30.03.1960
Sameinað þing: 32. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í D-deild Alþingistíðinda. (3144)

96. mál, niðurgreiðsla fóðurbætis

Eysteinn Jónsson:

Það staðfestist nú hjá hæstv. ráðh. (IngJ), sem áður var vitað, hversu óljóslega var um málið fjallað á dögunum, enda kannske ekkert einkennilegt, þegar það kemur í ljós nú, að ákvörðunum var þá ekki í raun og veru fulllokið, En þá hefði hæstv. ráðh. bara átt að segja það strax í stað þess að vera með þessar vífilengjur, sem ég kallaði. Hann sagði, að nú sæju menn, hvað niðurgreiðslan væri mikil, vegna þess að nú væri verð komið bæði á fóðurbæti og áburð og hefði orðið eins og hann hefði þá talið að mundi verða. En ég vil benda á það í þessu sambandi, að ég man ekki til þess, að hæstv. ráðh. hafi um daginn greint frá því, hversu mikið væri greitt niður á hver 100 kg af fóðurbæti eða 100 kg af áburði, og það hefur hæstv. ráðh. ekki gert enn. Ég hygg, að hann hafi ekki gert það um daginn, og ekki gerði hann það nú. En það er það, sem spurt er um í fsp., hversu mikil niðurgreiðslan sé. Nú er það augljóst orðið, að verðið á að vera eins og það er í dag. En þá kemur spurningin, sem hér hefur verið lögð fram skrifleg og ekki enn svarað, svo að ég hafi skilið, hvað niðurgreiðslan sé á kg eða hver 100 kg af þessum vörum og hvað verði mikil útgjöld samtals við að greiða niður annars vegar fóðurbætinn og hins vegar áburðinn. Ef einhver hv. þm. hefur fengið það út úr því, sem hæstv. ráðh. sagði um daginn, og því, sem hann sagði núna, hvernig þetta er, þá væri æskilegt, að hann gæfi sig fram og vitnaði þá um þetta. En það hefur þá algerlega farið fram hjá mér, ef hæstv. ráðh. hefur yfirleitt komið nálægt því að svara fsp. Það eina, sem hann hefur svarað, er það, að hann gaf í skyn á dögunum, hvað verðið mundi kannske verða, eins og það nú er orðið. En þar með er ekki fsp. svarað. Hún er ekki um það. Hún er um hitt, hve mikið er greitt niður.

Þá sagði hæstv. ráðh., að ég mundi ekki alltaf hafa haldið þetta boðorð eða reglu, sem ég var að setja hér áðan fyrir fyrirspurnum. Ég veit að vísu, að hæstv. ráðh. hefur talsvert að gera, en hann gæti látið einhvern annan fara í að gá að því, hvort ég muni hafa haldið þetta boðorð. Sannleikurinn er sá, að ég hef einmitt gert mér far um að halda það boðorð með því að svara fyrirspurnum stutt og halda mig alveg við það, sem spurt var um. Það er vegna þess, að ég er mjög fylgjandi því, að það verði að fastri venju í þinginu, að það sé spurt stutt og svarað stutt. Ég álít, að það sé mjög mikill fengur að því fyrir þinghaldið að hafa fastan fyrirspurnatíma og það eigi að nota hann þannig, en ekki gera hann að almennum umræðum fram og aftur um landsmálin. Það er ekki endilega nauðsynlegt eða alltaf hægt að búast við því, að menn spyrji hlutlaust, og það geta verið pólitískar spurningar, en reynt sé að koma þessu þannig fyrir, að fyrirspurnatímarnir verði að því gagni, sem menn höfðu hugsað sér. Og hæstv. ráðh. getur vel athugað, hvort ég hafi nálgazt að halda þetta boðorð. Ég held, að svo hafi einmitt verið, af því að ég hef gert mér far um það frá byrjun.

Þá sagði hæstv. landbrh., að bændur væru í úlfakreppu, og ræddi nokkuð um það. Ég býst við því, að það megi til sanns vegar færa, að bændur séu í úlfakreppu, og þeir munu vel vita það, hver úlfurinn er, sem hefur sett þá í þá kreppu. Það er hæstv. núv. landbrh.