04.05.1960
Sameinað þing: 46. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í D-deild Alþingistíðinda. (3192)

908. mál, efnahagsmál sjávarútvegsins

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson):

Ég leyfi mér að þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin, enda þótt ég hefði kosið, að hann hefði séð sér fært að haga a.m.k. sumum þeirra á annan veg. Ég á þar ekki sízt við svar hans við annarri fsp., þar sem hann skýrði frá því, að í ríkisstj. hefði enn engin ákvörðun verið tekin um að rétta hlut þeirra, sem verða fyrir miklu áfalli vegna setningar efnahagslaganna við það, að niður falla þær sérbætur, sem greiddar voru á sérstakar fisktegundir og smáfisk og fisk veiddan á ýmsum tímum árs.

Eins og ég tók fram í ræðu minni áðan og allir vita reyndar. sem kunnugir eru, þá er þessi fiskur, sem sérbæturnar voru greiddar á, hlutfallslega mjög mikill hluti aflans, einkum í þeim landshlutum, sem ég nefndi, og þar hlutfallslega meiri en annars staðar, og þess vegna kemur þar mjög tilfinnanlega niður sú verðlækkun, sem á sér stað vegna niðurfalls sérbótanna. Ég vil leyfa mér að benda á það til athugunar fyrir þá, sem hafa einhvern áhuga á því, sem kallað er jafnvægi í byggð landsins, að það hefur áreiðanlega mikla þýðingu fyrir þá stefnu, að heldur sé hlynnt að sjávarútveginum í þorpunum í þessum landshlutum, þannig að hann geti vaxið og veitt fleirum verkefni. En með svona breytingum eins og þarna hafa átt sér stað er því miður alveg stefnt í öfuga átt. Og ég vil enn trúa því, að þó að hæstv. ríkisstj. sé ekki búin að taka ákvörðun, eins og ráðherrann sagði, þá hafi hún samt hugleitt þetta mál og muni þar einhverja forgöngu hafa. Verði það ekki og ekki á annan hátt sinnt þessu máli, er stofnað til mikilla vandræða.

Í svari við 3. fsp. gat ráðherra þess, að ríkisstj. hefði óskað eftir því við Fiskveiðasjóð Íslands, að lán út á skip, sem hafa verið í smíðum undanfarið, yrðu afgreidd miðað við andvirði hins erlenda gjaldeyris í íslenzkum krónum, og sýnist mér reyndar sjálfsagt mál, að þannig hafi átt að fara að. Hins vegar vil ég leyfa mér að vekja athygli á því í þessu sambandi, að í lögum um fiskveiðasjóð er ekki heimilað að lána út á skipasmíði erlendis nema 2/3 af kostnaðarverði, sem er töluvert lægra en lánað er út á skipasmíði innanlands, og eins og nú standa sakir, kynni að vera ástæða til að taka það ákvæði til sérstakrar endurskoðunar.

Að öðru leyti var ekki að heyra, að ríkisstj. hefði í hyggju að beita sér fyrir neinum ráðstöfunum í þessu skyni. Hún kveðst raunar hafa rætt við þá nefnd, sem úthlutar atvinnuaukningarfé, að líta með skilningi á þarfir þeirra, sem nú eru að eignast skip í smíðum erlendis. En eins og kunnugt er, hefur það verið venja að veita lán af atvinnuaukningarfénu út á ný skip, og er auðvitað vel farið, ef hægt væri að auka það eitthvað. Þá sagði hæstv. ráðherra, að rætt hefði verið við gjaldeyrisbankana, sem jafnframt eru viðskiptabankar, um að aðstoða eftir megni þá aðila, sem hér eiga hlut að máli. Hins vegar gat hann ekki um það nánar, í hverju stjórnin gæti hugsað sér, að sú aðstoð væri fólgin, eða hvort það hefur verið nánar íhugað.

Ég endurtek það, sem ég sagði áðan, að ég þakka fyrir svörin, þó að ég hefði kosið, að sumt í þeim hefði verið á annan veg og þó einkum svarið við annarri fsp.