04.05.1960
Sameinað þing: 46. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í D-deild Alþingistíðinda. (3154)

139. mál, niðurgreiðsla á vöruverði

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Vegna fjarveru hv. þm. Halldórs Sigurðssonar vil ég leyfa mér að bera fram þær fsp., sem eru á þskj. 342 undir 1. lið. Það er í fyrsta lagi: „Hvaða vörutegundir eru nú greiddar niður, og hve miklu nemur niðurgreiðslan á hverri vörutegund, miðað við kg eða lítra?“ Og í öðru lagi: „Hvað er áætlað, að niðurgreiðsla á hverri vörutegund nemi miklu samtals á yfirstandandi ári?“

Það hlýtur að vekja athygli manna, ekki sízt nú á tímum, hversu niðurgreiðslur eru orðnar miklar og að með hverju árinu sem líður bætast við í hóp þeirra vörutegunda, sem greiddar eru niður, fleiri vörutegundir. Það er því von mín, að hæstv. ríkisstj. geti nú á þessu stigi upplýst, hvaða vörutegundir eru greiddar niður og hversu miklu fjármagni er búizt við að þær niðurgreiðslur nemi á yfirstandandi ári.

Ég hygg, að það muni nú liggja fyrir hjá hæstv. ríkisstj., hve miklu niðurgreiðslur hafa numið árið sem leið, og væri þá fróðlegt að fá að heyra það.