10.02.1960
Sameinað þing: 15. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í D-deild Alþingistíðinda. (3113)

902. mál, skattfríðindi við störf í þjónustu útflutningsframleiðslunnar

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í fyrsta lagi er spurt um, hvers vegna hafi ekki verið gefin út reglugerð varðandi skattfríðindaákvæði 2. gr. laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, er Alþingi samþykkti 12. maí 1959.

Þegar er núverandi ríkisstj. hafði verið mynduð, skipaði hún n. til þess að endurskoða öll gildandi lagaákvæði um tekju- og eignarskatt og þá að sjálfsögðu m.a. það ákvæði, sem í spurningunni er vitnað til. Þótti einsætt að fresta útgáfu reglugerðar þeirrar, sem ræðir um í fsp., þangað til álit n. um þetta atriði lægi fyrir, ekki sízt þar sem athugun hafði leitt í ljós, að mjög miklir örðugleikar mundu verða á því að framkvæma þetta lagaákvæði.

Nú hefur skattalaganefndin skilað áliti um nokkurn þátt endurskoðunarinnar, og leggur hún m.a. til, að ákvæðið um skattfrelsi eftir-, nætur- og helgidagavinnu við störf í þágu útflutningsframleiðslunnar verði fellt niður. Í grg. n. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á Alþingi 1959 var samþ. að undanþiggja skatti atvinnutekjur, er skattþegn hefur aflað sér með eftir-, nætur- og helgidagavinnu við störf í þágu útflutningsframleiðslunnar. Tilgangur þessa lagaákvæðis mun hafa verið sá að koma í veg fyrir, að menn af skattaástæðum yrðu ófúsir til að vinna slíka yfirvinnu. Þar sem nú er ákveðin stórfelld lækkun á tekjuskatti almennt, er eigi jafnmikil ástæða til þess og áður að veita nefnda undanþágu frá skattskyldu. Það hefur enn fremur komið í ljós, að mjög miklir örðugleikar eru á framkvæmd þessa lagaákvæðis. Oft er mjög erfitt að greina milli venjulegrar dagvinnu og eftirvinnu. Mörg fyrirtæki framleiða jöfnum höndum fyrir innlendan og erlendan markað, þannig að ókleift virðist að aðgreina, að hve miklu leyti yfirvinna, sem unnin er hjá slíkum fyrirtækjum, sé í þágu útflutnings eða framleiðslu fyrir innanlandsmarkað. Má nefna þar sláturhúsin sem dæmi. Af þessum ástæðum er lagt til, að a-liður 10. gr. verði felldur niður“ — en það er sá liður í lögunum, sem hér um ræðir.

Þetta er álit skattalaganefndarinnar.

Í öðru lagi er spurt: „Hefur fjmrn. gefið samþykki sitt til þess, að atvinnurekendur skuli undanþegnir þeirri lagaskyldu að láta skattyfirvöldum í té vinnuskýrslur, er sundurliði vinnu þannig, að séð verði, hver hluti vinnulaunanna falli undir nefnd lagaákvæði?“

Þegar sýnt var, að bið yrði á því vegna endurskoðunar skattalaganna, að unnt yrði að gefa út reglugerð varðandi þetta efni, þá taldi rn. ekki óeðlilegt, að skattyfirvöld veittu þeim fyrirtækjum, sem eftir því leituðu, frest á að skila sundurliðuðum vinnuskýrslum varðandi þetta atriði. Jafnframt var hlutaðeigandi tjáð, að þeir yrðu að vera viðbúnir að gefa þær skýrslur um þetta efni, sem nauðsynlegar þættu, jafnskjótt og krafizt yrði.

Af þessu sést, að eigi hefur verið fallið frá neinni lagaskyldu í þessu efni, en algengt er, að frestir til að gefa upplýsingar um tiltekin atriði hafa verið veittir, meðan beðið hefur verið eftir lausn tiltekinna skattalagabreytinga.