04.05.1960
Sameinað þing: 46. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í D-deild Alþingistíðinda. (3186)

906. mál, reikningar ríkisins í seðlabankanum

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. segir, að stefna ríkisstj. sé sú, að ekki verði lánað meira út frá bönkunum en sem nemur sparifénu. Þetta hefur heyrzt áður, en afleiðingarnar af þessu hljóta að verða þær, að það er ekki mögulegt að auka framleiðsluna, t.d. útflutningsvöruframleiðsluna, nema það mikil aukning verði á sparifénu í bönkunum, að mögulegt sé með því fé að fullnægja þörfum framleiðenda fyrir rekstrarlán.

Nú sýnist mér ákaflega hætt við því, að sparifé aukist ekki svo mikið, að af því verði hægt að fullnægja þessum þörfum framleiðendanna, og það verður ekki heldur séð, að það sé nein hætta því samfara fyrir efnahagslíf þjóðarinnar, þó að það séu aukin rekstrarlán í hlutfalli við aukna framleiðslu á vel seljanlegum útflutningsvörum eða nauðsynjavörum til innanlandsnotkunar, sem seljast örugglega og þörf er fyrir.

Nú vita það allir, að tilkostnaðurinn við framleiðsluna hefur aukizt geysilega frá því í fyrra, og er því ekki hægt að koma auga á, að mögulegt sé að framkvæma þessa stefnu ríkisstj., að lána ekki meira út á hvert tonn af útfluttum fiski t.d. eða aðrar framleiðsluvörur heldur en gert var árið sem leið. Þetta hlýtur að leiða til stöðvunar.

Hæstv. ráðh. sagði, að síðan tekið var að veita rekstrarlán til landbúnaðarins, hefðu þau aukizt um 50 millj. á ári að meðaltali. Þetta er ósköp eðlilegt, vegna þess að landbúnaðarframleiðslan hefur aukizt stórkostlega á þessu tímabili. En það er langt frá því, að hún sé of mikil enn þrátt fyrir þessa aukningu, sem orðið hefur. Það var fyrr á þessu ári, sem þurfti að flytja inn danskt smjör, og það eru horfur á því, að það verði að gera meira að því að flytja inn landbúnaðarvörur til neyzlu frá útlöndum, ef ríkisstj. heldur fast við þá stefnu sína að leyfa ekki meiri rekstrarlán til framleiðslunnar en voru í fyrra þrátt fyrir stóraukinn framleiðslukostnað og þrátt fyrir vaxandi framleiðslu.

Það lítur út fyrir samkvæmt þessu, að það sé ákveðin stefna hæstv. stjórnar að koma í veg fyrir það, að framleiðslan á nauðsynjavörum bæði til útflutnings og innanlandsnotkunar geti aukizt. Ég fæ ekki séð, að þessi stefna geti staðizt, — það er óhugsandi.