10.02.1960
Sameinað þing: 15. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í D-deild Alþingistíðinda. (3126)

902. mál, skattfríðindi við störf í þjónustu útflutningsframleiðslunnar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég tel, að það hafi komið skýrt fram í þessum umr., að ákvæðið um gildistökuna, eins og það kom inn í löggjöfina í hv. Ed. og hv. 4. þm. Vestf. (SE) upplýsti hér áðan, er þannig til komið, að það er enginn vafi á því, að með orðalaginu var tekið af tvímæli um, að það ætti ekki, af því að það væri kannske ekki framkvæmanlegt, að koma til framkvæmda á árinu 1959, en strax í ársbyrjun 1960. Mér hefur verið tjáð, að það séu algeng vinnubrögð hjá lögfræðingum, að ef þeir eru í vafa um skilning lagasetningarákvæðis, fari þeir mjög eftir því, hvað sé hægt að fá fram úr umr. á Alþ. um tilganginn, tilætlunina. Og ef hæstv. ráðh. hefði haft svo mikið við í þessu efni að athuga það, þá er enginn vafi á því, að það atriði hefði þegar orðið algerlega augljóst, að ekki var til neins að reyna að humma fram af sér framkvæmd þessarar lagasetningar með því, að það hafi verið óljóst, hvort lögin ættu að taka til ársins 1960 eða 1961.

Mér fannst líka hæstv. ráðh. ofmæla það, þegar hann skýrði þingheimi frá því hér í sinni fyrri ræðu, að hann hefði leitað umsagnar nefndar um það, hvort hún teldi, að þetta bæri að framkvæma, og n. hefði verið andvíg því. Svo kemur einn nm. hér og segir: Það er rangt. Ég er á móti því, að þetta lagaákvæði sé fellt niður, vil, að það komist í framkvæmd, — og gerði nákvæma grein fyrir því, í hverju hans ágreiningur hefði að öðru leyti verið fólginn.

Nú virðist mér orðalag lagasetningarinnar vera skýrt í öllum meginatriðum, og mér virðist það vera lítið höfðinglegt af hæstv. ráðh. að koma hér og gera sér upp skilningsleysi frammi fyrir þingheimi, þykjast ekki skilja þetta lagaákvæði eða mælt mál hér í umr.

Þá sagði hæstv. ráðh., að vanefndir á þessum framkvæmdum hefðu aðallega stafað af því, að það stæðu til stórkostlegar breyt. á skattalöggjöfinni skattþegnum til hagsbóta, og klykkti út með því að segja: Væntanlegar breyt. á skattalöggjöfinni eru margfalt meira virði en allt, sem Hannibal Valdimarsson kom fram með, meðan hann var og hét.

Ja, það er ágætt, ef svo verður. En mér finnst nú óneitanlega, að þessi hæstv. ráðh. geri fullmikið að því að gera mikið úr innihaldi væntanlegrar lagasetningar, sem hann ætli að koma með, og væntanlegum aðgerðum, sem hann ætli að framkvæma. Hann hafði t.d. í útvarpsumræðunum frekar lítið að segja um þann sparnað, sem hann væri búinn að framkvæma, en hann hafði lifandi ósköp að segja um þann væntanlega sparnað, sem hann ætlaði að framkvæma að ári, og slíkur sparnaður er frekar lítils virði. Hann væri betri, ef hann væri orðinn staðreynd. Og nú fáum við að vita, að þetta atriði. sem hér var lögfest til skattívilnana fyrir starfandi fólk, sé lítils virði samanborið við öll þau skattfríðindi, sem nú standi til og hann ætli að koma með í væntanlegu skattafrv., sem Alþ. er ekki búið að sjá. Ég held, að hæstv. ráðh. gerði rétt í því að lofa heldur minna upp í ermina sína, bæði um stórkostlegan allsherjarsparnað og ívilnanir í skattalögum, sem Alþ. er ekki farið að sjá.