10.02.1960
Sameinað þing: 15. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í D-deild Alþingistíðinda. (3116)

902. mál, skattfríðindi við störf í þjónustu útflutningsframleiðslunnar

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég vil fyrst taka fram, að það er fullkominn misskilningur hjá hv. fyrirspyrjanda, að nokkurt lagaákvæði hafi verið brotið í þessu efni. Það er nú svo um þetta ákvæði um undanþágu eða skattfríðindi yfirvinnu við útflutningsframleiðsluna, að það ákvæði er svo óljóst, bæði að efni og formi. að það tekur eiginlega fram flestu, sem Alþ. hefur samþ. á undanförnum árum, og er það þó ekki allt fullkomlega vandað.

Það er í fyrsta lagi alveg óljóst, eins og kom fram í ræðu hv. 1. þm. Vestf., hvenær þetta á að koma til framkvæmda. Það segir ákveðið, að þetta skuli koma til framkvæmda frá og með 1. jan. 1960, og hefur verið uppi tvenns konar skilningur á því, Þýðir það, að það eigi að koma til framkvæmda á þessu ári við skattálagningu, þ.e.a.s. varðandi þær yfirvinnutekjur, sem menn hafa aflað sér á árinu 1959, eða eins og hv. 1. þm. Vestf. hélt fram og margir fleiri en hann, að þetta ákvæði þýði rétt skilið, að það séu aðeins eftirvinnutekjur, sem menn vinna sér inn eftir 1. jan. 1960, sem njóta þessara fríðinda? Sá skilningur þýðir, að það er fyrst við álagningu 1961, sem það kæmi til framkvæmda. Þetta er í fyrsta lagi varðandi gildistökutímann.

Í öðru lagi segir, að ráðh. ákveði í reglugerð, hver störf falli undir þessi ákvæði, o.s.frv. Það segir ekkert í lögunum um það, að ráðherra skuli gefa út þá reglugerð fyrir einhvern ákveðinn tíma, og þess vegna er misskilningur hjá hv. fyrirspyrjanda, að það hafi átt að gera t.d. fyrir áramótin síðustu. Vitanlega verður að gefa út reglugerðina, áður en þetta ákvæði kemur til framkvæmda, Það er ljóst.

En þegar unnið var að því að undirbúa reglugerð um þetta efni, en það var skattstjórinn í Reykjavík, sem falið var það verkefni, þá kom í ljós, eins og raunar marga hafði órað fyrir, þegar málið var til meðferðar hér í þingi, að á þessu væru svo miklir framkvæmdarörðugleikar og túlkunarörðugleikar, að það stappaði nærri, að ákvæðið væri óframkvæmanlegt. Þegar skattstjórinn fjallaði um þetta, kvaddi hann sér ýmsa til ráðuneytis og leitaði m.a. álits hjá þremur þekktum verkalýðsleiðtogum, og þeir gáfu sameiginlega álitsgerð, bæði varðandi sjálf lögin og uppkast skattstjóra að reglugerðinni. Í þessari álitsgerð verkalýðsleiðtoganna segir m.a.:

„Augljóst er, að lagasetning eins og hér um ræðir skapar misræmi milli skattgreiðenda og því til þess fallin að vekja óánægju og samanburð hjá öðrum starfshópum en þeim, sem hún tekur til.“

Þegar þeir tala svo nánar um reglugerðina, þá er ákaflega hörð gagnrýni á ýmsum ákvæðum hennar, sem muni skapa verulega óánægju og misrétti, og segir m.a., að framkvæmd þessara ákvæða, eins og gert hafi verið ráð fyrir, muni leiða til beinna vandræða.

Fleiri aðilar, sem þetta var undir borið, voru á sömu skoðun.

Þegar við höfum þetta allt í huga: 1) Það er óljóst eftir ákvæðum laganna, hvort þau eiga að koma til framkvæmda á árinu 1960 eða 1961. 2) Að þeir, sem fengust við undirbúning reglugerðarinnar, og fulltrúar þeirra aðila, sem fyrst og fremst áttu að njóta þessara ákvæða, töldu bæði lögin og reglugerðina meingölluð og mundu leiða til misræmis og vandræða. 3) Að tekjuskattsnefndin tók þetta mál sérstaklega til meðferðar og lagði til, að ákvæðið yrði numið úr lögum, — með allt þetta í huga var ekki talin ástæða og ekki talið fært að gefa formlega út þessa reglugerð.

Eins og tekið var fram í svari mínu áðan, var hins vegar hlutaðeigendum tjáð, að þeir yrðu að vera við því búnir, ef þetta lagaákvæði ætti að koma til framkvæmda á þessu ári, að gefa upplýsingar og sundurliðun á dagvinnu og eftirvinnu varðandi störf við útflutningsframleiðsluna.

Ég vil aðeins bæta því hér við, eins og kom raunar fram áðan, að m.a. hefur það valdið miklum erfiðleikum við túlkun og undirbúning reglugerðarinnar, hvað ætti að kalla útflutningsframleiðslu og hvernig ætti að fara um vinnu við fyrirtæki, þar sem jöfnum höndum er framleidd vara til útflutnings og til neyzlu eða notkunar innanlands.

Það ber í rauninni allt að sama brunni, að mjög miklir — ég vil segja óvenjumiklir örðugleikar eru á framkvæmd þessa lagaákvæðis. Nú áður en langt um liður verður flutt hér í Alþ. frv. um breytingu á l. um tekju- og eignarskatt, og m.a. verður þar ákvæði um, að þetta fyrirmæli laganna skuli niður fellt.

Ég vænti, að þetta mál liggi nokkuð skýrt fyrir, eftir því sem hægt er að átta sig á jafnóskýru máli og þetta lagaákvæði er, en ég vil undirstrika það enn, að það er alger misskilningur, að hér hafi nokkur lög eða lagaákvæði verið brotin.