04.05.1960
Sameinað þing: 46. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í D-deild Alþingistíðinda. (3160)

903. mál, framlag til byggingarsjóðs

Fyrirspyrjandi (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. félmrh., sem prentuð er á þskj. 342, um það, hvenær vænta megi framlags þess til byggingarsjóðs ríkisins, sem ríkisstj. tilkynnti hinn 21. febr. s.l. að hún mundi útvega sjóðnum.

Spurning þessi er svo einföld í sniðum og um svo alkunnugt málefni, að það er óþarfi að hafa um hana langt mál, enda mun ég ekki gera það við þetta tækifæri eða fara almennt út í að ræða byggingarmálin, en aðeins fylgja fsp. eftir með nokkrum orðum í von um, að hæstv. félmrh. geti gefið skýrt svar við spurningunni.

Hinn 21. febr. s.l. gaf ríkisstj. út fréttatilkynningu, þar sem m.a. var boðuð mjög veruleg almenn vaxtahækkun í landinu, og náði þessi vaxtahækkun m.a. til hinna sérstöku byggingar- og stofnlánasjóða, þ. á m. til byggingarsjóðs ríkisins. Í sambandi við þessa miklu vaxtahækkun og þar með verulega skert lánskjör til íbúðarhúsabyggjenda tilkynnti ríkisstj., að hún hefði ákveðið að gera ráðstafanir til þess að afla 40 millj. kr. til íbúðalána á þessu ári umfram fastar tekjur byggingarsjóðsins. Þessari yfirlýsingu hæstv. ríkisstj. var að sjálfsögðu fagnað af öllum þeim mörgu mönnum, sem í húsbyggingum standa, og var það almennt trú manna, enda studd við gild rök, að mjög fljótlega yrði hægt að úthluta þeirri upphæð, sem þarna var um talað. En svo sem mönnum er kunnugt, hefur dráttur orðið á því, að ríkisstj. framkvæmdi fyrirheit sitt um aukna fjárveitingu til húsbyggingarlána, en því meir sem það dregst, því ákafar fýsir almenning að vita, hverjar lyktir málið fær, og því er þessi fsp. fram komin, að mér er það ljóst, að húsbyggjendur í landinu biða í ofvæni eftir því, að ríkisstj, efni fyrirheit sitt.

Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið um fjölda þeirra manna, sem sótt hafa um lán hjá húsnæðismálastjórninni og enga úrlausn hafa fengið eða þá aðeins úrlausn að nokkru leyti, þá voru þeir hinn 1. apríl s.l., eða fyrir rúmum mánuði, 1842 talsins og þar af höfðu 1130 alls ekkert lán fengið, en bíða nú með íbúðir sínar fokheldar og þannig lánshæfar. 217 af þessum 1842 umsækjendum hafa þegar fengið 70 þús. kr. lán, en sækja um a.m.k. 30 þús. kr. viðbótarlán hver, og 495 umsækjendur, sem fengið hafa mjög óveruleg lán til þessa, sækja um hærri viðbótarlán, og má gera ráð fyrir, að þau verði vart undir 60 þús. að meðaltali á umsækjanda. Lánsfjárþörf, miðað við þessar 1842 umsóknir, er áætluð um 150 millj. kr. Þar af eru þessir nýju umsækjendur 1130, og ef reiknað er með, að það yrðu 100 þús. kr. á íbúð, þá yrðu það 113 millj., viðbótarlán við 70 þús. kr. lánið, sem menn hafa fengið, mundu verða 6.5 millj. og önnur viðbótarlán 29 millj, eða nær 30 millj.

Auk þessara 1842 umsókna liggja fyrir húsnæðismálastjórninni 127 umsóknir um lán út á íbúðir, sem ekki standast það mat, sem húsnæðismálastjórn leggur á, er hún dæmir um lánshæfi íbúðanna. Ef svo færi að þessar íbúðir, sem ekki eru taldar lánshæfar eftir núgildandi reglum, væru teknar með, t.d. vegna breytts mats um lánshæfi, mundi lánsfjárþörfin aukast a.m.k. um 12.7 milljónir eða verða alls rúmlega 160 milljónir króna.

Þetta eru aðeins litlar upplýsingar um lánsfjárþörf húsbyggjenda, sem sýna, hve knýjandi nauðsyn það er, að ríkisstj. geri allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að afla fjár til húsbygginganna, Að minnsta kosti verður að krefjast þess, að hún dragi það ekki lengur að standa við fyrirheit sitt um 40 millj. kr. framlagið, sem hún gaf 21. febr. Lánsfjárþörfin í heild er að sjálfsögðu miklu meiri en því nemur, og er vonandi. að ríkisstj. finni ráð til þess að bæta um það. En meðan það verður ekki, er henni þó ekki annað sæmandi en standa við fyrirheit sitt frá í vetur, Það væri þó a.m.k. nokkur úrlausn, þó að það leysi ekki allan þann vanda, sem húsbyggjendur eru í.

Ég mun ekki hafa þessi orð fleiri, en vænti þess, að hæstv. félmrh. geti veitt mér og öðrum hv. þingmönnum nokkurt svar við spurningu minni.