30.03.1960
Sameinað þing: 32. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í D-deild Alþingistíðinda. (3150)

96. mál, niðurgreiðsla fóðurbætis

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að þrátta við hv. 1. þm. Norðurl. v. um, hvort það er rétt að greiða niður fóðurbæti eða ekki. Ég held, að ég hafi heyrt það hér áðan, að hann taldi mjög vafasamt, að það væri rétt að gera það, — en látum það vera. En hv. þm. Ólafur Jóhannesson spyr: Var dæmið rétt reiknað eða ekki? Hv. 3. þm. Vesturl. spyr: Er niðurgreiðslan á fóðurbæti og áburði 30–35%? Ég spyr prófessorinn, hv. þm. Norðurl. v.: Er það rétt, er það 30 eða 35%, þegar fóðurbætirinn lækkar úr 47% niður í 19% ? Er það rétt, að það sé 30 eða 35% lækkun á áburði úr 296 kr. niður í 225 kr., — eða á fóðurbætinum, — það þarf auðvitað að nefna eitthvað fleira, svo að hægt sé að reikna, — er það rétt, að það sé 30 eða 35% lækkun á poka, sem mundi kosta óniðurgreiddur 180 kr., ef hann lækkar við niðurgreiðsluna í 140 kr.? Ég efast ekki um, að hv. þm. getur reiknað þetta. (Gripið fram í: Hvernig væri að láta hann svara fsp.?)