10.02.1960
Sameinað þing: 15. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í D-deild Alþingistíðinda. (3114)

902. mál, skattfríðindi við störf í þjónustu útflutningsframleiðslunnar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Með því að ég á sæti í þeirri n., sem hæstv. fjmrh. minntist á, þykir mér rétt að taka það fram, að ég er alveg andvígur þeirri till., sem kom frá n. um að fella þetta ákvæði niður, og mun ræða það frekar, þegar sjálft frv. kemur fram.

Ég hef hins vegar þá skoðun á þessu máli, að ákvæði laganna eigi ekki að koma til framkvæmda fyrr en 1. jan. 1960. Það stendur óumdeilanlega í a-lið, og það verður ekki skilið á annan hátt en þann, að skattfrelsi á tekjum af þessari vinnu nái ekki yfir tekjur ársins 1959, og í því liggur ágreiningurinn um þetta atriði, en alls ekki um hitt. Ef aðeins hefði staðið hér eins og í 4. gr., að lög þessi öðluðust gildi nú þegar, þá var enginn ágreiningur um það, að þessi skattur hefði átt að reiknast af tekjunum, eins og þær urðu, eftir að lögin tóku gildi. En eins og ákveðið er hér í a-lið, þá er alveg skýrt frá mínu sjónarmiði, að þetta gildir ekki fyrr en um þær tekjur, sem unnið er fyrir eftir 1. jan. 1960. Það hefði þurft að standa nánar um það í lögunum, ef hefði átt að taka tillit til þeirra tekna, sem innunnar eru árið 1959.

Þetta vildi ég láta koma fram undir þessum umr.