10.02.1960
Sameinað þing: 15. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í D-deild Alþingistíðinda. (3107)

47. mál, rekstrarfé fyrir iðnaðinn

Fyrirspyrjandi (Jónas G. Rafnar):

Herra forseti. Á þskj. 81 hef ég leyft mér að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ríkisstj., hvaða ráðstafanir hafi verið gerðar að undanförnu til þess að framkvæma viljayfirlýsingu Alþingis frá 1958 um endurkaup seðlabankans á framleiðslu- og hráefnavíxlum iðnaðarins.

Eins og kunnugt er, flutti þáv. 8. þm. Reykv., Sveinn Guðmundsson, tillögu á Alþingi árið 1958 um, að Alþingi fæli ríkisstj. að hlutast til um, að seðlabankinn endurkeypti framleiðslu- og hráefnavíxla iðnaðarfyrirtækja eftir ákveðnum reglum, er settar yrðu með svipuðu móti og þær, sem gilt hafa um endurkaup framleiðsluvíxla sjávarútvegs og landbúnaðar.

Í grg. fyrir till. var m.a. tekið fram, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er gild regla seðlabankans að endurkaupa afurðavíxla sjávarútvegs og landbúnaðar að áætlaðs söluverðs til a.m.k. 6 mánaða. Slík regla mun einnig hafa verið tekin upp um framleiðslu áburðarverksmiðjunnar. Nauðsyn ber til, að aðrar framleiðslugreinar njóti sama réttar, m.a. sementsverksmiðjan, þegar hún tekur til starfa, svo og iðnaðurinn almennt.“

Þá er vikið að því í grg., hversu iðnaðurinn hefur nú orðið mikla þýðingu fyrir þjóðarbúskapinn í heild, og bent á, að eðlilegt væri, að hann sæti við sama borð og landbúnaður og sjávarútvegur varðandi fjárútveganir,

Allshn., sem fékk framangreinda till. til meðferðar, lagði til annað orðalag, en mælti annars með samþykkt hennar efnislega. Till., eins og nefndin gekk frá henni, var síðan samþykkt samhljóða hér á hv. Alþingi.

Síðan þetta gerðist, er nú liðið langt á annað ár, án þess að nokkuð raunhæft hafi verið aðhafzt í þá áttina, að iðnaðurinn fengi aukið rekstrarfé, og engar reglur hafa sézt um endurkaup seðlabankans á framleiðslu- og hráefnavíxlum iðnaðarins. Fyrrv. ríkisstj. mun þó hafa skipað nefnd manna til þess að athuga málið á grundvelli tillögu Sveins Guðmundssonar, en ókunnugt er um störf hennar og niðurstöðu.

Allir, sem nokkur afskipti hafa haft af málefnum iðnaðarins, vita, að hann hefur verið í hinni mestu þörf fyrir lánsfé, Er það eðlilegt, þegar á það er litið, að iðnaðurinn hefur stöðugt verið að færa út kvíarnar með nýjum og nýjum verkefnum. Það er og alkunnugt, að varðandi fjáröflun hefur iðnaðurinn staðið miklu verr að vígi en bæði sjávarútvegur og landbúnaður, þar sem hann hefur ekki átt neina stofnsjóði, sem nokkurs væru megandi, til að leita til.

Sömu söguna er að segja um rekstrarféð. Í því efni hefur iðnaðurinn einnig orðið að búa við skarðan hlut. Fyrir skömmu var skýrt frá því í blöðum, að iðnlánasjóður, eini stofnsjóður iðnaðarins, stæði nú í aðeins 10 millj. kr., þegar stofnsjóðir hinna atvinnuveganna væru komnir yfir 600 millj. kr. Þá væru endurkeyptir víxlar, þ.e.a.s. framleiðsluvíxlar sjávarútvegs og landbúnaðar, um 900 millj. kr. árlega.

Till. Alþingis 1958, sem ég hef gert að umtalsefni, vakti vonir iðnaðarmanna og iðnrekenda um leiðréttingu mála sinna varðandi lánamál. Þar sem allt situr þó við það sama í þessum efnum, hef ég leyft mér að koma fram með fsp. á þskj. 81.