22.03.1960
Efri deild: 46. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1417 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

88. mál, söluskattur

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Frv. um söluskatt var afgr. héðan úr þessari hv. d. með einni breytingu. Hún var við 3. gr. frv., 3. mgr., að orðið „umbúða“ félli þar niður. Í Nd. voru gerðar nokkrar frekari breyt. á frv. að till. fjhn., og vil ég taka fram, að fjhn. þeirrar d. stóð öll og óskipt að þeim brtt., og voru þær samþ. með shlj. atkv. Ég skal nú rekja, hverjar breyt. voru gerðar í hv. Nd.

Það er í fyrsta lagi við 4. gr. frv. F-liðurinn, sem var í frv. upphaflega, var felldur niður. Hann reyndist óþarfur, vegna þess að það, sem hann felur í sér, kemur í rauninni glöggt fram í upphafi 2. gr. frv. Í öðru lagi var felldur niður h-liður í sömu gr.: „sala happdrættismiða, getraunastarfsemi og þess háttar“. Þá var þriðja breyt. gerð á k-lið þessarar sömu gr., 4. gr. Þar segir, að til skattskyldrar sölu og þjónustu skuli telja m.a. sölu hvers konar vátrygginga, sem lög nr. 20 frá 1954 taka til, en í Nd. var bætt við: „þó ekki líftrygginga“, m.ö.o. að líftryggingar séu undanþegnar söluskatti.

Þá varð gerð breyt. á 6. gr., 12. tölul. Í henni sagði í frv. upphaflega, að undanþegin söluskatti skyldi vera m.a. sala á fasteignum, skipum og flugvélum, og var þar bætt við flugvélavarahlutum.

Í 7. gr. var gerð breyt. við 2. tölul. Samkv. honum er undanþegin söluskatti vinna við skipaviðgerðir, og var þar bætt við: „og flugvélaviðgerðir“.

Við 15. gr. var gerð orðalagsbreyting. Það er í lok 2. mgr., þar sem sagði svo í frv., að félög og félagasamtök skuli skyld að gefa upplýsingar um meðlimi sína, atvinnu þeirra og tekjur. Orðið „tekjur“ var þar fellt niður, þannig að það er skylt að gefa upplýsingar um meðlimi sína og atvinnu þeirra.

Loks er breyt. á 17. gr., 2. mgr. Þar segir, að undanþegnar séu söluskatti af innfluttum vörum m.a. viðgerðir á skipum og flugvélum framkvæmdar erlendis. Þar er bætt við: „og flugvélavarahlutir“.

Þessar eru þær breyt., sem gerðar voru á frv. Ég tel þær fremur til bóta og legg til, að frv. verði samþ. eins og það nú liggur fyrir með þessum breytingum á þskj. 216.