04.05.1960
Sameinað þing: 46. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í D-deild Alþingistíðinda. (3162)

903. mál, framlag til byggingarsjóðs

Fyrirspyrjandi (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Hæstv. félmrh. svaraði spurningu minni skýrt og greinilega, þó að e.t.v. megi segja, að ekki séu allir ánægðir með það, sem í svarinu fólst. Það er að vísu gott að fá að vita, að helmingur 25 millj. framlagsins komi fljótlega til úthlutunar og hinn helmingurinn síðar. Að vísu er það mjög óákveðið orðalag og getur sjálfsagt orðið enn dráttur á því, að það komi til úthlutunar. Og hvað snertir 15 millj. kr. framlagið, sem var sérstakur þáttur í þessu máli, þá er ánægjulegt, að það skuli vera unnið að því að reyna að koma því máli á rekspöl. Ég er sammála hæstv. ráðh. um, að það er auðvitað ekki eins aðkallandi, að það mál leysist, eins og hitt, en samt sem áður er þó full ástæða fyrir ríkisstj. að hraða því máli sem allra mest, því að eins og hæstv. ráðherrum er kunnugt, er það mikill fjöldi manna, sem bíður í ofvæni eftir því að fá úrlausn einmitt í þessu, því að þeir hafa gert sér miklar vonir um, að í fyrirheiti ríkisstj. frá í vetur væri um að ræða lausn, sem þeir gætu sætt sig við á þessu ári. — Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þær upplýsingar, sem hann gaf.