10.02.1960
Sameinað þing: 15. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í D-deild Alþingistíðinda. (3124)

902. mál, skattfríðindi við störf í þjónustu útflutningsframleiðslunnar

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Ég gat því miður ekki verið viðstaddur hér, þegar hæstv. fjmrh. svaraði fsp. En í því, sem síðar hefur komið fram, hefur nokkuð dregizt inn í þessar umr. grg., sem við þrír úr verkalýðshreyfingunni hér í Reykjavík létum frá okkur fara varðandi útgáfu þeirrar reglugerðar, sem hér er rætt um. Skattstjórinn í Reykjavík, sem mun hafa samið þessa reglugerð eða starfsmenn hans, leitaði til okkar um umsögn varðandi reglugerðina á s.l. hausti. Það var kannske vegna þess, að bæði ég og ýmsir fleiri úr verkalýðshreyfingunni hér í bænum höfðu þráfaldlega spurzt fyrir um, hvað liði útgáfu þessarar reglugerðar. Hann óskaði eftir umsögn okkar um þá reglugerð, sem þá iá fyrir uppkast að. Þarna fóru engin bréfaskipti milli, og eftir að við höfðum sameiginlega athugað uppkastið að reglugerðinni, var nánast mér falið að eiga viðtal við skattstjóra þar um. Þegar ég hafði rætt við hann, óskaði hann eftir, að við létum í té skriflega álit okkar á reglugerðinni. Það gerðum við síðan, og ég held, að málið frá okkar sjónarmiði skýrist nokkurn veginn með því að lesa upp þetta bréf, sem hæstv. fjmrh. var nú svo vænn að lána mér, en ég hafði ekki meðferðis.

Það, sem fyrst og fremst vakti fyrir okkur, þegar við sömdum þetta, var, að þessi reglugerð gerði ekki framkvæmd l. beinlínis ómögulega. en það var álit okkar á reglugerðinni, að framkvæmd l. yrði algerlega óhæf, ef reglugerðinni yrði fylgt. Því var yfir lýst í grg., sem fylgdi reglugerðinni, að þar hefði sá háttur verið á hafður að þrengja eins og frekast væri kostur ákvæði laganna. Þetta var gert á þann veg, að t.d. hér í Reykjavík hefðu uppskipunarmennirnir, mennirnir hér við höfnina, sem skipa upp úr fiskiskipunum, togurunum, mennirnir hjá togaraafgreiðslunni, ekki átt að fá skattívilnanir. Nú er það vitað mál, að þessir menn, a.m.k. hér í Reykjavík, verða að leggja hvað mest á sig við yfirvinnu til þess að koma fiskinum í land. Þeir áttu ekkert að fá. Bifreiðastjórarnir, sem aka fiskinum frá skipunum, og þetta eru að langmestu leyti bifreiðar fiskvinnslustöðvanna sjálfra og verða að vera til, hvenær sem er sólarhringsins, áttu ekki að fá skattívilnun. Það er mikið farið að nota vélar inni í frystihúsunum við flökun og sitt hvað annað. Mennirnir, sem stjórna þessum vélum, áttu ekki að fá skattívilnanir. En mennirnir, sem standa við hliðina á þeim, setja fiskinn í vélarnar, áttu að fá skattívilnanir.

Það var þessi rammi reglugerðarinnar, sem við alveg sérstaklega lögðum áherzlu á að næði engri átt. Þetta hefði tvímælalaust og óhjákvæmilega haft í för með sér vinnustöðvanir, a.m.k. hér í Reykjavík, bæði í vinnslustöðvunum og við höfnina. Ég fullyrði það, að menn hefðu ekki látið bjóða sér slíka hluti og hefðu þess vegna hreint og beint horfið frá þessari vinnu.

Ég ætla — með leyfi hæstv. forseta — að lesa þessa grg. okkar, hún er ekki löng, og vona, að málið skýrist við það. Það eru aths. við frv. að reglugerð um skattfrelsi yfirvinnuálags við framleiðslu á útflutningsvörum.

„1. Augljóst er, að lagasetning eins og hér um ræðir skapar misræmi milli skattgreiðenda og því til þess fallin að vekja óánægju og samanburð hjá öðrum starfshópum en þeim, sem hún tekur til. Það er yfir lýst, að við samningu reglugerðarinnar hafi verið fylgt þeirri stefnu að þrengja ákvæði laganna eins og frekast væri kostur, Við sjáum ekki betur en slík framkvæmd laganna muni leiða til hreinna vandræða.

2. Óljóst er, hvort skattívilnun þessi á skv. 5. gr. reglugerðarinnar að ná til manna, sem vinna vaktavinnu. En okkur virðist, að hún ætti jafnt að taka til þess hluta vinnulauna vaktavinnumanna, sem þau eru hærri en venjulegt dagvinnukaup vegna álags, sökum þess að starfið er framkvæmt á öðrum tíma sólarhringsins en eðlilegt er talið.

3. Skv. 2. gr. nær skattívilnun þessi aðeins til álags á laun fyrir vinnu, sem unnin er beinlínis við úrvinnslu eða aðvinnslu framleiðsluvörunnar sjálfrar á vinnustað.“ Ekki er ljóst, hvað átt er við með orðinu „aðvinnsla“, og væri kannske fróðlegt, ef góðir málfræðingar eru hér, ef þeir vissu, hvað það ætti að merkja. „Skattívilnunin virðist skv. þessu aðeins eiga að ná til þeirra. sem vinna í vinnslustöð, t.d. frystihúsi, og þó ekki til þeirra allra. Hún virðist ekki eiga að ná til viðgerðarmanna. vélstjóra, bifreiðastjóra og heldur ekki þótt þeir aki bílum fyrirtækjanna sjálfra. Uppskipunarmenn virðast vera útilokaðir, og hvað um fólk, sem t.d. vinnur í skreiðarhjöllum, eða eru skreiðarhjallar vinnslustöð? Það var mjög tvírætt, hvort t.d. vinnan í skreiðarhjöllunum heyrði undir ákvæði reglugerðarinnar. Mörg frystihús og aðrar vinnslustöðvar hafa nú orðið fastráðna viðgerðarmenn í þjónustu sinni. Þessir menn og fastir vélstjórar fyrirtækjanna verða oft að leggja á sig vökur og erfiði, þegar aðrir eru ekki að vinna, til þess að framleiðslustörfin geti gengið eðlilega, og virðist því mjög ranglátt, ef ákvæði laganna taka ekki til þeirra. Benda má á, að með þessu fengi sá skattívilnun, sem lætur fisk í flökunarvél, en sá, sem stjórnar vélinni, fengi hana ekki. Bílstjórar, sem aka bílum í eigu frystihúsa og annarra vinnslustöðva, eiga nær aldrei öruggan hvíldartíma. Þeir þurfa ávallt að vera tilbúnir til vinnu, t.d. ef bátur kemur að landi. Engin rök virðast vera fyrir því, að þeir, sem vinna við uppskipun á sjávarafla, vinni ekki „bein störf við framleiðsluvöruna sjálfa“. Því teljum við, að þeir eigi kröfu á skattívilnun skv. lögunum. Sama máli gegnir um þá, sem t.d. vinna í skreiðarhjöllum. Í stuttu máli sagt teljum við ófært að mismuna svo fólki við sömu eða lík störf og í flestum tilfellum hjá sama fyrirtæki eins og reglugerðin gerir ráð fyrir og að slík þrenging á ákvæðum laganna muni leiða til beinna vandræða, eins og fyrr segir.

4. Það er alkunna, að verkafólk yfirleitt hefur ekki bókhald yfir vinnustundir sínar, og við útfyllingu skattskýrslna fer það oftast eftir uppgjöri atvinnurekanda varðandi tekjur sínar. Það virðist því vægast sagt mjög varhugavert ákvæði í fyrri málsgr. 6. gr. reglugerðarinnar, að starfsmaður verði sóttur til saka fyrir að fara eftir uppgjöri atvinnurekanda, ef síðar kemur í ljós, að atvinnurekandinn hafi gefið ranga skýrslu.“

Þetta er dags. 9. nóv. 1959, og er undirskriftin sama og hæstv. fjmrh. gat um og er til skattstjórans í Reykjavík.

Ég get verið sammála um það, að ákvæði laganna eru kannske ekki eins skýr og á hefði verið kosið, en með þeirri reglugerð, sem uppkast lá að fyrir okkur, var framkvæmd laganna gerð alveg ómöguleg, og ég held, að við höfum hér fært næg rök að því.