11.05.1960
Sameinað þing: 48. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í D-deild Alþingistíðinda. (3212)

910. mál, sjúkrahúsalög

Fyrirspyrjandi (Daníel Ágústínusson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. ráðh. svör hans við þessari fsp. minni. en jafnframt vil ég vænta þess, að hæstv. ríkisstj. taki þessi mál til athugunar í sambandi við fjárveitingar til sjúkrahúsa. Og ég vil endurtaka það, sem ég sagði áðan, að mér finnst ekki viðkunnanlegt, að rn. geti á hverjum tíma sagt: Við styrkjum byggingarframkvæmdirnar skv. þessari lagagrein, en við styrkjum ekki þann tiltekna hluta af tækjum og áhöldum, sem á að styrkja skv. hinni lagagreininni.

Það, sem hér gerist, er það, að framkvæmdavaldið framkvæmir þá lagagrein, sem það telur eðlilegast að framkvæma, en skilur svo aðra lagagrein eftir og segist ekki sjá ástæðu til þess að framkvæma hana.

Það er vissulega rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að fjárveitingin þyrfti á hverjum tíma að vera í samræmi við framkvæmdirnar, og fjárþörf til þessara framkvæmda er vissulega mjög mikil. En hitt vil ég segja, að lög þau, sem ég vitnaði í, eru það afmörkuð og upphæðirnar ekki svo stórar, að það ætti að vera fullkomlega framkvæmanlegt fyrir fjárveitingavaldið að koma hér nokkuð til móts við þá lagagrein, sem hér hefur verið gerð að umræðuefni. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. og ríkisstj. beiti sér fyrir því, að þessi lagagrein verði framkvæmd jafnt og aðrar greinar sjúkrahúsalaganna og þar verði enginn mismunur gerður á.