04.05.1960
Sameinað þing: 46. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í D-deild Alþingistíðinda. (3155)

139. mál, niðurgreiðsla á vöruverði

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Spurt er um það, hvaða vörutegundir séu nú greiddar niður og hversu miklu nemi niðurgreiðslan á hverri vörutegund, miðað við kg eða lítra, og hvað áætlað sé, að niðurgreiðslur á hverri vörutegund muni nema miklu samtals á yfirstandandi ári eða á árinu 1960. Ég mun sem svar við þessum fsp. lesa skrá um þær vörutegundir, sem nú í maíbyrjun 1960 voru greiddar niður, hversu miklu niðurgreiðslan nemur á einingu 2. maí 1960 og hver heildarkostnaðurinn við þær niðurgreiðslur verður á árinu 1960. Áður en ég les þessar tölur upp, vil ég gjarnan taka fram, að mér skal vera ánægja að því að afhenda fulltrúum þingflokkanna, sem þess óska, skýrslu um þessi efni til þess að spara þeim að skrifa upp þessar mörgu tölur, og auk þess er hægt að láta fylgja nokkru ýtarlegri upplýsingar um niðurgreiðslumálið en beinlínis er spurt um, þ.e. um áætlað ársmagn af þessum vörutegundum og hver árskostnaður er gert ráð fyrir að verði á hverri vörutegund og í heild, en á því er eilítill munur og á þeim kostnaði, sem mun til falla á árinu 1960.

Þær vörutegundir, sem greiddar eru niður, eru nú í maíbyrjun 1960 þessar:

Dilka- og geldfjárkjöt 9.53 kr. á kg, heildarkostnaður árið 1960 65 millj. 280 þús. kr. Ærkjöt, niðurgreiðsla á einingu 3.80 kr., heildarkostnaður 1 millj. 330 þús. Geymslukostnaður á kjöti 6 millj. Mjólk frá mjólkurbúum, niðurgreiðsla á einingu 2.53 kr., heildarkostnaður 83 millj. 796 þús. kr. Mjólk, send beint til neytenda, niðurgreiðsla á einingu kr. 1.61, heildarkostnaður 9 millj. 570 þús. kr. Rjómi frá 1. marz 1960 0.60 kr. á einingu, heildarkostnaður 500 þús. kr. Undanrenna 0.16 kr, á lítra, heildarkostnaður 124 þús. kr. Smjör, niðurgreiðsla á kg 34.35 kr., heildarkostnaður 36 millj. 979 þús. Skyr, niðurgreiðsla á kg 0.80 kr., heildarkostnaður 1 millj. 496 þús. kr. Mjólkurostur, niðurgreiðsla á kg 5.25 kr., heildarkostnaður 3 millj. 330 þús. Mysuostur, niðurgreiðsla á einingu 2.50 kr., heildarkostnaður 112 þús. kr. Nýmjólkurduft, einingarniðurgreiðsla 4.55 kr., heildarkostnaður 312 þús. kr. Undanrennuduft, niðurgreiðsla á kg 1.50 kr., heildarkostnaður 175 þús. kr. Niðursoðin mjólk, einingarniðurgreiðsla 56 aurar, heildarkostnaður 82 þús. kr. Kartöflur, niðurgreiðsla á kg 2.40 kr., heildarkostnaður 16 millj. 884 þús. kr. Geymslukostnaður kartaflna 900 þús. kr. Smjörlíki, niðurgreiðsla á kg 7.99 kr., heildarkostnaður 16 millj. 115 þús. kr. Saltfiskur, niðurgreiðsla á kg 6.30 kr., heildarkostnaður 5 millj. 670 þús. kr. Þorskur, nýr, niðurgreiðsla á einingu 1.90 kr., heildarkostnaður 3 millj. 675 þús. kr. Ýsa, ný, niðurgreiðsla á einingu 60.00 kr., heildarkostnaður 6 millj. 260 þús. kr. 20.6% niðurgreiðsla á kaffi, niðurgreitt af fob-verði kaffis frá 3. apríl 1960, 6 millj. 400 þús. kr. Sjúkrasamlagsiðgjöld 16 millj. 200 þús. kr. Samtals nema þessir liðir 281 millj. 190 þús. kr.

Auk þess ber að geta um tvenns konar niðurgreiðslu, sem hefur verið felld niður frá 1. maí 1960. Það er niðurgreiðsla á ull, gærum og skinnum, sem felld var niður í byrjun þessa mánaðar, 3 millj. kr., og niðurgreiðsla á manneldiskorni, kaffi og sykri á tímabilinu frá febrúarlokum til 8. apríl 1960, er sú niðurgreiðsla var felld niður, en hún nam á þessu tímabili 3 millj. 239 þús. kr., þannig að áætlaður kostnaður við niðurgreiðslur á árinu 1960 mun nema í heild 287 millj. 429 þús. kr.

Til viðbótar því, sem nú hefur verið gerð grein fyrir, skal það tekið fram, að ríkisstj. ákvað, um leið og efnahagsmálalögin voru samþ. á Alþ., að greiða niður innfluttan fóðurbæti og tilbúinn áburð, sem svarar til þess, að yfirfærslugjald á þessum vörum hækkaði úr 55% í 90%, en ekki í 133%, eins og almennt átti sér stað og svaraði til gengisbreytingarinnar. Hefur þetta verið framkvæmt á þann hátt, að fob-verð þessara vara, tilbúins áburðar og innflutts fóðurbætis, er greitt niður um 18.61%. Kostnaður við þetta er í ár áætlaður sem hér segir:

Niðurgreiðsla á innfluttum fóðurvörum 10 millj. kr., niðurgreiðsla á innfluttum tilbúnum áburði 6 millj. kr., eða samtals 16 millj. kr. Hér er þó ekki um að ræða viðbót við þann niðurgreiðslukostnað, sem ég nefndi áðan, þar eð ríkisstj. ákvað, um leið og þessi niðurgreiðsla kom til framkvæmda. að niðurgreiðsla á landbúnaðarvörum til neytenda skyldi lækkuð sem henni svarar. Er gert ráð fyrir því, að niðurgreiðsla á landbúnaðarvörum til neytenda verði lækkuð um sömu tölu vísitölustiga og niðurgreiðslu innflutts fóðurs og áburðar nemur.

Vænti ég, að með þessu sé fullsvarað fsp. tveimur á þskj. 342.