30.03.1960
Sameinað þing: 32. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í D-deild Alþingistíðinda. (3147)

96. mál, niðurgreiðsla fóðurbætis

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er í rauninni sama spurningin, sem hv. 3. þm. Vesturl. (HS) og hv. 1. þm. Austf. (EystJ) bera hér fram, hversu mikil niðurgreiðslan sé á hvert kg eða á hver 100 kg. Ég tel ekki ástæðu til að fara að nefna tölur hér að þessu sinni. En ég leyfi mér að vitna í þær tölur, sem ég nefndi hér s.l. miðvikudag, þar sem greint var frá, hvað áburðurinn hefði kostað, ef hann hefði ekki verið greiddur niður. Það var skýrt tekið fram, hversu dýr áburðurinn mundi vera, ef hann hefði ekki verið greiddur niður. Það var einnig tekið fram, á hvaða verði hann er nú seldur. Ég tel, að þetta sé svo auðvelt reikningsdæmi að reikna, að allir hv. þm. geti gert sér grein fyrir því, hvað hér er um mörg prósent að ræða, og ætla ég þess vegna ekki að nefna það hér. Sama máli gegnir um fóðurbætinn. Það liggur fyrir skjalfest, að hann hefði hækkað um 47%, ef hann hefði ekki verið greiddur niður. Það liggur fyrir tölulega, að maísmjöl og skyldar tegundir hækka um 19% þrátt fyrir niðurgreiðslurnar og að fóðurblandan hækkar um 14% þrátt fyrir niðurgreiðslurnar. Hér er einnig létt dæmi og áreiðanlega ekki nema ein óþekkt, ef á að setja það niður í jöfnur. Og ég veit, að hv. 1. þm. Austf. og hv. 3. þm. Vesturl. geta báðir reiknað þetta dæmi og allir hv. þm., og þess vegna þarf ég ekki að nefna útkomuna úr því.

Hv. 6. þm. Sunnl. (KGuðj) endurtók hér, að það væri ekkert ætlað til niðurgreiðslna á fóðurbæti og áburði. Enda þótt hann sé í fjvn., þá bara segir hann það, þótt það séu 302 millj. kr. ætlaðar í þetta, þá bara segir hann: Það er ekkert ætlað í þetta, vegna þess að það er ekki tekið fram í grg. fyrir frv., að það eigi að greiða niður áburð og fóðurbæti. — Og þetta leyfir hann sér að segja, enda þótt allir hv. þm, hafi vitað löngu áður en fjárlög voru samþykkt, að þetta var ákveðið. Þetta var ákveðið, þegar ég boðaði það við setningu búnaðarþings, og þetta var ákveðið hér fyrir viku, þegar ég svaraði fsp. hv. 1. þm. Vesturl. En hvenær voru fjárlögin samþykkt? Þau voru samþykkt í gær. Þar af leiðir, að allir hv. þm. vissu það, úr því að niðurgreiðslur á fóðurbæti og áburði voru ekki í sérliði fjárlögunum, að niðurgreiðsla á þessum vörum hlýtur að takast af þessum eina háa lið, sem hv. 6. þm. Sunnl. þekkir vel, og ég skil ekki, hvers vegna hann er nú að reyna að veita þessu svona og teygja þetta hér, þar sem svo margt er að ræða hér um í þinginu annað. Ég veit, að hv. 6. þm. Sunnl. skilur þetta og hann þarf ekki að fá skýrari eða gleggri svör en hann hefur fengið, þótt hann komi í þriðja sinn og spyrji.