04.05.1960
Sameinað þing: 46. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í D-deild Alþingistíðinda. (3163)

903. mál, framlag til byggingarsjóðs

Jón Skaftason:

Herra forseti. Eins og tilkynning ríkisstj. frá 21. febr. um það, að ríkisstj. mundi útvega 40 millj. kr. til útlána á vegum byggingarsjóðs ríkisins á þessu ári, ber með sér, átti þetta að vera aukaframlag til byggingarsjóðsins umfram þær hinar venjulegu tekjur, sem sjóðurinn hefur tryggða tekjustofna til. Nú vildi ég mega spyrja hæstv. félmrh. að því í þessu sambandi, hvort hann geti gefið upplýsingar um það, hverjar tekjur sjóðsins á þessu ári muni verða af þeim tekjustofnum, sem hann nú býr við, og hvort megi vænta þess, að þegar þessu aukaframlagi, 12½ millj. kr., verði úthlutað nú í þessum mánuði, komi einnig til úthlutunar einhver hluti af föstum tekjum sjóðsins, og þá helzt, ef hann gæti svarað því, hversu stór hluti það mundi verða.