22.03.1960
Neðri deild: 52. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1403 í B-deild Alþingistíðinda. (312)

88. mál, söluskattur

Frsm. 2. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég gat því miður ekki verið hér við 2. umr. og nál, mitt kemur þess vegna allseint og hefur ekki verið útbýtt fyrr en nú. Það hefur nú þegar verið rætt allmikið, bæði í hv. Ed. og hér, um alla hina fjármálalegu hlið þessa máls, og það, sem ég vil þess vegna aðallega gera að umtalsefni við þessa umr. málsins, er tvennt. Það er í fyrsta lagi sú stefna, sem í þessu frv. felst gagnvart alþýðu manna, frá sjónarhóli hæstv. ríkisstj.

Hæstv. ríkisstj. er nýbúin að fá það fram á Alþingi, að sjálfkrafa vísitala á kaupgjald hefur verið afnumin, þannig að sú hækkun, sem veiður á vöruverði, jafnt á brýnustu lífsnauðsynjum sem öðrum, kemur ekki lengur sjálfkrafa fram sem hækkun á kaupi. Hingað til hefur það verið svo, að einmitt hvað snerti það, sem var lífsnauðsyn manna fyrir stríð, fiskur, kartöflur, mjólk, kjöt og annað slíkt, allt saman þetta vó ákaflega sterkt í þeirri gömlu vísitölu. Og meðan svo var og meðan hver sú ríkisstj., sem að völdum sat í landinu, hafði þess vegna nokkurt aðhald um, að hún vildi ekki láta verðvísitöluna, framfærsluvísitöluna, hækka mjög mikið og dýrtíðina í landinu verða mikla og af því leiða verðbólgu, þá hafði ríkisstj. ætíð sérstakt aðhald sökum þessarar sjálfkrafa vísitölu á kaupgjald með að hækka ekki brýnustu lífsnauðsynjar almennings. Meðan hin gamla vísitala frá 1939 var í gildi og þessi ákvæði, sem verið hafa nú í upp undir 20 ár, að reikna vísitölu á kaupgjald, þá var þess vegna reynt að hlutast svo til um allar verðhækkanir, þegar þær fóru fram, — sem, eins og hv. þm. vita, hafa verið miklar á þessu 20 ára tímabili, — þá var ætíð reynt að hlutast svo til um, að frekar væru tollar eða aðrar álögur lagðar á þær vörur, sem voru ekki eins knýjandi lífsnauðsyn hjá alþýðu manna, til þess að framkalla þannig ekki meiri verðbólgu en óhjákvæmilegt væri. Það mátti segja með þessu móti, að það yrði svo að segja regla ríkisstjórnanna að skekkja þannig vísitöluna, falsa hana jafnvel og hún sýndi ekki rétta mynd þess vegna af því, hvernig um lífskjörin væri í landinu, ef litíð var frá sjónarmiði landsbúa almennt. En einn kost hafði þetta ætíð. Þetta hafði þann kost, að lífsnauðsynjar hins fátæka manns voru ekki hækkaðar í verði. Þeir, sem höfðu úr minnstu að spila, gátu verið öruggir um, að því, sem þeir þurftu nauðsynlegast, fiskinum, brauðinu, kartöflunum og öðru slíku, væri haldið niðri. Þeir, sem áttu einhverja peninga á sparisjóði, eitthvað lítið, gátu verið vissir um það, að verðgildi þessara peninga hélzt í hlutfalli við þessar brýnustu lífsnauðsynjar.

Hvað er nú það fyrsta, sem við rekum okkur á, eftir að þessi vísitala hefur verið afnumin? Í fyrra var látið svo heita, þegar lögin 1. febr. voru sett, að nú væri verið að leiðrétta vísitöluna, nú ætti hún að verða rétt mynd af þeirri neyzlu, sem sá almenni launþegi byggi við í landinu, og brennivín og sitt hvað eina var tekið þarna mjög samvizkusamlega inn í með. En ekki var fyrr búið að gera þetta og sníða vísitöluna við það, sem þótti gefa rétta mynd af þeim lífskjörum, sem þjóðin byggi við, en vísitalan sjálf var afnumin sem mælikvarði. Og þetta þýðir um leið, eins og við sjáum á þessum söluskatti og öðrum þeim ráðstöfunum, sem nú hafa verið gerðar, að það er ráðizt á garðinn, þar sem hann er lægstur, það er hækkað almennt verð á öllum vörum, þannig að brýnustu lífsnauðsynjarnar eru hvað sízt undan skildar. Og þetta er beinlínis stefna, sem hæstv. ríkisstjórn tekur upp, stefna, sem er framkvæmd tillitslaust og harðvítugt. Það var rætt um það við 1. umr. málsins og minnzt á það í fjhn., hvort það væri nokkur leið að fá undanþegin þarna einstök atriði, eins og fisk eða annað slíkt, og var ekki við komandi, og þótt till. muni koma fram um það, hefur maður ekki sérstaklega mikla von um, að tillit til slíks verði tekið.

En það er nauðsynlegt, að menn geri sér þetta ljóst. Það eru nú líklega ekki nema 60–70 ár síðan fyrstu tollar voru lagðir á á Íslandi, og var þá jafnan sagt af miklum fjármálamönnum, sem þó greiddu atkv. á móti þeim tollum, að þeir gerðu það vegna þess, að svo framarlega sem byrjað væri á því, jafnvel þó að byrjað væri bara með toll á brennivíni, þá mundi það enda með því, að það yrði hver einasta lífsnauðsyn, sem almenningur þyrfti að nota, tolluð. Sú er nú orðin leiðin, og hér er nú gengið lengra í slíku en nokkurn tíma hefur verið gert áður, hver einasta brýnasta lífsnauðsyn daglegs lífs, sem aldrei hefur verið tolluð fyrr, er nú tolllögð. Þess vegna verða þessi söluskattslög í sínu eðli allt öðruvísi en öll þau lög um söluskatt, sem við höfum búið við í meira en áratug í mismunandi formi.

Þegar sá gamli söluskattur, sem stundum hefur verið kallaður „sá illræmdi söluskattur“, var settur á, þá var það gert í alveg sérstökum tilgangi, sem sé til þess að tryggja fé handa útgerðinni, bæta mönnum upp fiskverð, sem var tryggt sjómönnum og útvegsmönnum, og til þess að greiða niður dýrtíðina. Og þennan söluskatt, sem þá var á lagður, fékk alþýða manna upp bættan. Að svo miklu leyti sem brýnustu lífsnauðsynjar, sem fyrir stríð komu inn í vísitöluna, hækkuðu, þá hækkaði kaup almennings. M.ö.o.: allan þann illræmda söluskatt, sem menn hafa orðið að búa við í 10–12 ár, hafa menn fengið einhverjar bætur fyrir, sérstaklega alþýða manna. Þessi söluskattur er lagður á bótalaust. Menn fá ekkert. Hann er aðeins neftollur, nefskattur, sem á er lagður. Og alþýða manna verður að bera hann, ef hún grípur ekki til annarra sérstakra ráðstafana, án þess að fá sjálfkrafa þær uppbætur, sem hingað til hafa gerzt með vísitölunni. Þetta er það, sem gerir þennan söluskatt áreiðanlega óvinsælasta söluskattinn, sem nokkurn tíma hefur verið leiddur í lög á Íslandi. Og hann hefur þau einkenni hinna verstu nefskatta að lenda einmitt þyngst á þeim, sem sízt mega við því. Og á sama tíma er svo sú stefna boðuð, eins og var af hæstv. fjmrh., að það skuli lækka hina beinu skatta, þá skatta, sem alltaf hafa verið réttlátastir frá því sjónarmiði, að þeir komu þó þyngra niður á þeim, sem meira höfðu að miðla, og þess vegna er auðséð, í hvaða átt er stefnt með þessum álögum.

Það er vitað mál, að svona stefna um skattaálögur er ekki aðeins óréttlát og ill, heldur er hún líka óviturleg, og þeir valdhafar, sem knýja hana fram, eru furðu óraunsæir. Það er engin von til þess, að alþýða manna muni sætta sig við svona árásir án þess að svara, hún muni sætta sig við það, að svona sé af henni tekið, eins og gert er nú með þessum bótalausa söluskatti og með þeim ráðstöfunum, sem hann fylgir í kjölfarið á, gengislækkuninni. Þess vegna mundi Alþingi firra þjóðina miklum vandræðum með því að fella þetta frv., með því að stemma á að ósi, með því að segja við ríkisstj. nú: Þessi braut, sem þú ferð út á, er svo ranglát, svo ill, svo óraunhæf og óviturleg, að það er bezt að stöðvast nú þegar, áður en þetta hefur valdið þjóðfélaginu miklum vandræðum og efnt til flokkadrátta og harðvitugrar innanlandsbaráttu. Þess vegna er það, að mín till. er, að þetta frv. sé fellt. Ef ríkisstj. kærði sig um að leita annarra ráða, þá er ég reiðubúinn að benda á þau. Það er mikill gróði skapaður í þessu þjóðfélagi, og það fer mikið í eyðslu í okkar þjóðfélagi vegna skipulagsleysis, og það er lítill vandi, bæði í sambandi við sjálfan þjóðarbúskapinn og meira að segja ríkisbúskapinn, að spara svo að hundruðum millj. kr. skiptir, í stað þess að fara að leggja bótalausan söluskatt á brýnustu lífsnauðsynjar almennings. Meira að segja ríkisstofnanir hafa svo að skiptir tugum milljóna króna í gróða, sem aldrei rennur þó til ríkissjóðs, þannig að þær eru meira að segja í vandræðum oft og tíðum með að reyna að fela þetta, því að þær kunna ekki við að sýna það. Ég á þar við suma bankana. Þar að auki er vitanlegt, að gífurlegur gróði safnast fyrir hjá voldugum auðhringum í þjóðfélaginu, eins og t.d. olíufélögunum, enda vitanlegt, að hann hefur verið svo mikill, að þau hafa neyðzt til þess sum hver að reyna að koma honum fyrir erlendis til þess að láta ekki bera allt of mikið á honum hér heima. Það er þess vegna engum efa bundið, að það er hægt að finna nóg, ef farið er í — ja, músarholurnar var það kallað einu sinni, og Alþingi yrði engin skotaskuld úr að benda ríkisstj. á betri, réttlátari, viturlegri og raunsærri álögur en þær, sem lagt er til að fara út í með þessum söluskatti.

Ég skal svo láta útrætt um þá hlið þessa máls, sem snýr að íslenzkri alþýðu og þeirri árás, sem með þessum söluskattslögum er á hana gerð og hennar lífskjör, en víkja að öðru.

Mér sýnist það greinilegt eftir orðum hæstv. fjmrh. við 1. umr, þessa máls, að þessi lög um söluskatt eru ekki einvörðungu hugsuð sem sérstök ný eða gömul — endurnýjuð, skulum við segja, tekjuöflunaraðferð fyrir ríkissjóð. Þau eru hugsuð sem ný stefna, ný almenn stefna um skattheimtu á Íslandi. Hingað til hafa skattar á Íslandi fyrst og fremst verið tvenns konar. Þeir hafa verið tollar á hinar ýmsu vörur, sérstaklega aðfluttar, og svo á nokkrar innlendar, með allt öðrum hætti hins vegar og eftir öðrum reglum, og í öðru lagi beinir skattar, hlutfallslegir eftir tekjum manna og eignum. Hins vegar fannst mér það liggja í orðum hæstv. fjmrh. við 1. umr, þessa máls, að söluskattsfrv. það, sem hér liggur fyrir, væri þáttur í nýrri stefnu, sem ætti að taka upp á Íslandi. Hann fór ekki mörgum orðum um þetta, en nægum til þess að sýna, enda sýndu þau orðaskipti, sem áttu sér stað á milli okkar, að þar var á bak við þrauthugsuð stefna hjá hæstv. ráðherra. Þessi orðaskipti sýndu og ummæli hæstv. fjmrh., að það átti í fyrsta lagi að fara að hverfa burt frá hinum beinu sköttum, hverfa meira og meira burt frá því að leggja því hærri tekjuskatta á menn og félög, því meira sem þau græddu, eða haga sér á sama hátt hvað eignir snertir. En jafnframt kom það fram hjá hæstv. fjmrh., að einnig tollarnir, sem verið hafa aðaltekjustofninn fyrir íslenzka ríkið, þyrftu að fara að breytast, ekki vegna þess að ríkisstj. áliti, að loksins væri alþýða manna orðin svo langþreytt á tollum, að það dygði ekki að bjóða henni tolla lengur, nei, heldur af hinu, að það væri verið að undirbúa inngöngu Íslands í fríverzlunarsvæði, eins og hæstv. fjmrh. orðaði það, eitthvert fríverzlunarsvæði, og eins og hann nefndi seinna, helzt ef þau yrðu sameinuð, þau tvö, sem nú er aðallega um að ræða í Vestur- og Norður-Evrópu, þá þyrfti að undirbúa inngöngu Íslands í fríverzlunarsvæðin. Við vitum, að á fríverzlunarsvæðunum er það svo, að það er samningur á milli þjóðanna um að lækka gagnkvæmt tollana, m.ö.o. stefna í áttina til þess kerfis, sem var um miðja 19. öld, þegar tollar voru yfirleitt ákaflega lágir eða jafnvel ekki til og þegar hin ýmsu þjóðlönd, sérstaklega þau, sem á eftir voru í sinni iðnaðarþróun, tóku að skapa sér tolla og tollmúra, jafnvel ekki fyrst og fremst sem tekjuöflun fyrir sinn ríkissjóð, heldur sem vernd til þess að koma upp sínum innlenda iðnaði, eins og þegar Þýzkaland fyrir tæpum 100 árum byrjaði á sínum tollasamböndum, þau mörgu þýzku ríki, sem þá voru, til þess að byrja þannig að vernda sig á móti þeim volduga, sterka enska iðnaði, sem alls staðar barðist fyrir fríverzlun, vegna þess að hann var svo sterkur, að með fríverzlun treysti hann sér til þess að halda niðri iðnaði allra annarra landa og einoka markaðinn í þeim löndum fyrir sig. M.ö.o.: þegar sú stefna skýtur nú upp kollinum hjá hæstv. fjmrh., að það skuli jafnvel fara að stefna að því að auka ekki tolla á Íslandi, jafnvel lækka þá, en taka upp söluskatt sem stefnu og kerfi í staðinn, þá er það þáttur í því, að Ísland eigi að gerast aðili að einhverju fríverzlunarsvæði. Þau lönd, sem slíkt fríverzlunarsvæði mynda, eru á vissan hátt að afsala sér hluta af sínu efnahagslega sjálfstæði. Það er engum efa bundið fyrir hvern, sem með því hefur fylgzt, að þegar tollakerfið, hvað sem annars má um tolla segja, þegar tollamúrarnir eru reistir, t.d. 1866 af mörgum þýzkum ríkjum sameiginlega, þá er það þáttur í sjálfstæðisbaráttu Þýzkalands og sameiningu Þýzkalands, fjárhagsleg ráðstöfun borgarastéttarinnar í Þýzkalandi til þess að geta reist innan þessara tollamúra sterkan þýzkan iðnað, sem geti barizt við þann brezka.

Þegar verið er að ræða nú um fríverzlunarsvæði, verið er að ræða um það að reisa sameiginlega tollamúra máske fyrir sex lönd eða máske fyrir sjö lönd, en að þessi þjóðlönd innan þessara tollamúra smám saman lækki og brjóti niður þá tollamúra, sem voru á milli þeirra, og gerist þannig raunverulega eitt sameiginlegt, sterkt tollaríki með vel vörðum landamærum, tollmúrum út á við, þá þýðir þetta, að innan slíks fríverzlunarbandalags verða þeir auðhringar, þær stóriðjusamsteypur, sem sterkastar eru, enn þá risavaxnari og öflugri en áður, vegna þess að þær fá enn þá stærri og meiri markað sem vettvang og eflast þannig að auð og völdum, en troða að sama skapi niður þá smáu, sem áður voru í þessum þjóðlöndum, smáfyrirtækin. Það má vera, að gömul, rík nýlenduveldi á meginlandi Evrópu geti hugsað sem svo, að eitthvað af þeirra fyrirtækjum bjargist af, þegar þau sameinist svona. Jafnvel smáríki eins og Holland hafa svo lengi arðrænt aðrar þjóðir heims, að þar eru risnir upp hringar, sem í samsteypu með brezku auðmagni eru með voldugustu hringum heims, eins og t.d. Unilever-hringurinn, sem við höfum oft fengið að kenna á, eða Shell, þessir gömlu kunningjar okkar, og þessi ríki og borgarastétt þessara ríkja getur þess vegna vel hugsað sér, að þessir hringar þeirra haldi sjálfstæði sínu og valdi sem hollenzkir eða ensk-hollenzkir hringar. En fyrir Ísland er enginn slíkur möguleiki til. Fyrir Ísland er hvorki til slíkt fjármagn hjá einstaklingum né ríkinu né þjóðin svo stór, að í fríverzlunarsvæði gætum við, jafnvel þótt við vildum státa af því, að við héldum okkar þjóðlega sjálfstæði innan slíks kerfis, svo framarlega sem einhver auðhringur hjá okkur væri nægilega voldugur til að bjóða hinum byrginn, — við gætum ekki státað af neinu slíku. Sé Ísland innlimað í eitthvert slíkt fríverzlunarsvæði, þá er úti um okkar efnahagslega sjálfstæði. Ísland getur aðeins haldið sínu efnahagslega sjálfstæði með því að ráða sjálft algerlega sinni utanríkisverzlun, ekki aðeins hvað snertir viðskipti, heldur einnig hvað snertir tollamúra. Okkar litli íslenzki iðnaður, bæði sá, sem við eigum nú, og sá, sem við þurfum að koma hér upp í framtíðinni, verður þess eðlis, að ef við ætlum að halda honum sem íslenzkum iðnaði, hvaða aðilar sem kunna að eiga hann hér innanlands, þá þurfum við alltaf á því að halda, að ríkið geti með tollmúrum verndað hann. Það hefur engin þjóð í Evrópu komið upp sínum iðnaði og sízt af öllu stóriðju án þess að taka ríkisvaldið í sína þjónustu með tollmúrum og jafnvel fleiri ráðstöfunum til þess að vernda iðnaðinn, a.m.k. meðan hann væri nýgræðingur, og tryggja þannig sjálfstæði hans og tilveru. Og því meira sem stóriðja hefur þróazt og tæknin tekið þeim gífurlegu framförum, sem heimta svo mikinn stórrekstur, því greinilegra er það, að engin von er fyrir land eins og Ísland, land, sem með nýlendukúguninni, sem við vorum beittir, var haldið burt af þeirri þróunarbraut, sem lönd í Vestur-Evrópu og Norður-Evrópu hafa gengið, — það er engin von til þess, að við getum skapað okkur þann iðnað, sem við höfum alla orku og alla möguleika til, öðruvísi en við stöndum einir og óháðir í þessum efnum og leggjum áherzlu á að skapa slíkan iðnað sem íslenzkan iðnað, sem Íslendingar ráða yfir, en innlimum ekki okkar land í stórt efnahagskerfi annarra ríkja, hvaða ríki svo sem um væri að ræða, heldur höldum okkar efnahagslega sjálfstæði og neytum allra þeirra færa, sem við höfum, til að koma okkar ár sem bezt fyrir borð, hvar sem er í veröldinni.

Ég geri þetta að umtalsefni vegna þess, að mér heyrðist á ræðu hæstv. fjmrh., að þetta frv., sem hér liggur fyrir um söluskatt, sé raunverulega yfirlýsing um nýja stefnu, sem upp skuli taka, um leið og hverfa skuli meira og meira frá beinum sköttum, tekjuskattinum og öðru slíku, og tollum. Það er eftirtektarvert, að það er hvorki lagt til að hækka nú gífurlega tolla á ýmsum ónauðsynlegasta varningnum né taka á honum einkasölu fyrir ríkið, þannig að það mætti ná tekjum ríkissjóðs þannig, heldur að leggja á almennan söluskatt, sem kemur jafnt niður á öllu, hinum brýnustu nauðsynjum og hinum ónauðsynlegasta lúxus. Hingað til hefur alltaf verið sagt af hálfu allra fjmrh., sem lagt hafa fram till. um söluskatt, að þetta væri einhver ill nauðsyn og einhver góður tilgangur, eins og dýrtíðarsjóðurinn 1948, ætti að gera það þolanlegt, að menn gripu nú til þessa slæma verks. Nú aftur á móti virðist það vera yfirlýsing hæstv. ríkisstj., að söluskatturinn sé stefna, sem eigi að miða við í framtíðinni, vegna þess að í framtíðinni muni Ísland ekki þora að beita þeirri aðferð að hækka t.d. tolla á ýmsum erlendum varningi, vegna þess að Ísland væri of bundið erlendum þjóðum með samningum til þess að mega gera slíkt, og þess vegna sé eina ráðið, sem Ísland hefur, að leggja almennan söluskatt á alla mögulega hluti og að öllum líkindum meir og meir söluskatt í sjálfri smásölunni, sem lendir á öllu, því að það er náttúrlega gefið um söluskatt á þá innfluttu vöru, svo mikið sem hann hefur fram yfir, samanborið við hinn söluskattinn, að það er náttúrlega hægt að umskíra alla tolla í söluskatt á innfluttar vörur, þannig að ef Ísland væri búið að binda sig samningum við önnur ríki, þá mundi það a.m.k. varla ganga til frambúðar, jafnvel þó að einhvern tíma væri hægt að beita því. Ég vil vekja eftirtekt á þessu, vegna þess að mér sýnist, að ef ekki er tekið þannig undireins í þessa stefnu, sem hæstv. fjmrh. nú hefur tilkynnt og mér satt að segja fannst eins og gloprast upp úr honum, en hann ætlaði ekki beinlínis að gera að höfuðatriði, — ég held, að það sé nauðsynlegt, að menn geri sér það ljóst, að ef menn ekki stöðvi þennan söluskatt nú þegar, þá sé voði þarna yfirvofandi. Það er sem sé ekki aðeins með þessu frv. verið að leggja út í hatramma árás á lífskjör íslenzkrar alþýðu og tolla hennar brýnustu nauðsynjar. Það er líka verið, að líkindum í samræmi við þær kröfur, sem hæstv. ríkisstj. veit að auðvald Vestur-Evrópu mun gera til hennar, ef á að fara að semja meira um fríverzlunarsvæði og innlimun Íslands í það, þá er verið að feta inn á svo að segja nýja braut hvað þetta snertir, hvað eðli þessa skatts snertir í íslenzkum fjármálum.

Þetta frv. um söluskatt er því ekki aðeins harðvítugar álögur á almenning, bótalausar og ranglátar, heldur líka tilkynning um stefnu, sem ríkisstj, ætli að taka upp, að innlima Ísland í efnahagskerfi vestur-evrópska auðvaldsins, en gefast upp við þá stefnu, sem Ísland hefur reynt að fylgja, frá því að það varð lýðveldi, að reyna að halda sínu efnahagslega sjálfstæði, byggja okkar land upp eingöngu með hagsmunasjónarmið þjóðarinnar sjálfrar fyrir augum og með hverjum þeim aðferðum, hvað villutrúarkenndar frá hagfræðilegu sjónarmiði sem mönnum kynni að finnast þær, sem henta Íslandi í hvert sinn. Það er því till. mín, að þetta frv. verði fellt, og ef það yrði gert, þá skyldi ég m.a. vera reiðubúinn til þess að koma fram með till. um, á hvern hátt ætti að taka þær tekjur í ríkissjóð, sem kynni þar að vanta, þótt hitt sé slæmt til að vita, að hæstv. ríkisstj. skuli vera búin með gengislækkunarlögunum að stórskemma alla möguleika í slíku efni svo gífurlega, að hún verður með þessum söluskatti að leggja á þjóðina hærri álögur en allar þær álögur, sem hæstv. forsrh. sjálfur áleit að væri nauðsynlegt að leggja á þjóðina, áður en gengislækkunarlögin voru framkvæmd. Það er því tillaga mín, að frv. sé fellt.