30.03.1960
Sameinað þing: 32. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í D-deild Alþingistíðinda. (3142)

96. mál, niðurgreiðsla fóðurbætis

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að skipta mér af umr. um þessa fsp., enda er í sjálfu sér eðlilegast, að umr. um þessar fsp. séu stuttar og þá þannig, að það sé einkum sá, sem spyr, og ráðh., sem svarar, sem taka þátt í umr. En ég kvaddi mér hljóðs vegna þess, að mér blöskraði svo framkoma hæstv. landbrh. í sambandi við þessa fsp., að ég gat ekki á mér setið, sérstaklega vegna þess, að sá, sem spurði, hafði ekki rétt til að tala aftur, eftir að hæstv. ráðh. talaði í síðara sinn hér á dögunum.

Þessi fyrirspurnatími er hugsaður þannig, að það séu fluttar stuttar fsp. og þeim sé svarað stutt og skýrt, og ef menn hafa ekki á reiðum höndum skýr og ákveðin svör við því, sem spurt er um, þá láti menn það koma fram hreinskilnislega. En þetta vill sækja í það horf, að sumir hæstv. ráðh. svara með löngum vífilengjum, eins og hæstv. ráðh. gerði hér á dögunum, sem ekki fékkst nein niðurstaða af. Kvartaði þá fyrirspyrjandi yfir því, og notaði til þess síðari ræðutíma sinn, en þegar hann hafði flutt fram þá rökstuddu kvörtun, notaði hæstv. ráðh. síðari ræðutíma sinn til þess að storka fyrirspyrjanda og flytja fram ýmsar pólitískar slettur, eftir að hann gat ekki lengur tekið til máls, m.a. sagði ráðh. þá smekklegu setningu, að sjálfsagt hefðu allir skilið svar sitt við fsp. nema sá, sem flutti fsp., og annað var eftir þessu.

Ég kvaddi mér hljóðs til þess að bera hér eins konar vitni um það, að ég skildi ekki hæstv. ráðh. frekar en fyrirspyrjandi og fannst ég vera nokkuð jafnnær um svör við fsp. En ef þessar fsp. eiga að verða að því gagni, sem hv. Alþingi hefur ætlazt til, þá þarf að koma þeim hætti á, að þessar umr. séu stuttar, spurningarnar stuttar og svörin stutt. Þetta er nefnilega gert fyrst og fremst til þess, að það sé aðgangur að því að fá upplýsingar, en ekki til þess, að í sambandi við þetta séu þreyttar stórkostlegar pólitískar kappræður. Það hefur aldrei verið ætlunin í sambandi við fyrirspurnatímann.

Ég vil nú í framhaldi af þessu benda hæstv. ráðh. á, að mér finnst, að það sé rétt, að hann svari þessari fsp. á þann hátt, sem hún gefur tilefni til, og það er auðvitað átt við með fsp., hvað niðurgreiðslurnar eigi að verða miklar á fóðurbæti og áburði, og þá er auðvitað einfaldast að svara því þannig að gefa það upp, hvað niðurgreiðslurnar eiga að verða á kg eða hver 100 kg af fóðurblöndu og helztu tegundum áburðar. Og ég vil spyrja hæstv. ráðh. að því: Hvað eiga niðurgreiðslurnar að verða miklar á kg eða 100 kg af helztu tegundum áburðar og fóðurbætis? Og hvað verður þá verðið á fóðurbæti og áburði, helztu tegundum? Þetta er það, sem máli skiptir, en var óljóst af því, sem kom fram um daginn. Það var ekki hægt að finna þetta af því, sem hæstv. ráðh. sagði, hvernig sem á því stóð. E.t.v. hafa það verið einhver mistök, en þá er hægt að bæta úr því. Þetta er það eina, sem máli skiptir í sambandi við þessa fsp., og svo það þá, ef ráðh. vildi líka í leiðinni upplýsa, hvað það mundi kosta mikið þjóðarbúið að greiða niður fóðurbætinn annars vegar og áburðinn hins vegar. Um þetta er fsp., og um þetta þyrfti svarið að vera.

Ef hæstv. ráðh. hefur ekki enn þá ákveðið þetta alveg eða hans félagar, þá er ekkert við því að segja, þá er eðlilegast, eins og hv. flm. fsp. benti á, að fresta umr. um hana, þangað til þetta liggur fyrir. Það er náttúrlega ekki von, að hæstv. ráðh. geti svarað þessu, ef ekki er búið að ákveða það. En ef búið er að ákveða það, þá ætti ekki að þurfa um þetta neitt þras, heldur ætti að vera hægt að gefa um það einfaldar upplýsingar á þessa lund.