23.03.1960
Sameinað þing: 28. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í D-deild Alþingistíðinda. (3136)

96. mál, niðurgreiðsla fóðurbætis

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er ekki nema sjálfsagt að svara fram kominni fyrirspurn, og ætti það ekki að taka langan tíma.

Það er rétt, að ég hef áður sagt frá því, að áburður og fóðurbætir mundi verða greiddur niður að þessu sinni, og það er m.a. vegna þess, að afkoma bændanna varð slík s.l. ár, sem sérstaklega kom fram við s.l. áramót, að það er ekki hægt að búast við því, að þeir geti keypt áburð og fóðurbæti á fullu verði að þessu sinni, áður en nokkur hækkun er fram komin á framleiðsluvörunni. En eins og nú er komið með breyt. á framleiðsluráðslögunum, kemur hækkun á rekstrarvörum inn í verðgrundvöllinn mánuði eftir að þær eru keyptar, en ekki einu sinni á ári eins og áður. En fulla hækkun munu bændur samt sem áður ekki hafa fengið á framleiðsluvöru sinni fyrr en eftir nokkra mánuði og hafa þess vegna ekki í handraða nú peninga til þess að leggja fram fyrir hækkaðan áburð og fóðurvörur,

Hv. fyrirspyrjandi telur, að fóðurbætir muni hækka um 43–50%, ef ekkert er að gert. Þetta mun láta nokkuð nærri lagi. Ég hef gert mér hugmynd um, að það væru 46–47% að meðaltali. Hins vegar liggur það fyrir nú, á hvaða verði fóðurbætirinn er seldur, og ég hef hér í höndunum bréf frá Mjólkurfélagi Reykjavíkur, sem er annar stærsti fóðurbætissalinn í landinu, og þar segir, að fóðurblandan hafi nú hækkað um 12.6% í útsölu. Þar segir enn fremur, að þegar fullnaðarhækkun sé komin á fóðurblönduna, muni hún hækka um 14–15%. Og þar segir enn fremur, að útsöluverðið á fóðurblöndunni í dag sé 3.88 kr., en hafi verið fyrir hækkun 3.44 kr. Það liggur þá fyrir, að fóðurblandan mun hækka í útsölu um 14–15%, en ekki 46–17%. Hins vegar mun maísmjöl hækka eitthvað lítið eitt meira, e.t.v. 18–19%, en það eru fáir, sem gefa það eingöngu, og aðalatriðið fyrir bóndann er það, hvað fóðurblandan hækkar, því að það er algilt fóður, hvort sem er fyrir sauðfé eða nautgripi.

Ég ætla, að þetta sé nægilegt svar í sambandi við fóðurbætinn.

Þá er að athuga með áburðinn. Það er ekki enn búið að ákveða til fulls útsöluverð á áburði. En ég get upplýst, að innfluttur áburður hefur hækkað mikið í verði við þær aðgerðir, sem fram hafa komið, og það mun láta nærri, að það sé um 50%. Ef ekkert væri gert í þessum málum til þess að lækka áburðinn, mundi því þrífosfatpokinn kosta 296 kr. En enda þótt ekki sé búið að ákveða útsöluverðið, hygg ég, að það muni verða 225 kr. eða nærri því, Kali hefði kostað 134 kr., en ég hygg, að það muni verða selt á 108 kr. Blandaður áburður hefði kostað 145 kr. pokinn, en ég hygg, að hann muni verða seldur á 117 kr. Og þá eru innfluttu áburðartegundirnar upp taldar, a.m.k. í aðalatriðum. Af þessu má sjá, að um allmikla verðlækkun er að ræða á áburðinum.

Um Kjarnann eða innlenda áburðinn er það að segja, að hann þarf að hækka um a.m.k. 100 kr. á tonn. Tonnið var selt á 2300 kr. í fyrra og yrði þá selt núna á 2400 kr. Það hefur komið til tals að selja tonnið af Kjarnanum á 2500 kr. og greiða þá 5 kr. af hverjum poka til lækkunar á innfluttum áburði, gera þannig dálitla verðjöfnun, til þess að bændur freistist ekki til þess að nota of mikið af Kjarna eða einhæfum áburði og snuða þannig jarðveginn um þau efni, sem hann nauðsynlega þarf til þess að skila góðri uppskeru. Þetta kemur fram næstu daga, og það er ekki hægt að segja, að Kjarninn sé dýrt seldur, þó að pokinn kosti 125 kr. á móti 115 kr. í fyrra. En er þetta er hægt og Kjarninn þarf ekki að hækka meira en þetta, þá er það vegna þess, að rekstur áburðarverksmiðjunnar s.l. ár gekk vonum betur, enda þótt takmarkað væri að nokkru rafmagn til rekstrarins. Af þessu má sjá, að hollt er heima hvat og það væri gott fyrir íslenzka bændur og íslenzku þjóðina, ef við gætum orðið sjálfum okkur nógir með áburð. En það er annað mál. — Það gæti þess vegna komið til greina að nota rúmar 2 millj. kr. frá áburðarverksmiðjunni til niðurgreiðslu eða lækkunar á innfluttum áburði. En hvað sem því líður, þó að það verði ekki gert, verður eigi að síður allveruleg lækkun á innfluttum áburði vegna niðurgreiðslu eða tilsvarandi því, sem er á fóðurbætinum.

Það má vel vera, að sumum finnist óþarft að vera að greiða þessar vörur niður, a.m.k. þeim, sem ekki þekkja ástæðurnar til fulls. En það er nú svo, að vörur eru hér greiddar niður, innlendar vörur til þess að halda niðri vísitölunni, og vitanlega hækka innlendu vörurnar minna í verði fyrir það, að fóðurbætir og áburður er greiddur niður. Það hlýtur að leiða til þess. Verkamannastjórnin norska hefur haft þá aðferð að greiða niður fóðurbæti. Og þegar menn athuga það í ró, þá sýnist það ekki vera neinn glæpur, úr því að við búum að einhverju leyti við það kerfi að greiða niður vörur. Hins vegar er ljóst, að að þessu sinni er það hagræði fyrir bændurna, vegna þess að eins og ég áðan sagði, hafa þeir ekki enn fengið þá hækkun á framleiðsluvörunum, sem þeir eiga að fá, og vegna þess að ekki hefur verið vel að þeim búið að undanförnu, þá er hagur þeirra þannig nú, að þeir mundu þurfa að draga saman seglin, og það gæti valdið miklum erfiðleikum og beinlínis hættuástandi í þjóðfélaginu, ef bændurnir hættu að nota áburð, hættu að bera nægilega mikið á jörðina til þess að fá gras. Það gæti leitt til þess, að við framleiddum ekki nægilega mikið fyrir innlenda markaðinn af mjólk og mjólkurvörum, og það gæti leitt til þess, að bændastéttin í heild drægi saman seglin og sæi þann kost vænstan að hætta við landbúnaðarstörf.

En enda þótt ýmsir finni að því og hafi stundum nokkuð til síns máls um það, að landbúnaðurinn sé ekki rekinn á þann hátt, sem æskilegast væri, þá held ég, að menn geti verið sammála um, að með þeirri fólksfjölgun, sem nú er í landinu, væri óheilbrigt, ef stórkostlegir fólksflutningar færu að eiga sér stað utan úr sveitum til bæjanna. Fólkinu hefur fækkað í sveitunum, og því má ekki fækka þar meira, Og það kemur vitanlega að því, að því þarf að fara að fjölga þar aftur til þess að halda uppi því jafnvægi, sem þarf að vera á milli kaupstaða og sveita.

Ég held, að ég hafi svarað þessari fsp. nægilega, svo að það liggi ljóst fyrir, að fóðurbætir og áburður er að þessu sinni greiddur niður að verulegu leyti.