10.02.1960
Sameinað þing: 15. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í D-deild Alþingistíðinda. (3122)

902. mál, skattfríðindi við störf í þjónustu útflutningsframleiðslunnar

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég ætla að leggja hér örfá orð í belg, vegna þess að það hefur verið vikið nokkuð að okkur starfsmönnum í fjmrn., sem með þessi störf förum, og það vill nú svo til, að ég fer með skattamál þar ásamt fleiri störfum.

Ég vil í upphafi taka það fram, að ég leyfi mér að draga mjög í efa þá yfirlýsingu hv. 4. landsk., að ráðuneytisstjórinn í fjmrn. hafi nokkurn tíma sagt, að fallið væri frá því að gefa umrædda reglugerð út. Ég hef sjálfur ítrekað orðið að svara þessari fsp. frá mörgum stöðum. og þá hef ég sagt í samræmi við þær fyrirskipanir, sem ráðuneytisstjóri hefur gefið mér þar um, að frestað væri útgáfu reglugerðarinnar, þar sem tekjuskattslögin væru í endurskoðun og ekki þætti ráðlegt eða eðlilegt að gefa reglugerðina út, meðan á þeirri athugun stæði.

Annars er ég dálítið hissa á þeim umr., sem hér hafa farið fram. Það er eins og hér hafi einhver óskaplegur hlutur átt sér stað og lög hafi verið brotin. Ég fullyrði, að svo er ekki og það er í engu tapað fyrir nokkurn mann, nokkurn skattþegn hér á landi, þó að ekki sé búið að gefa út þessa reglugerð enn þá. Framtalsfresti er nú nýlokið, fyrir nokkrum dögum, og álagning tekjuskatts er ekki byrjuð enn þá. Það er mjög algengt í sambandi við reglur varðandi tekjuskatt, að fyrirmæli um þær komi ekki fyrr en í febrúar eða marz eða jafnvel síðar á því ári, sem skatturinn er lagður á. Ég tel það líka skynsamleg vinnubrögð, eins og á stendur og miðað við þá endurskoðun, sem núna fer fram á tekjuskattslöggjöfinni, að atvinnurekendum sé ekki, kannske að nauðsynjalausu, fyrirskipað að leggja út í svo og svo mikla vinnu við að sundurliða hjá mönnum, sem hjá þeim starfa, hve mikið þeir hafi starfað í eftirvinnu og hve mikið þeir hafi starfað í dagvinnu að framleiðslustörfum, þegar ekki er ljóst, hvort nokkurn tíma verður þörf á því að nota þessar upplýsingar.

Þá vil ég líka taka fram, að ég tel, að að ýmsu leyti séu þau lög, sem hér um ræðir, dálítið óljós, og hitt held ég að allir, sem þekkja eitthvað til tekjuskatts og álagningar tekjuskatts, viðurkenni, að að sumu leyti séu þau algerlega óframkvæmanleg, og skal ég koma inn á það lítillega. Ég vil þó taka fram, að ég hef alltaf skilið þessi lög þannig, að skattívilnun þessi ætti að taka til tekna, sem unnið væri fyrir á árinu 1959. Þeir, sem vinna í skattinum, tala gjarnan um eða hafa það orðalag, sem hér er haft: „ákvæði þessi skulu koma til framkvæmda“, og þá er átt við álagningu skattsins. Við skiljum þetta þannig, og ég hef alltaf skilið það þannig, að þessi ákvæði ættu að koma til framkvæmda árið 1960 á tekjur ársins 1959, ef þetta verður á annað borð samþykkt.

En í sambandi við þá erfiðleika, sem eru á framkvæmd þessara laga, skal ég aðeins gefa örfá dæmi:

1) Það er ekki ljóst, hvort þessi skattívilnun tekur einungis til þeirra, sem vinna fyrir launatekjum hjá öðrum, eða hvort hún nær líka t.d. til einyrkjabónda, sem hefur ekkert fólk starfandi í sinni þjónustu. Það er það fyrsta. Þetta er ekki ljóst,

2) Nokkur hluti af framleiðslu — við skulum segja landbúnaðarvara — er fluttur út. Það er algerlega óframkvæmanlegt, og það þekkja allir, sem hafa unnið að skattamálum, að sundurliða eða fylgjast með því af hálfu skattyfirvalda, hve mikill hluti tekna bónda er vegna útflutningsframleiðslunnar og hve mikill hluti tekna hans er vegna starfsemi eða vegna framleiðslu, sem seld er hér innanlands.

Hér eru bara tvö lítil dæmi. En fleiri annmarkar eru á þessu, sem ég hirði ekki um að rekja frekar. Ég hygg, að á þessu megi sjá, að hér er um verulega erfiðleika að ræða. En ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs í sambandi við þessa umr., var sú, að mér þótti rétt að bera hönd fyrir höfuð okkar í rn. fyrst og fremst. Ég hef aldrei fengið þar aðra skipun en þá að gefa upplýsingar um, að reglugerðarútgáfu þessari hafi verið frestað, og ég leyfi mér að draga það mjög í efa, að ráðuneytisstjórinn í fjmrn. hafi gefið nokkrum manni aðrar upplýsingar en þær, að hér væri aðeins um frestun á útgáfu reglugerðarinnar að ræða, þangað til útséð væri um þann árangur, sem verður af endurskoðun á tekjuskattinum.