10.02.1960
Sameinað þing: 15. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í D-deild Alþingistíðinda. (3118)

902. mál, skattfríðindi við störf í þjónustu útflutningsframleiðslunnar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Af orðum, sem féllu hjá hæstv. fjmrh., mætti ætla, að skattstjórinn í Reykjavík hefði snúið sér til Alþýðusambandsins og svar Alþýðusambandsins hefði verið á þá leið, að horfið hefði verið frá því að gefa út reglugerð til að framkvæma þau lög, sem hér er um að ræða, sem voru um skattfríðindi eða eins konar framleiðsluverðlaun til þess fólks, sem stritar nætur og daga á vissum tímum árs í framleiðsluatvinnuvegum þjóðarinnar. Ég vil til að fyrirbyggja misskilning a.m.k. taka það fram, að hvorki ráðh. né skattstjóri hefur snúið sér til Alþýðusambandsins viðvíkjandi þessu máli og Alþýðusambandið ekkert svar gefið í þessu efni og ber því ekki sök á því á neinn hátt, að ríkisstj. hefur látið undir höfuð leggjast að gefa út reglugerð, sem henni var þó ætlað, um þetta efni.

Ég get ekki ætlað það, að nokkur maður sé í vafa um. að með lagasetningunni hér á Alþ. var fastlega til þess ætlazt, að fólk, sem starfaði að framleiðslunni, fengi skattfríðindi fyrir yfirvinnu sína og næturvinnu, helgidagavinnu, og það gat því ekki verið nokkurt undanfæri með það, ef ekki átti að brjóta lög, að gefa út reglugerð um framkvæmdina. Ég tel því, að það sé tvímælalaust, að l. hafi verið brotin, þegar reglugerðin hefur ekki komið og skattanefndirnar þannig engin fyrirmæli fengið um að framkvæma þetta verk, að taka tillit til þessarar yfirvinnu, næturvinnu og helgidagavinnu við skattlagningu nú á árinu 1960. Það er alveg augljóst mál af ummælum hér á Alþ., þegar þessi löggjöf var til umr., að það var þá talað um, að það væri orðið of langt liðið á árið 1959 og skattlagningu þá komið svo langt, að það væri ekki hægt að framkvæma það á því ári, en viðmiðunina á árið 1960 tóku áreiðanlega allir svo, að það væri framkvæmanlegt og bæri að framkvæmast á árinu 1960 með tilliti til tekna aflaðra á árinu 1959. Það held ég að verði því að teljast bein undanbrögð og andstaða við efni málsins, andúð við það að veita þessu starfandi fólki þessi fríðindi. sem þingið ákvað að veitt skyldu, að reglugerðin er ekki sett, með tilliti til þess, að einhverjir hafi þann skilning, að þetta eigi ekki að koma til framkvæmda fyrr en tekjur ársins 1959 koma til skattlagningar, þ.e.a.s. á árinu 1961.

Mér er tjáð af einum af þeim verkalýðsleiðtogum, sem skattstjóri mun hafa rætt málið við munnlega, ekki sent neitt skriflegt erindi til hans eða þessara þriggja manna, sem vitnað var til, að þá hafi þeir fengið að sjá reglugerðaruppkast, sem skattstjórinn var búinn að gera, og skattstjórinn mun hafa tjáð, að fyrir sig hafi verið lagt að gefa út reglugerð, sem þrengdi heimildir laganna eins mikið og hægt væri og gerði þannig eins lítið úr þessum skattfríðindum til vinnandi fólks og mögulegt væri, og við það væri reglugerðaruppkastið miðað. Síðan hafi þeir verið beðnir að veita umsögn um þetta reglugerðaruppkast og hafi gert það persónulega, rætt málið persónulega þarna og óformlega við skattstjórann og hann hefði óskað eftir að fá svar þeirra skriflega og þeir hafi gagnrýnt það, hve mjög reglugerðin þrengdi ramma laganna og væri þannig óhagstæð, og gerðu við hana margar athugasemdir. Til hvers var hún send til umsagnar þessum mönnum, ef ekki einmitt til þess að heyra, hvaða skoðanir þeir hefðu á reglugerðaruppkastinu, og til að fá fram þeirra skoðanir til breytinga á reglugerðinni? Vitanlega. En svo er þetta haft allt saman sem átylla fyrir því, að skattyfirvöldin og ráðuneytið hætti við að gefa út reglugerðina með öllu, og reglugerðin er þannig alls ekki sett, eins og lögin mæla fyrir.

Það er nokkuð síðan fsp. fóru að berast víðs vegar utan af landi til Alþýðusambandsins um það, hvort við gætum upplýst, af hverju þessi reglugerð væri ekki sett, af hverju skattanefndir og skattstjórar úti um land hefðu engin fyrirmæli fengið um að framkvæma þessi lög, og þá sneri ég mér til fjmrn. og fékk þar samband við ráðuneytisstjórann, og þau svör, sem hann gaf, voru þau, að það hefði verið horfið frá að setja þessa reglugerð með tilliti til fyrirhugaðrar breytingar á skattalögunum. Það var fyrirslátturinn, sem ég fékk. Hér er í raun og veru allt annað látið í veðri vaka, jafnvel látið í veðri vaka, að reglugerðin sé ekki til, af því að menn úr verkalýðshreyfingunni, sem málið hafi verið rætt við, hafi verið á móti því, sem mun vera blekking.

En það, sem ég vildi að síðustu segja, og það, sem mér þótti allra furðulegast við málflutning hæstv. fjmrh. í sambandi við þetta mál, var það, þegar hann vildi skjóta sér á bak við einhverja nefnd, sem hann hefði spurt eða fyrirrennari hans. hvort þeim fyndist, að þeir ættu að framfylgja lögum. Ja, þvílíkt! Ef ætti að fara að spyrja Pétur og Pál eða nefndir um það, hvort eigi að framkvæma þessi eða hin lögin, og láta svo undir höfuð leggjast að gera það, ef einhverjir vísir menn í þessum nefndum segi: Ja, við erum á móti þessu, eða við teljum ekki ástæðu til þess að framkvæma það, — slíkt er auðvitað á allan hátt rangt, og þá þýðir auðvitað engin lagasetning, ef á að vera hægt að bægja framkvæmdinni frá af andúð stjórnarherranna bara með því að spyrja einn eða annan, hvort þeir telji, að þessi lagasetning skuli koma til framkvæmda. Ég tel alveg tvímælalaust, að það var ætlun Alþ., að þessi skattfríðindi féllu vinnandi fólki til handa með skattlagningu á árinu 1960, og að það sé algert brot á lagasetningunni og vilja Alþ. að láta hana ekki koma til greina nú og marka ákveðnar línur fyrir því, hvernig framkvæmdin ætti að verða hjá skattyfirvöldunum með setningu reglugerðar. Þó að þeir hefðu ekki viljað taka til greina athugasemdir þessara verkalýðsleiðtoga, sem þeir leituðu til, þó að þeir hefðu ekki viljað taka til greina að rýmka reglugerðina á neinn hátt, heldur þrengja lögin eins og þeir treystu sér til og þyrðu lagabókstafsins vegna, þá hefði það þó alltaf komið til einhverra fríðinda og einhvers skattaléttis fyrir það fólk, sem vinnur um hávertíðina, nætur og daga, fyrir þjóðina, og það var a.m.k. algerlega ótvírætt, að það var þó undir öllum kringumstæðum ætlunin með þessari lagasetningu.