11.05.1960
Sameinað þing: 48. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í D-deild Alþingistíðinda. (3201)

909. mál, stofnlánasjóðir Búnaðarbankans

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er ósköp lítið, sem ég þarf að segja til viðbótar því, sem ég áðan sagði. Ég sagði, að ríkisstj. mundi útvega ræktunarsjóði og byggingarsjóði fé, og það er ekki mín sök, þótt hv. 1. þm. Vesturl. (ÁB) láti sér ekki nægja það. Hann talaði um, að ríkisstj. þyrfti að hafa hraðari hendur með útvegun lána en hún hefði gert undanfarið, — og það er ástæða til þess að óska þessum hv. þm. til hamingju með það, hve hann er ánægður með sjálfan sig og sinn flokk og þá stjórn, sem hann hefur stutt, í sambandi við landbúnaðarmálin, því að það er eins og það hafi aldrei komið fyrir, að það hafi verið fjárskortur í Búnaðarbankanum, fyrr en nú, Hann minnist þess ekki, að veðdeildin hefur verið févana undanfarin ár. Nei, nei, það er bara þörf á því núna að útvega veðdeildinni fé. Núv. stjórnarflokkar hafa áreiðanlega hug á að bæta úr því, og ég segi: Það er ekki stórt spor að stiga að jafnast á við það, sem gert hefur verið í því efni. Ég segi: Það er þörf á að gera meira, og ríkisstj. hefur hug á því.

Í sambandi við till., sem búnaðarþing samþ., get ég alveg sagt það hreinskilnislega, að ríkisstj. hefur ekki enn tekið afstöðu til hennar og er ekki enn farin að vinna að framkvæmd hennar. Það er í samræmi við það, sem ég áður sagði, að veðdeildinni hefur ekki enn verið útvegað fjármagn, enda þótt ég hygg allir hv. alþm. viðurkenni nauðsynina á því.

Um það, að bændur séu svartsýnir á framtíðina, þá er nú misjafnt með það. Hitt er rétt, að bændur eiga í ýmiss konar fjárhagserfiðleikum. Það er mér kunnugt um eins og hv. 1. þm. Vesturl. Mér er vel kunnugt um þá erfiðleika, sem margir bændur áttu í um síðustu áramót að gera upp reikninga sína. Ég gæti bezt trúað því, að hv. 1. þm. Vesturl. kæmi hér upp í ræðustólinn og segði: Ja, það er núv. ríkisstj, að kenna. Það er sök núv. ríkisstj., hversu fjárhagur bænda var aumur á s.l. ári, allt henni að kenna. Nei, ekki framsóknarmönnum, ekki fyrrv. stjórn, sem framsóknarmenn stóðu að, þeir eiga enga sök á því. — Og þannig eru þessir sjálfsánægðu menn, sem eru alveg krítiklausir á sjálfa sig og sina flokka. Það fyrsta, sem þeir gera, er að reyna að velta sökinni á aðra, og þeir fara fyrst að gera kröfur fyrir sína umbjóðendur, þegar þeir sjálfir eru komnir úr ábyrgðarstöðunum og valdastöðunum. Þá fyrst fara þeir að gera kröfur til annarra og gera meiri kröfur til annarra en sjálfs sín. Það hefur ekki fram að þessu þótt gæfulegt. En það hefur komið fram hjá hv. framsóknarmönnum, m.a. hv. 1. þm. Vesturl., að það er fyrst nú, þegar hann er kominn í stjórnarandstöðu, að hann gerir kröfu til stjórnarvaldanna og lokar algerlega augunum fyrir því, sem vel hefur verið gert.