09.03.1960
Sameinað þing: 21. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í D-deild Alþingistíðinda. (3132)

67. mál, björgunartæki

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Strax eftir að þessi þáltill. hafði verið samþykkt eða fyrstu daga maímánaðar sendi ég hana til skipaskoðunarstjóra, til þess að hann léti fara fram þá athugun, sem þar er óskað eftir. Ég hef þess vegna nú beðið skipaskoðunarstjóra að svara því, hvað þessum málum líði og hvað gert hafi verið til þess að verða við þeirri áskorun, sem í þáltill. felst. Ég tel bezt fara á því, að ég lesi upp bréf skipaskoðunarstjóra í heild, því að það lýsir gangi málsins mjög ýtarlega. Hann segir svo:

„Samkvæmt beiðni ráðuneytisins skal hér með látin í té umsögn um þingsályktun um athugun á nýjum björgunartækjum, er samþykkt var á Alþingi 5. maí 1959, sem og fyrirspurn til ríkisstj. um, hvað liði framkvæmd tillögunnar.

Umrædd þál. hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta í samráði við Slysavarnafélag Íslands fara fram athugun á möguleikum til öflunar nýrra björgunartækja og fullkomnari útbúnaðar skipa til sköpunar aukins öryggis íslenzkra sjómanna og sjófarenda.“

Í maímánuði 1959, skömmu eftir samþykkt þáltill., átti Emil Jónsson ráðherra tal við mig um málið. Skýrði ég honum þá frá þeim nýjungum, sem þegar eru fram komnar og ég vissi að í undirbúningi voru ytra á sviði björgunartækja á sjó, sem og þeim ráðstefnum um þessi mál, sem fram undan væru. Var þá m.a. fram undan fundur Kaupmannahafnarsamþykktarlanda um skipaöryggismál, og hafði ráðherra þá þegar ákveðið, að ég skyldi mæta á þeim fundi, en hann var haldinn í Ósló dagana 25.–30. maí 1959. Enn fremur fól ráðherra mér framvegis sem hingað til að fylgjast sem vandlegast með nýjungum í þessum málum og leita umsagnar þeirra aðila, er mér þætti rétt og skylt hverju sinni.

Í samræmi við þessa ákvörðun, að loknum fundinum í Ósló, framhaldsfundum í sama máli ytra og viðræðum við ýmsa skipstjóra og sjómenn hér heima, gerði ég tillögu, dags. 21. ágúst 1959, um breyt. á auglýsingu nr. 3 1957 um breyt. á reglum nr. 11 frá 1953, um eftirlit með skipum og öryggi þeirra. Fór ég þess á leit, að ráðuneytið leitaði umsagnar nokkurra aðila um málið.

Svör bárust frá eftirtöldum aðilum: Frá Slysavarnafélagi Íslands, dags. 16. nóv. 1959, frá Fiskifélagi Íslands, dags. 17. nóv. 1959, frá Alþýðusambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Sjómannafélagi Reykjavíkur, dags. 9. nóv. 1959, og frá Landssambandi íslenzkra útvegsmanna, dags. 3. des. 1959.

Hér var um að ræða ýmsar breytingar og nýjungar, sem fram hafa komið undanfarið, m.a. um aukna notkun gúmmíbjörgunarbáta, og var þá m.a. stuðzt við slæma reynslu af hinum þungu trébjörgunarbátum á togurunum og lagt til, að leyft yrði að búa togarana einum skipsbáti, en auka um leið fjölda gúmmíbjörgunarbáta upp í tvöfalda áhöfn. Öll þessi samtök voru hins vegar í meginatriðum andvíg þessum brtt. Auk þessa telja sjómannasamtökin, að öll skip niður í 30 brúttó-rúmlestir skuli að nýju búin skipsbátum úr föstu efni, ef þau koma ekki daglega að landi.

Þessi svör eru að mínum dómi í ósamræmi við almenna framvindu björgunartækjamála bæði hérlendis og erlendis. Nágrannaþjóðir okkar telja nú öryggi bezt borgið með því að búa svo til öll fiskiskip og jafnvel stór farþegaskip nær eingöngu gúmmíbjörgunarbátum. Á minni skipum en 100 rúmlesta hefur oft reynzt erfitt að koma fyrir bátapalli og bátsuglum fyrir trébjörgunarbát, og mjög erfiðlega gengur að fá áhafnir til að skilja, að þess gerist nokkur þörf, þegar gúmmíbjörgunarbátur er um borð.

Að fengnum þessum svörum varðandi nýjungar á sviði björgunartækjabúnaðar taldi ég rétt að bíða átekta, þar til séð yrði, hverra frekari frétta af nýjungum yrði að vænta á næstunni, fram til alþjóðaráðstefnunnar um öryggi mannslífa á hafinu í London í sumar.

Um björgunartæki og öryggisbúnað skipa yfirleitt er því svo háttað, að Ísland er aðili alþjóðasamþykktar um öryggi mannslífa á hafinu frá 1948. Sömuleiðis er Ísland þátttakandi í störfum Kaupmannahafnarsamþykktarlandanna, en í þeim eru öll Norðurlöndin og Holland. Kaupmannahafnarsamþykktarlöndin hafa með sér fundi árlega og stundum oft á ári og eru sem gestir oft þátttakendur frá ýmsum öðrum þjóðum á þessum fundum. Skipaskoðunarstjóri hefur undanfarin ár mætt á flestum þessara funda. Þar eru ræddar allar þær nýjungar, sem fram koma, og hvers skuli krefjast til þess að auka svo sem frekast er unnt öryggi allra sjófarenda. Á þessum fundum mæta margir sérfræðingar, hver í sinni grein, og skipzt er á skoðunum og nýjustu reynslu. Framleiðendur ýmissa björgunartækja og uppfinningamenn nýrra hafa sótzt mjög eftir því að fá að sýna þátttakendum allar helztu nýjungar og hugmyndir, og hefur því yfirleitt alltaf verið vel tekið, því að allir hafa fundarmenn einhuga óskað þess að bæta sem bezt þann útbúnað, sem til aukins öryggis megi verða. Hitt er svo annað mál, að ekki eru allar nýjungarnar gallalausar eða til bóta, og verður að sjálfsögðu að meta hverja nýjung að verðleikum.

Í fundargerðum frá þessum fundum er að finna margan og mikinn fróðleik og hugmyndir um þessi mál, og eru fundargerðir, sem fjölritaðar eru að fundum loknum, oft hundruð blaðsíðna, þó að ekki sé alls getið í smáatriðum.

Ef um er að ræða athyglisverða nýjung, er reynt að koma henni á framfæri til frekari reynslu, og ef hún reynist jákvæð, þá er mæit með, að sett verði þar um nánari ákvæði í reglum.

Glöggt dæmi um slíka ákvörðun er Kaupmannahafnarsamþykktarlandafundurinn, sem haldinn var í London í febr.-marz 1957 um gúmmíbjörgunarbáta. Í honum tóku raunverulega þátt flestallar Vestur-Evrópuþjóðir, sumar að vísu sem áheyrnarfulltrúar. Þar voru gúmmíbjörgunarbátar raunverulega staðfestir sem viðurkennd björgunartæki og þar með breytt í reynd ákvæðum alþjóðasamþykktarinnar frá London 1948.

Á þessum fundi í London 1957 voru ýmsar nánari reglur settar og samræmdar eldri reglum einstakra þjóða um framleiðslu, gerðir, búnað og eftirlit með þessum gúmmíbjörgunarbátum.

Nú er fram undan ný London-ráðstefna um öryggi mannslífa á hafinu, sem hefst 17. maí n.k. Vitað er, að mikill undirbúningur ýmissa framleiðenda og uppfinningamanna á björgunartækjum og öðru þessu viðvíkjandi hefur verið hafinn fyrir löngu. Munu því ýmsar nýjungar og endurbætur tækja, sem sýndar hafa verið og ræddar á undanförnum fundum, verða lagðar fram fyrir þessa ráðstefnu. Má í þessu sambandi nefna radíóneyðarsenditæki, lítil fyrirferðar, birtuendurskinsfleti og radarendurskinsfleti á björgunartækjum og ýmsar gerðir fastra og uppblásinna björgunarfleka, björgunarbáta og björgunarvesta, svo að aðeins fátt sé nefnt.

Um radíóneyðarsenditæki má almennt geta þess, að þau eru enn sem komið er tæplega nógu langdræg né lítil fyrirferðar né nógu létt til þess, að þau geti fyllilega uppfyllt þær miklu vonir, sem menn gera sér til framtíðartækja af þessari gerð. Hins vegar fleygir allri tækni mjög fram á þessu sviði sem öðrum, og það er von manna, að sem fyrst komi fram tæki, sem væru það örugg og verkefni sínu það vel vaxin, að hægt sé að krefjast þeirra.

Þetta er að sjálfsögðu allt of mikið mál, til þess að hægt sé að skýra nánar hér frá einstökum tækjum og athugunum á þeim, en á milli funda er haft samráð bréflega um allar nýjungar og viðhorf til breyttra aðstæðna milli allra þátttökulanda Kaupmannahafnarsamþykktarlandanna. Svo til á hverjum degi berast bréf og eru send bréf frá Skipaskoðun ríkisins varðandi þessi mál.

Samkvæmt framansögðu tel ég varla hægt að fylgjast betur með nýjungum í þessum málum en gert er sameiginlega af öllum stofnunum þátttökuríkjanna um öryggi mannslífa á hafinu. Nánari athugun á öflun nýrra björgunartækja og fullkomnari útbúnaðar skipa væri því varla hugsanleg, nema viðkomandi aðili yrði um leið fastur starfsmaður Skipaskoðunar ríkisins. Þar eru þegar án efa fyrir hendi fyllstu upplýsingar um þær athuganir, sem gerðar hafa verið. Ef gera ætti sérstakar íslenzkar uppfinningar í þessum málum, þá teldi ég nauðsynlegt, að viðkomandi kynnti sér sem bezt þau gögn, sem þegar eru fyrir hendi. Ef vinna á að þessum málum sjálfstætt hér á landi, væri þá um leið nauðsynlegt að setja á fót rannsóknarstofnun, sem hefði til umráða sérstaklega tæknimenntaða menn og nægilegt húsrými til tilrauna með ýmis tæki og framleiðslu tilraunatækja. Þetta er hins vegar svo mikið fjárhagslegt atriði, að ég teldi skynsamlegra að binda sig ekki við það fyrst og fremst að finna nýjungar, heldur fullreyna þau tæki, sem fram koma á alþjóðavettvangi og líkleg mega teljast til árangurs við íslenzkar aðstæður.

Ekki er vafi á því, að mesta framför á sviði björgunartækja á sjó á undanförnum árum er gúmmíbjörgunarbáturinn. Hér á landi er notkun hans nú nokkurn veginn komin í fullkomið horf hvað snertir skoðun og viðhald, en sérstakir skoðunar- og viðgerðarmenn, viðurkenndir af Skipaskoðun ríkisins, eru til þeirra starfa. Reynt hefur verið nokkrum sinnum að kenna áhöfnum skipa notkun gúmmíbjörgunarbáta í sundlaugum víða um land, þótt þetta heyri reyndar ekki samkvæmt núgildandi reglum til verksviðs Skipaskoðunar ríkisins. Hér tel ég þó, að enn mætti bæta öryggi gúmmíbátanna felst í því samtímis, að báturinn sé alltaf í fullkomnu lagi og að áhöfn hvers skips þaulþekki þetta tæki, meðferð þess og hvernig það bezt kemur að gagni, þegar það er uppblásið. Sé það vilji Alþingis að veita aukið fé til aukins öryggis íslenzkra sjómanna og sjófarenda, þá tel ég raunhæfustu leiðina til aukins árangurs eftirfarandi, eins og málum er háttað í dag: Að ráðinn verði sem fastur starfsmaður við Skipaskoðun ríkisins fær maður til að hafa með höndum sérstaka yfirstjórn með öllum gúmmíbátum og gúmmíviðgerðarstöðvum á landinu og stuðla að því að sjá um, að ávallt séu fyrir hendi í landinu nauðsynlegir varahlutir til viðgerðanna. Enn fremur skal sami maður, eftir því sem tími leyfir, ferðast um landið og halda sýnikennslu í notkun gúmmíbjörgunarbáta í öllum verstöðvum fyrir vertíðir og endranær, þegar tækifæri býðst. Til þess að slíkur maður geti annazt starf sitt, þarf hann við og við að fara á þau námskeið, sem haldin eru hjá hinum ýmsu framleiðendum gúmmíbáta, til að kynna sér allar nýjungar. Enn fremur verði Skipaskoðun ríkisins veittur fjárstyrkur til að festa kaup á eða taka að láni gegn leigu þau tæki, sem koma kunna á markað erlendis og telja verður líklegt að til gagns megi verða hér. Verði síðan hér gerðar raunhæfar tilraunir á tækjum þessum, áður en ákvörðun er tekin um, hvort krefjast beri þess búnaðar eða ekki.“

Þetta er undirritað: „Hjálmar Bárðarson skipaskoðunarstjóri. “

Eins og fram kemur af þessu bréfi skipaskoðunarstjóra, ætla ég, að fylgzt hafi verið eins grannt með öllum nýjungum, sem fram hafa komið á þessu sviði, og hægt er. Ísland er, eins og í bréfinu stendur, aðili að alþjóðasamtökum til þess að tryggja öryggi og líf manna á hafinu og hefur nú nýlega gerzt aðili að alþjóðasamtökunum IMCO, sem eru á vegum Sameinuðu þjóðanna sett á laggirnar til þess að tryggja þessi mál enn betur. Þessi stofnun heldur alþjóðafundi í London í maímánuði, eins og líka kemur fram í bréfinu, og þangað hefur verið ákveðið að skipaskoðunarstjóri fari til þess að kynna sér þessi mál sem allra bezt.

Nú varð ekki, eins og líka fram kemur í bréfi skipaskoðunarstjóra, fullt samkomulag á milli þeirra samtaka, sem þar eru nefnd, um breytingu þá á reglugerð um skipaskoðun, sem skipaskoðunarstjóri taldi rétt að gera síðast á árinu sem leið, en frekar verður sennilega ekki aðhafzt í því máli, fyrr en Londonráðstefnunni er lokið og nýjar og fyllstu upplýsingar, sem fyrir hendi eru, liggja þá fyrir.