30.03.1960
Sameinað þing: 32. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í D-deild Alþingistíðinda. (3148)

96. mál, niðurgreiðsla fóðurbætis

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég geri ekki ráð fyrir því, að það beri neinn árangur að spyrja hæstv. ráðh. meira, því að hann hliðrar sér hjá að nefna hér tölur. Ég heyrði ekki heldur, að hann svaraði nú í sinni síðustu ræðu fsp. frá hv. 6. þm. Sunnl. (KGuðj) um það, hvort stjórnin hygðist draga úr niðurgreiðslu t.d. á mjólk, til þess að eiga auðveldara með að greiða niður þær vörur, sem hér hefur verið spurt um.

En það var eitt atriði, sem kom fram hjá hæstv. ráðh., sem ég vildi minnast á. Hann telur, að því er mér skilst af þeim orðum, sem féllu hjá honum, að það sé bændum mjög til hagsbóta, að það sé greitt niður verð á t.d. innfluttu fóðri. Nú er það svo, að ef aðkeypt fóður hækkar í verði, þá fá bændur hærra verð á sínum framleiðsluvörum samkv. þeim reglum, sem gilda um verðákvörðun á landbúnaðarvörum. Ég fæ því ekki séð annað en þetta komi nokkuð í sama stað niður fyrir vísitölubúið, sem svo er nefnt. Þar er gert ráð fyrir ákveðnu magni af erlendum fóðurvörum, og verðið á þeim hefur, eins og ég sagði, áhrif á það verð, sem bændur fá fyrir sínar afurðir. En að vísu getur það verið bændum til hagræðis að þurfa ekki að borga hærra verð fyrir fóðurvöruna, þegar þeir kaupa hana, þó að þeir fái svo síðar verðhækkunina endurgreidda í vöruverðinu, því að þeir verða vitanlega að bíða eftir þeirri greiðslu, þangað til vörurnar eru seldar. En beinn hagnaður reikningslega af þessu sé ég ekki að sé þarna fyrir hendi. En ég vil benda á það, að séu innfluttar fóðurvörur greiddar niður til muna, þá verður af því beint tap fyrir marga bændur í landinu. Það er til tjóns fyrir þá, sem nota lítið eða ekkert af útlendum fóðurvörum, það er lækkað fyrir þeim verðið á framleiðsluvörunum vegna þessarar niðurgreiðslu, en þeir njóta einskis, ef þeir kaupa ekki þessar útlendu fóðurvörur, og tel ég mjög varhugavert að skaða þá bændur, sem hafa kostað kapps um að koma heyöflun og heyverkun í sem bezt horf, þannig að þeir séu ekki háðir útlendingum um framleiðslu á fóðri handa búfénu. Þetta tel ég mjög óheppilegt. Og ef svo langt er gengið í því að greiða niður verð á innfluttu fóðri, að það verði miklu ódýrara en það fóður, sem menn afla hér heima á jörðum sínum, þá er þessi niðurgreiðsla vitanlega til mikils tjóns eða getur orðið það fyrir þá bændur, sem hafa komið innlendu fóðuröfluninni í gott lag, en það er það vitanlega, sem landbúnaðurinn þarf að byggjast á í framtíðinni. að hér sé aflað fóðurs á okkar eigin landi fyrir búféð, en það ekki sótt til annarra þjóða.