09.03.1960
Sameinað þing: 21. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í D-deild Alþingistíðinda. (3131)

67. mál, björgunartæki

Fyrirspyrjandi (Jón Skaftason):

Herra forseti. Þann 5. maí s.l. var samþykkt till. til þál. um athugun á nýjum björgunartækjum, og hljóðar hún svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta í samráði við Slysavarnafélag Íslands fara fram athugun á möguleikum til öflunar nýrra björgunartækja og fullkomnari útbúnaðar skipa til sköpunar aukins öryggis íslenzkra sjómanna og sjófarenda.“

Till. þessa fluttu þeir Bjarni Benediktsson, núv. hæstv. dómsmrh., og alþingismennirnir Eggert Þorsteinsson, Einar Olgeirsson og Steingrímur Steinþórsson.

Rétt áður en till. þessi var flutt, höfðu hörmuleg sjóslys og stórfelld orðið hér við land, og m.a. hafði íslenzkt skip farizt á Nýfundnalandsmiðum og með því látið lífið 42 íslenzkir sjómenn.

Tillögumenn töldu, að þessi hroðalegu sjóslys vektu þá spurningu, hvort enn þá mætti ekki betrumbæta björgunartæki og björgunartækni og lögðu því til, að ríkisstj. léti í samráði við Slysavarnafélag Íslands fara fram rannsókn á möguleikum til öflunar nýrra björgunartækja og fullkomnari útbúnaðar íslenzkra skipa til sköpunar aukins öryggis sjómanna og sjófarenda. Þar sem mér er ekki kunnugt um, að hv. Alþingi hafi verið gerð grein fyrir framkvæmd þessarar rannsóknar og niðurstöðum hennar, hafi hún verið framkvæmd, og málið er enn þá mjög mikilsvert, hef ég leyfi mér að bera fram fsp. þessa.