10.02.1960
Sameinað þing: 15. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í D-deild Alþingistíðinda. (3121)

902. mál, skattfríðindi við störf í þjónustu útflutningsframleiðslunnar

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég heyrði það í þessum umr., að hæstv. fjmrh. telur, að þau ákvæði, sem umr. hafa spunnizt um hér varðandi sérstök skattfríðindi til þeirra, sem starfa í þjónustu útflutningsframleiðslunnar, séu svo grautarleg og óljós, að hann og aðrir starfsmenn hans megi ekki skilja, hvernig eigi að framkvæma þessi ákvæði.

Ég verð að segja, að mér þykir harla undarlegt, ef svo er komið hjá starfsmönnum íslenzka ríkisins, að þeir geti ekki skilið jafneinfaldan hlut og felst í þessum skattfríðindaákvæðum. Hér er greinilega tekið fram, að það séu atvinnutekjur þær, er skattþegn hefur aflað sér með eftir-, nætur- og helgidagavinnu við störf í þjónustu útflutningsframleiðslunnar, og síðan er tekið fram á eftir, að í reglugerð skuli tilgreina nánar, hvað flokkist undir útflutningsframleiðslu. En ég vil ætla, að hér á Íslandi sé það ekkert ýkja flókið mál, hvað heyrir undir útflutningsframleiðslu. Hér er ekki um neitt þokukennt að ræða, hvað er útflutningsframleiðsla. Það er ekki um svo margar greinar að ræða, að það er hægt að gera því full skil: Hitt er svo ekkert nýtt atriði, að ýmsir aðrir skattþegnar í landinu hafi imprað á einhverri óánægju, þegar veitt hafa verið sérstök skatthlunnindi til þeirra, sem vinna að útflutningsframleiðslunni. Við vitum mæta vel, að það hefur borið á því hjá ýmsum öðrum skattþegnum, að þeir hafa líka viljað fá fram þau skattfríðindi, sem sjómenn hafa haft á fiskiskipum okkar. Það er alkunna. Við vitum mæta vel um það, og satt að segja er ég ekkert hissa á því, þó að menn hér í öðrum starfsgreinum vilji gjarnan ná sér í þau skattfríðindi líka, sem Alþ. ákveður að veita sjómönnum eða því fólki, sem vinnur beint að útflutningsframleiðslu.

En það eru kannske ekki allir á sama máli um það, hvernig þetta skuli vera. Ég er á þeirri skoðun, og ég álít, að það hafi komið hér skýrt fram á Alþ. við þessa lagasetningu, að Alþ. leit svo á, að það ætti að verðlauna með nokkrum skattfríðindum þá aðila, sem vilja leggja á sig aukastörf fyrir útflutningsframleiðsluna.

Það er vitanlega með öllu tilgangslaust fyrir hæstv. fjmrh. eða starfsmenn hans að reyna að halda því fram, þannig að nokkur maður sannfærist um það, að þetta lagaákvæði sé svo grautarlegt eða óskýrt, að ekki hafi verið hægt að framkvæma það. Það var auðvelt að framkvæma það, miklu auðveldara að framkvæma það en ýmis önnur skattfríðindi, sem veitt eru samkv. skattalögum í sambandi við ýmiss konar annan frádrátt, og mat á ýmsum hlunnindum, margfalt auðveldara. Spurningin var bara um það, hvort átti að hlýða lögum, hvort menn vildu beygja sig fyrir þeirri samþykkt, sem Alþ. hafði gert um það að veita tilteknum aðilum nokkur skattfríðindi, á sama tíma sem ýmsum öðrum aðilum í landinu væru ekki veitt skattfríðindi.

Þessir embættismenn og hæstv. ráðh., þessi eða þá hinn, sem var á undan honum sem fjmrh., virðast vera í hópi þeirra manna, sem eru á móti því að veita þessi fríðindi. Það er allt og sumt. Og þá taka þeir það ráð að stíga yfir lögin, brjóta þau hreinlega, fara ekki eftir samþykkt Alþingis. Þetta vitanlega ber að vita. Og þó að menn segi nú á eftir: Ef fyrirhugað er að breyta þessum lögum á Alþingi, þá er óþarfi að leggja á sig þessa vinnu. — Ja, hver er kominn til að segja, að það sé fyrirhugað að breyta þessum ákvæðum hér á Alþ.? Það á eftir að sýna sig. Ég álít, að fjmrn. hafi borið skylda til þess að fara að settum lögum, svo lengi sem þau stóðu í gildi, hvað sem þeirra einkaálit var um það, hvort þessi skattfríðindi átti að veita eða ekki, Ég álít fyrir mitt leyti miður farið allt, sem fer í þá átt í þessum efnum að draga úr því að veita nokkur fríðindi eða einhver hlunnindi til þeirra aðila, sem vilja leggja á sig aukastörf til þess að auka framleiðsluna. Öll spor, sem verða stigin í aðra átt, eru ábyggilega efnahagsmálum okkar ekki til góðs.

Svo er enn annað, og það er það, sem vitanlega ber að hafa í huga og ég vil ætla að núv. hæstv. fjmrh. þekki alveg sérstaklega, að það er varhugavert að koma þannig fram á Alþ. eða annars staðar að gera samninga við einn aðila eða setja lög einum aðila til hagsbóta, heita honum þessu á þann hátt, sem fullgilt á að vera, en svo þegar á að standa við loforðið sjálft, framkvæma það, sem menn eru búnir í góðri trú að vinna upp á, þeir eru búnir að leggja á sig þau aukastörf, sem þeir áttu að njóta nokkurra fríðinda út á, en svo þegar á að koma til greiðslunnar á þessum störfum, sem menn hafa innheimt undir ákveðnum fyrirheitum, þá eru þeir sviknir um efndirnar. Það eru svona vinnubrögð, sem ber að víta. Þau eru hættuleg, og ég vil ætla það alveg sérstaklega, að núv. hæstv. fjmrh., sem þekkir vel til í lögum, sjái, hvers konar hættur felast í slíkum vinnubrögðum. Öðru máli gegndi, hefði aðeins verið um það að ræða nú að setja þessi lög fyrir næsta ár. Nei, þessi lög voru raunverulega í gildi fyrir störf manna á árinu 1959, þeir eru því búnir að leggja það á sig, sem til var ætlazt. En það er meining hans að svíkja menn um þá greiðslu, sem þeim var heitið með lögum frá Alþingi. Og það er það, sem ég vil alveg sérstaklega vita í þessum efnum.