10.02.1960
Sameinað þing: 15. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í D-deild Alþingistíðinda. (3117)

902. mál, skattfríðindi við störf í þjónustu útflutningsframleiðslunnar

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Enda þótt ég telji, að mest af því, sem máli skiptir í sambandi við mál þetta, hafi þegar komið fram í ræðu hæstv. fjmrh., tel ég rétt að segja um þetta örfá orð, bæði vegna þess, að ég á sæti í skattalaganefndinni og er einn þeirra, sem standa að álitinu um þetta, sem hæstv. fjmrh. hefur lesið upp, en auk þess kom ég dálítið við sögu þessa máls, þegar það var afgr. á síðasta Alþ.

Till. um að undanþiggja tekjur við yfirvinnu í þágu útflutningsframleiðslunnar sköttum var þá borin fram af hv. núverandi 6. þm. Sunnl. (KGuðj). Í umr. um þetta mál lýsti ég mig samþykkan því grundvallarsjónarmiði, sem till. lá að baki, nefnilega þeirri staðreynd, að verðbólgan hefur gert það að verkum, að stighækkun tekjuskattsins, sem upphaflega er aðallega ætlað að bitna á hátekjumönnum, kemur nú til að bitna einnig á yfirvinnutekjum verkamanna. Þetta er vissulega vandamál, sem á einn eða annan hátt þarf að leysa. Hins vegar benti ég á það þá þegar, að af skattatæknilegum ástæðum mundi reynast óframkvæmanlegt að framkvæma till. í þessari mynd. Nú bar það þannig að í þinginu, að þessi till. væri samþ., að fyrst hafði hún verið felld með yfirgnæfandi meiri hluta atkv. í Nd., en einhvern veginn slæddist hún í Ed. inn í það frv., sem þá lá fyrir um skattamálin. Þegar hún kom svo til Nd. aftur, var málið komið í þann eindaga, að Nd. sá sér ekki fært annað en samþ. frv. óbreytt, því að ella hefði öðrum atriðum skattalagafrv., eins og lækkun á lágtekjuskatti o.s.frv., sem allir voru sammála um, verið stofnað í hættu. Það var þannig, sem það bar að, að þetta komst inn í skattalögin.

Hvers vegna er þetta óframkvæmanlegt? Í því sambandi má vitna til þeirrar grg. meiri hluta skattalaganefndarinnar, sem hæstv. fjmrh. las upp. Við bentum á, að það væri þannig með ýmiss konar fyrirtæki, að þau framleiða bæði í þágu útflutningsframleiðslunnar og fyrir innlendan markað, þannig að það væri ógerningur að aðgreina þetta tvennt. Það má líka benda á annað atriði í þessu sambandi. Nú er það að vísu þannig, að samkvæmt orðalagi þessarar greinar skattalaganna virðist sem ætlunin sé, að þetta taki aðeins til þeirra, sem vinna í þágu annarra. Hitt er auðvitað augljóst, að engin sanngirni mælir með því, að bændur, að því leyti sem þeir vinna í þágu útflutningsframleiðslunnar, eigi ekki líka að njóta þeirra hlunninda, sem hér er um að ræða. En hvernig ætti að fara að framkvæma það að aðgreina þann hluta af vinnu bóndans, sem er í þágu útflutningsframleiðslunnar, og þá vinnu, sem er fyrir heimamarkað? Þetta mundi m.a. leiða til þess, að bændur, sem framleiða aðallega sauðfjárafurðir, ættu að njóta þessa, en ekki þeir, sem framleiða mjólkurafurðir, og sjá allir, hver fjarstæða það er.

Ég vil svo ekki lengja þessar umr., en vil aðeins leyfa mér að benda á, að hvorki hv. 6. þm. Sunnl. né hv. 1. þm. Vestf., sem efnislega tók í sama streng og hann og gerði ágreining um þetta í n., hefur með einu orði imprað á því, hvernig leysa eigi þetta skattatæknilega vandamál, sem hæstv. fjmrh. og ég höfum bent á.