10.02.1960
Sameinað þing: 15. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í D-deild Alþingistíðinda. (3115)

902. mál, skattfríðindi við störf í þjónustu útflutningsframleiðslunnar

Fyrirspyrjandi (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Varðandi ræðu hv. 1. þm. Vestf. (GíslJ) hef ég það eitt að segja, að ég held að það sé alveg á misskilningi byggt hjá honum, að þetta eigi ekki að ná til tekna, sem mynduðust 1959, enda mundi hann strax sjá það, ef hann fylgdist með umr. um málið hér í þinginu eða læsi þær yfir, að það var ekki tilgangurinn, heldur hitt, að við skattálagningu 1960 kæmi þetta til framkvæmda, þannig að það verkaði á tekjur þær, sem myndazt hefðu á árinu 1959.

Varðandi þau svör, sem hæstv. fjmrh. hefur hér gefið, vil ég aðeins taka fram, að ég sé ekki annað en hans upplýsingar staðfesti það í einu og öllu, að hér hefur rn. skotið sér undan þeirri lagaskyldu að gefa út reglugerð um þetta atriði. Ég þarf auðvitað ekki að útskýra það í einu eða neinu fyrir þeim ágæta ráðh., sem þar situr, svo fróður sem hann er í lögum, að álit einhverrar skattalaganefndar, sem ríkisstj. hefur skipað, getur ekki komið í staðinn fyrir lög. Þar af leiðandi liggur það alveg í augum uppi, að þrátt fyrir álit, sem ekki er einu sinni einróma, það hefur nú verið upplýst hér, þessarar skattalaganefndar, sem ég veit ekki einu sinni heldur, hverjir eiga sæti í, aðrir en hv. 1. þm. Vestf., er ekki hægt að láta slíka álitsgerð koma í staðinn fyrir lög.

Ef hefði átt að láta hugsanagang ríkisstj. eða þeirra, sem að henni standa, eða það, sem þeir hafa sagt um skattamál, koma í staðinn fyrir lög, hefði líka átt að vera óþarft að láta fara fram nokkurt skattframtal í upphafi þessa árs, því að ég veit ekki betur en að þessir tveir flokkar hafi einmitt staðið að því sameiginlega hér á Alþingi fyrir skömmu að samþykkja þáltill. um að fela ríkisstj, að athuga, hvort ekki væri hægt að fella niður tekjuskatt með öllu. Ein af röksemdafærslunum, sem þá var færð fyrir því, hvert ágæti væri í þessu fólgið, var sú, að þá væri hægt að spara mönnum alla skriffinnsku við skattframtöl og þá væri hægt að spara ríkinu skattstofukostnaðinn, sem þykir vera mjög mikill.

Varðandi það, að á þessu séu einhverjir örðugleikar í framkvæmd, þá skal ég vissulega ekki hafa á móti því, að svo geti verið. En svo margt höfum við framkvæmt í lögum. sem nokkur vafi getur leikið á um, hvernig bezt sé í framkvæmd, að hér er ekki um neitt einsdæmi að ræða í þeim efnum. Og ef menn gengju almennt með þá hugmynd, að ekkert væri vafasamt í skattaframkvæmdum hjá okkur eða skattheimtu okkar, ekkert orkaði þar tvímælis af því, sem fyrir er, þá gætum við talað digurbarkalega um hluti. sem orkuðu tvímælis í þessu atriði, en það vita hins vegar allir, að í okkar skattheimtu og framkvæmd skattalaga er svo ótalmargt, sem orkar mjög tvímælis, að sá vandi, sem hér er á höndum, er ekki nema lítill í samanburði við margt af því, sem þar hefur viðgengizt að framkvæmt hefur verið og mjög sýnist sitt hverjum um. Ég vænti þess, að ráðuneytið sjálf sér fært að bæta úr þessu. Ef lagabreyting er rétt að koma, sem gerir þetta atriði óþarft, þá leiðréttist það auðvitað þar með og verður kannske ekki úr því bætt öðruvísi. En enginn á það alveg víst, jafnvel þótt í ráðherrastól sitji, að hans hugmyndir, jafnvel áður en þær eru komnar á blað, eigi samþykktum Alþ. að fagna, þegar þangað kemur, og hefði því verið réttmætast, að rn. hefði í engu skotið sér undan þeirri skyldu, sem hér hvíldi á því, en framkvæmt það, sem lög buðu.