega skrifstofuhjálp og annað slíkt. Og það er ekki annað, eins og hér hefur komið fram, en nafnbreyting á starfi, hvort hann er kallaður ráðuneytisstjóri eða efnahagsmálaráðunautur. Og ég spyr: Hefur orðið nokkur breyting á launakjörum mannsins við það, sem hér hefur átt sér stað?

Hv. 7. þm. Reykv. sagði, að það sé ekki víða, sem íhaldsmenn og jafnaðarmenn hafi sama ráðunautinn. Það má auðvitað segja eins, að þessi maður var ekki einungis ráðunautur jafnaðarmanna, hann var ráðunautur allra flokkanna, sem voru í hinni svokölluðu vinstri stjórn. Mér skilst, að ef einhver munur er á stöðu hans að því leyti nú, miðað við það, sem var áður, sé hann sá, að vinstri stjórnin hafi kallað hann heim, en síðan ekki neitt með hans tillögur í meginatriðum viljað hafa að gera. Það er auðvitað út af fyrir sig eftirtektarvert, að fenginn sé maður, — ja, við skulum segja á ríkisins kostnað, meðan annað er ekki upplýst, málið horfir öðruvísi við, ef ráðherrarnir hafa borgað honum launin sjálfir, — og tillögur hans eru síðan að engu hafðar. Það sýnir, að annaðhvort hefur þeim mjög missézt í vali síns ráðunauts eða þeir vilja ekki hafa það, sem sannast reynist.